Ungt fólk og sambönd - Upplýsingar til foreldra og forráðamanna

Á unglingsárunum eru margir að feta sín fyrstu skref í samskiptum við hitt kynið. Oftast er það ánægjuleg upplifun þó svo að því geti fylgt erfiðir tímar ef upp úr slitnar. Á þessum árum eru viðhorf ungmenna í mótun og þau gera sér ákveðna mynd af því hvað er eðlilegt og gott samband og hvað það felur í sér.

Rétt eins og meðal fullorðinna geta sambönd unglinga orðið ofbeldisfull og ungt fólk utan sambanda getur einnig átt á hættu að verða fyrir kynferðisofbeldi.

Að verða fyrir ofbeldi, hvort heldur sem er innan eða utan sambands, getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, svo sem þunglyndi, áfengisvanda, lágt sjálfsmat og áfallastreitu.

Þessari samantekt er ætlað að styðja foreldra í uppeldishlutverki sínu, fjallað er um sambönd unglinga, hvernig greina má hættumerki sem benda til að ofbeldis og hvernig hægt er að bregðast við.

Flýtileiðir:
Ofbeldi í samböndum unglinga
Hvað er ofbeldi?
Einkenni ofbeldis
Hvað er hægt að gera?
Aðstoð í boði

Ofbeldi í samböndum unglinga

Ofbeldi í samböndum getur komið fram á marga vegu, sem líkamlegt ofbeldi, sem andlegt eða félagslegt ofbeldi eða sem kynferðislegt ofbeldi. Að verða fyrir einni tegund ofbeldis útilokar ekki aðra, sem dæmi verða konur sem beittar eru líkamlegu ofbeldi yfirleitt líka fyrir andlegu ofbeldi. Ekki má gera lítið úr þeim skaða sem ofbeldi meðal unglinga veldur, en leiddar hafa verið líkur að því að ofbeldi í unglingasamböndum geti verið enn grófara en meðal fullorðinna þar sem unglingar eru á mótunarskeiði og setja sér síður mörk.

Reynsla af líkamlegu ofbeldi í sambandi eða af kynferðisofbeldi getur haft neikvæð áhrif á heilsuna alla ævi. Unglingar sem verða fyrir slíku ofbeldi eru líklegri til þess að ganga verr í skóla og stunda oftar áhættuhegðun, svo sem áfengis- og vímuefnanotkun. Afleiðingarnar geta líka brotist út síðar í sálrænum vandamálum, svo sem þunglyndi eða átröskunum, og jafnvel leitt til sjálfsvígs í sumum tilfellum eða hugsana um sjálfsvíg. Að auki eru unglingar sem hafa reynslu af ofbeldissamböndum líklegri til þess að lenda aftur í slíkum samböndum á fullorðinsárum.

 

Hvað er ofbeldi?

Rannsóknir hafa sýnt að unglingar geta haft aðra og óljósari sýn á ofbeldi heldur en fullorðnir.. Þau líta kannski á ákveðin atvik sem eðlilegan hlut þegar fullorðnir myndu telja atvikið til ofbeldis. Það er því mikilvægt að skilja hvaða skoðanir unglingar hafa og leiðrétta ranghugmyndir ef þær eru til staðar.

Líkamlegt ofbeldi er fólgið í því að einhver notar eigin líkama eða einhvern hlut til þess að skaða aðra manneskju og er það líklega sú tegund ofbeldis sem við þekkjum best. Unglingspiltar verða oftar fyrir líkamlegu ofbeldi, ekki bara frá öðrum drengjum heldur líka frá stúlkum. og það er mikilvægt að gera ekki lítið úr því þegar stúlkur beita ofbeldi. Það skal þó haft í huga að ofbeldi karla gegn konum er oft alvarlegra vegna líkamlegs aflsmunar eða félagslegs tangarhalds af einhverjum toga. Ofbeldi er lærð hegðun og ef einstaklingurinn sér að hann kemst upp með að beita ofbeldi til að ná sínu fram getur það orðið að vana.

Andlegt ofbeldi felst í því að einhver reynir að niðurlægja, stjórna eða kúga aðra manneskju. Það getur birst í formi hótana um líkamlegt ofbeldi eða að viðkomandi reynir að ráða hvað fórnarlambið segir, gerir eða hugsar, til dæmis að setja alltaf út á klæðaburð viðkomandi, gera lítið úr skoðunum og/eða áhugamálum, ráða því hvern viðkomandi hittir og hvað hann eða hún má segja.

Kynferðislegt ofbeldi er það þegar manneskja er þvinguð til kynferðislegra athafna sem hún eða hann vill ekki taka þátt í. Dæmi um þess háttar ofbeldi er að hafa í hótunum við einhvern til að koma fram vilja sínum eða nýta sér vanmátt annars, til dæmis sökum áfengisneyslu, eða hreinlega að neyta aflsmunar og/eða beita þvingunum til að fá viðkomandi til athafna sem hann eða hún kærir sig ekki um.

 

Einkenni ofbeldis

Eitt af einkennum unglingsárana er að unglingurinn krefst aukins sjálfræðis og tengsl við fjölskylduna breytast og jafnvel minnka. Unglingurinn þarf enn á stuðningi fjölskyldu sinnar að halda þó svo að hann gefi annað í skyn. Fyrir foreldra er gott að þekkja einkenni þess að unglingurinn þeirra beiti ofbeldi í nánu sambandi eða verði fyrir því eða að unglingurinn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Nokkur einkenni þess að unglingur beiti ofbeldi:

 • Notar hótanir eða ofbeldi til þess að leysa vandamál
 • Áfengis- og/eða vímuefnanotkun
 • Á erfitt með að bregðast við reiði eða vonbrigðum
 • Vandamál í skólaSlök sjálfsmynd
 • Léleg félagsfærni

Nokkur einkenni þess að unglingur verði fyrir ofbeldi:

 • Virðist óttast kærustu/kærasta
 • Er marin/n, með klórför eða önnur meiðsl sem ekki eru skýringar á, eða algengara en eðlilegt getur talist
 • Kærasti/kærasta virðist stjórna viðkomandi, ákveða hvað á að gera, hvernig á að klæðast o.s.frv.
 • Afsakar hegðun kærasta/kærustu. Minnist á ofsafengið skap hins en gerir svo lítið úr því eða snýr því upp í brandara.
 • Unglingurinn virðist missa áhuga á hlutum sem áður skiptu hann máli
 • Skyndileg breyting á útliti eða hegðun.

Fæstir unglingar segja frá því ef þeir eru beittir ofbeldi. Ef þeir segja frá er líklegra að þeir segi það vini eða vinkonu, sem er ekki endilega í góðri stöðu til þess að veita stuðning. Það er því mikilvægt fyrir foreldra að vera vakandi fyrir því hvort verið geti að unglingurinn þeirra beiti eða verði fyrir ofbeldi. Foreldri gæti einnig lent í þeirri stöðu að unglingurinn segi frá því að vinur eða vinkona sé beitt ofbeldi og þá er gott að geta hjálpað honum/henni að styðja aðra.

Veitið því athygli ef unglingurinn vill ræða við ykkur. Ef hann eða hún hangir mikið í kringum ykkur án þess að segja neitt eða reynir að ná til ykkar þegar enginn annar er til staðar er líklegt að unglingurinn vilji ræða eitthvað mikilvægt. Unglingurinn getur líka verið að kvarta um að líða eitthvað illa en engin líkamleg einkenni virðast vera til staðar. Margir unglingar eiga erfitt með að opna sig við foreldra og því er mikilvægt að grípa tækifærið þegar það gefst, ekki fresta því en heldur ekki gera of mikið mál úr því. Ef þið viljið opna umræðu um ofbeldi í samböndum, hefjið þá samtalið á einhverju almennu efni og fikrið ykkur svo áfram.

 

Hvað er hægt að gera?

Til þess að koma í veg fyrir að unglingur verði fyrir eða beiti ofbeldi:

 • Einlæg og opin samskipti.: Til þess að þekkja unglinginn þurfa foreldrar að gefa sér tíma til að spjalla, bæði til þess að þekkja inn á börnin sín og einnig svo að unglingurinn finni að hlustað sé á hann og að honum finnist auðvelt að leita til foreldris ef ráð vantar eða eitthvað bjátar á.
 • Góðar fyrirmyndir: Foreldrar hafa mikil áhrif á börn sín og með því að sýna að hægt sé að leysa vandamál án þess að beita ofbeldi eða tala á niðurlægjandi máta sýnum við unglingum hvernig á að koma fram við aðra og hvaða framkomu við getum krafist af öðrum.
 • Reiðistjórnun: Öll verðum við reið einhvern tíma, en við verðum að skoða hvernig við tökumst á við reiðina. Gott er að kenna börnum sínum að þekkja einkenni þess að þau séu í þann veginn að verða reið, t.d. hitnar eða kreppa hnefana. Einfaldar leiðir til að hemja reiði geta verið að telja upp að tíu eða yfirgefa aðstæðurnar. Ef krakkar ná tökum á að stoppa sig af geta þau frekar hugsað málið áður en þau bregðast við.
 • Samhyggð: Með aukinni samhyggð minnkum við líkur á að börn meiði aðra viljandi. Gott er að kenna börnum að sjá hlutina frá sjónarhorni annarra og átta sig á hvernig þeim líður. Slíkt getur aukið á samskiptafærni.
 • Lausn vandamála: Hjálpið börnum ykkar að leysa vandamál með því að ígrunda vel hvaða vanda þau glíma við. Með því að búta vandamál sín í smærri viðráðanlegar einingar, koma auga á hugsanlegar lausnir og hvað lausnirnar hafa í för með sér hjálpum við börnum að takast á við vandamál á jákvæðan hátt og án ofbeldis.
 • Samingagerð: Börn og ungmenni verða að átta sig á að þau fá ekki alltaf það sem þau vilja. Í heilbrigðum samböndum eiga málamiðlanir sér stað. Unglingar þurfa að læra að skoða hlutina frá ýmsum sjónarhornum og reyna að finna leiðir sem koma til móts við væntingar sem flestra.
 • Skýrleiki: Að vera opinn og skýr um tilfinningar og væntingar getur komið í veg fyrir ágreining. Það þarf að bera virðingu fyrir eigin þörfum og annarra. Ekki er átt við ýtni og yfirgang til að koma vilja sínum á framfæri. Ýtni og yfirgangur getur orðið leið til að drottna yfir öðrum og beita andlegu og félagslegu ofbeldi. Þau börn sem geta vandræðalaust sagt frá óskum sínum og þörfum eru síður líkleg til að fara í sambönd þar sem ofbeldi og kúgun á sér stað.
 • Sanngjörn rifrildi: Öll lendum við einhvern tímann í því að rífast. Það skiptir miklu máli í samböndum hvernig fólk rífst. Að rífast á sanngjarnan máta er að halda sig við efnið, forðast svívirðingar eða móðganir og vísa ekki í fortíðina. Börn þurfa einnig að læra að það er í lagi að yfirgefa aðstæður og koma aftur að þeim síðar þegar þau hafa róast og geta rætt hlutina.

Ef unglingur hefur þegar orðið fyrir ofbeldi:

 • Haldið ró ykkar, ef viðbrögð ykkar eru ofsafengin er hætt við að unglingurinn neiti að tjá sig frekar og það getur aukið á sektarkennd hans eða hennar.
 • Hlustið á unglinginn og trúið því sem hann eða hún segir.
 • Verið til staðar fyrir unglinginn, það þarf ekki alltaf að tala.
 • Komið því áleiðis að enginn á skilið að vera beittur ofbeldi.
 • Útskýrið fyrir unglingnum að þetta sé ekki henni eða honum að kenna.
 • Bjóðið fram aðstoð ykkar en ekki taka völdin af unglingnum. Einstaklingur sem hefur orðið fyrir ofbeldi eða árás finnur þegar fyrir vanmætti þar sem völdin voru tekin af honum eða henni. Til þess að auka ekki á vanmáttarkenndina verður að leyfa unglingnum sjálfum að ráða ferðinni.. Þetta atriði er sérstaklega mikilvægt fyrir foreldra að hafa í huga. (Ef þig grunar að unglingurinn sé í ofbeldisfullu sambandi er ekki heppilegt að setja boð og bönn, það verður til þess að unglingurinn leitar ekki til þín.)
 • Hvetja hann/hana til að fá aðstoð við að takast á við vandann og afleiðingar ofbeldisins. Aðstoðið hann/hana við að nálgast þá hjálp sem þörf er á.

 

Aðstoð í boði:

Fyrir gerendur í kynferðisofbeldismálum

 • Hægt er að leita til barnaverndarnefnda sveitarfélaganna auk þess sem félagsþjónustan býður oft einhver úrræði. Að auki er hægt að leita til sjálfstætt starfandi sálfræðinga.
 • Hjálparsími Rauða krossins er 1717

Fyrir þolendur í kynferðisofbeldismálum

 • Lögum samkvæmt geta ósjálfráða ungmenni ekki fengið sálfræðimeðferð nema með vitneskju foreldra sinna. Þau geta þó hringt í hjálparsíma Rauða krossins, 1717.
 • Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga hafa einstaklingar sjálfræði til að leita sér læknishjálpar við 16 ára aldur. Neyðarmóttaka vegna nauðgana (543-2085) tekur við þeim sem þangað koma, en sé viðkomandi undir 18 ára aldri er skylt að tilkynna það til barnaverndar. Starfsfólk neyðarmóttöku aðstoðar svo þolanda við að segja foreldrum sínum frá.
 • Barnahús tekur við börnum og ungmennum upp að 18 ára aldri. Sú þjónusta er ókeypis en til þess að fá hana þarf tilvísun frá barnaverndarnefnd þess sveitarfélags sem viðkomandi býr í.Fyrst birt 01.03.2009
Síðast uppfært 24.10.2012

<< Til baka