Kynferðisofbeldi

Flestir hugsa um nauðgun þegar kynferðisofbeldi ber á góma en rétt eins og með annað ofbeldi eru til margar tegundir kynferðisofbeldis.

Að segja nei á mismunandi hátt:
Stundum heyrum við að fólk eigi bara að segja nei ef það vill ekki eitthvað eða að hægt sé að koma í veg fyrir nauðgun ef viðkomandi virkilega vill það. Þetta er ekki svo einfalt og mikilvægt að skilja að þegar nauðgun á sér stað verður þolandi fyrir svo miklu áfalli að hann getur ekki barist á móti eða árásarmaðurinn getur verið mun sterkari.

Það er líka algengt að gerendur misnoti sér einstakling sem er undir áhrifum áfengis og lyfja eða hvetji til drykkju með það í huga að geta misnotað hann kynferðislega.

Stundum finnst fólki erfitt að segja nei með orðum en er með öllu líkamsfasi sínu að meina nei. Skoðum aðeins hvaða líkamsbeiting segir nei:

 • Að snúa sér undan.
 • Að krossleggja hendur eða fætur.
 • Að stífna upp eða frjósa.
 • Að reyna að fara að tala um allt annað.
 • Að hika og reyna að draga á langinn að gengið sé lengra.

Það geta verið margar ástæður fyrir því að við getum ekki sagt nei. Stundum gerast hlutirnir einfaldlega of hratt, við þorum ekki að segja nei af ótta við að eitthvað verra komi fyrir, eða áfengi eða lyf gera manni erfitt fyrir.

Stundum getur fólki fundist að það fái misvísandi skilaboð og ef svo er þá verður að skýra málið, spyrja einfaldlega „viltu ganga lengra“ eða „er í lagi að ég geri þetta“.

Ef manneskja stífnar upp eða virðist ekki með í atlotum er rétt að hætta og kanna hvort vilji sé til að halda áfram.

Það er ekki hægt að réttlæta nauðgun með því að segja að viðkomandi hafi ekki sagt nei. Þegar brotist er inn í hús sagði eigandinn ekki nei (hann var ekki spurður...) en samt vitum við að lögbrot var framið!


Hvað gerir áfengi?
Þrátt fyrir mikið tal um lyf og nauðganir er það engu að síður staðreynd að áfengi er oftast það vímuefni sem var haft um hönd þegar nauðgun er annars vegar.

Áfengi hefur ýmis áhrif á okkur en við verðum þó að bera ábyrgð á hegðun okkar undir áhrifum. Áfengi losar um hömlur og fólk notar það oft í þeim tilgangi að slappa af eða auka þor. Áfengi skerðir fljótt dómgreind og ekki þarf mikla neyslu til þess að rökrétt ákvarðanataka verði erfiðari. Eftir sem áður ber fólk ábyrgð á hegðun sinni.

Neikvæðar afleiðingar áfengis geta verið ýmsar.

 • Manneskja sem er mikið drukkin er ekki í ástandi til að veita meðvitað samþykki.
 • Manneskja sem er mikið drukkin á erfitt með að skýra frá tilfinningum sínum og ásetningi.
 • Skert hæfni/vilji til að taka því sem önnur manneskja segir (segir nei, snýr sér undan).
 • Skert hæfni til að standast þrýsting annarra um að ná sínu fram.
 • Manneskja sem er mikið drukkin getur átt erfitt með að átta sig á og bregðast við því að árás sé yfirvofandi.


Áfengi er aldrei afsökun!

Þrátt fyrir að algengast sé að áfengi hafi verið haft um hönd gerist það einnig að fólki sé byrlað lyfjum. Það er mikilvægt að fylgjast vel með glasinu sínu, fylgjast með vinum sínum og grípa inn í ef eitthvað virðist óeðlilegt.


Hvað get ég gert?
Það er ýmislegt sem við getum gert til þess að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi. Þó ber að hafa í huga að sá sem verður fyrir slíku ofbeldi ber aldrei sökina. Ábyrgðin er gerandans.

Til að minnka líkur á að kynferðisofbeldi eigi sér stað:

 • Virðum skoðanir og mörk annarra.
 • Spyrjum beinna spurninga ef okkur finnst við fá misvísandi skilaboð.
 • Látum í ljós þá skoðun okkar að ofbeldi og nauðung sé aldrei ásættanleg eða afsakanleg.
 • Áfengisneysla er aldrei afsökun fyrir því að beita aðra ofbeldi!
 • Gætum hvert annars – fylgjumst með vinum okkar og skiptum okkur af því ef við höldum að verið sé að neyða einhvern til að gera eitthvað sem hann/hún vill ekki.
 • Tökum ábyrgð á áfengisneyslu okkar.


Hvað geri ég til ef einhver hefur þegar orðið fyrir ofbeldi?
Það getur verið erfitt að hlusta á einhvern segja frá því að hann eða hún hafi orðið fyrir ofbeldi. Engu að síður er mikilvægt að hlusta og reyna að aðstoða þolanda. Ef einhver trúir manni fyrir því að hafa orðið fyrir ofbeldi er gott að hafa þetta í huga:

 • Haldið ró ykkar. Ef maður verður mjög æstur er hætta á að stelpan/strákurinn þori ekki að segja meir eða finnist að þetta hafi verið sér að kenna.
 • Hlustið og trúið því sem hann eða hún segir.
 • Verið til staðar fyrir vin ykkar, það þarf ekki alltaf að tala.
 • Komið því áleiðis að enginn á skilið að vera beittur ofbeldi.
 • Útskýrið að þetta sé ekki henni eða honum að kenna.
 • Bjóðist til að hjálpa en ekki ákveða hvað vinur ykkar á að gera. Sá sem hefur orðið fyrir ofbeldi eða árás finnur þegar fyrir vanmætti þar sem völdin voru tekin af honum eða henni. Til þess að auka ekki frekar á vanmáttarkenndina er best að leyfa viðkomandi sjálfum/sjálfri að ráða ferðinni.
 • Hvetjið hann/hana til að leita hjálpar við að takast á við vandann og afleiðingar ofbeldisins.


Úrræði
Enda þótt við getum sjálf gert mikið til að aðstoða þann sem hefur orðið fyrir ofbeldi þá þarf fólk oft á sérfræðihjálp að halda. Hægt er að leita aðstoðar á ýmsum stöðum. þar á meðal eru:

 • Skólahjúkrunarfræðingar, námsráðgjafar
 • Stígamót (www.stigamot.is)
 • Kvennaathvarfið (www.kvennaathvarf.is )
 • Hjálparsími Rauða Krossins, 1717
 • Áfallamiðstöð Landspítala
 • Lögreglan

Áfallamiðstöð Landspítala, Neyðarmótttaka vegna nauðgunar:
Þjónustan stendur öllum til boða. Þeir sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi geta leitað sér aðstoðar til þess að fá ráðgjöf og stuðning eða til þess að fá læknismeðferð og aðra meðferð. Best er að hringja fyrst og biðja um þjónustu hjá Neyðarmóttökunni (543-1000).

Lögreglan:
Hægt er að biðja um aðstoð lögreglu til að komast á Neyðarmóttökuna.
Á vefsíðunni hér að neðan er hægt að lesa sér til um hvað lögreglan gerir þegar ofbeldismál er rannsakað/kært og hvað viðkomandi þarf að gera:
http://www.logreglan.is

 


 

 


Fyrst birt 24.10.2012
Síðast uppfært 24.10.2012

<< Til baka