Venjulegur góður matur á meðgöngu

Sjá stærri mynd

Margar tegundir fæðubótarefna eru á markaði hér á landi og er sumum hverjum þeirra beint að barnshafandi konum. Samkvæmt ráðleggingum sem koma fram í bæklingnum Mataræði á meðgöngu og gefinn er út af Embætti landlæknis í samstarfi við Matvælastofnun, Mæðravernd Þróunarstofu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Rannsóknastofu í næringarfræði, þurfa konur ekki sérfæði þótt þær eigi von á barni. 

Venjulegur matur, fjölbreyttur og hollur í samræmi við Ráðleggingar Embættis landlæknis um mataræði, fullnægir bæði þörfum barnsins og móðurinnar með fáeinum undantekningum.

Barnshafandi konum er til dæmis ráðlagt að taka
B-vítamínið fólat (fólasín) í töfluformi og gæta þess sérstaklega að borða fólatríkar matvörur þar sem fólat minnkar líkur á fósturskaða.

Eins er barnshafandi konum eins og öðrum ráðlagt að taka D-vítamín aukalega. Ráðlagður dagskammtur fyrir D-vítamín fyrir barnshafandi konur er 15 míkrógrömm (600 alþjóðaeiningar). D-vítamín má t.d. fá með því að taka Krakkalýsi/þorskalýsi, ómega3+D-vítamín eða D-vítamíntöflur. 

Á seinni hluta meðgöngu geta þær einnig þurft að taka járn.

Leiki hins vegar grunur á að mataræðið sé ekki nógu fjölbreytt og vel samsett er sjálfsagt að taka til dæmis eina venjulega fjölvítamíntöflu á dag eða vítamíntöflur sem sérstaklega eru ætlaðar konum á meðgöngu.

Ekki á að taka meira en ráðlagðan dagskammt og þær konur sem taka lýsi þurfa að muna að velja fjölvítamín án A-vítamíns. Ástæðan er sú að A-vítamín getur hugsanlega skaðað fóstur sé þess neytt í miklu magni. Ráðlagður dagskammtur fyrir A-vítamín fyrir konur á meðgöngu er 800 míkrógrömm (2664 alþjóðaeiningar). Flest fjölvítamín innihalda ráðlagðan dagskammt af fólati þannig að ekki er þörf á að taka fólatbætiefni sérstaklega velji konan að taka fjölvítamín sem inniheldur fólat.

Lesið meira:


Fyrst birt 08.12.2016
Síðast uppfært 18.07.2018

<< Til baka