Spurningar og svör – Skólar

 • Á að kaupa spritt í skólana?
  Það er nóg að leggja áherslu á að þvo hendurnar. Þó spritt sé gagnlegt er ekki nauðsynlegt að hafa spritt við höndina ef aðstaða til handþvottar er til staðar. Til greina kemur að vera með spritt ef aðstöðu til handþvottar er ábótavant.
 • Má vera með margnota handklæði í stað bréfþurrka?
  Nei, handþvotturinn er þá að líkindum gagnslítill og hugsanlega geta margnota handklæði stuðlað að dreifingu smits. Nota skal einnota bréfþurrkur.
 • Er smithætta af hráka?
  Varasamt er að hrækja. Smit frá hráka getur borist á hendur barnanna og þaðan í slímhúðir í nefi, munni og augum. Brýna þarf fyrir börnum að hætta að hrækja.
 • Er óhætt að vera með samkomur á sal (t.d. við skólasetningu)?
  Já það er í lagi. Brýna skal fyrir þeim sem eru með inflúensulík einkenni að halda sig heima í tvo daga eftir að viðkomandi er orðinn hitalaus.
 • Þarf að auka ræstingu í skólum?
  Ekki eru gerðar neinar kröfur um breytingu á ræstingu en ágætt að minna á að þrífa með sápuvatnsvættum klúti algenga snertifleti eins og hurðarhúna, ljósarofa o.fl.
 • Hver eru tengsl heilsugæslunnar á heimasvæði skólans við skólann?
  Skólahjúkrunarfræðingurinn er í tengslum við heilsugæslustöðina á svæðinu. Fólki er ráðlagt að hafa samband við heilsugæsluna á sínu svæði ef þörf er á læknishjálp vegna sýkinga af völdum inflúensu A(H1N1)v og við Læknavaktina utan dagvinnutíma.
 • Þurfa skólastjórnendur að halda skrá yfir þá sem veikjast?
  Nei, en væntanlega halda skólar skrár yfir fjarvistir nemenda og kennara.
 • Hversu lengi smita þeir sem eru sýktir?
  Gera má ráð fyrir að viðkomandi geti verið smitandi í allt að 7 daga frá upphafi einkenna.
 • Er óhætt að fara í skólann ef einhver í fjölskyldunni er með inflúensu?
  Já ef viðkomandi er einkennalaus er engin ástæða til að vera heima. Ekki þarf að draga úr samskiptum við annað fólk því litlar líkur eru á því að einkennalaust fólk dreifi smiti. Það er því engin ástæða til að vera frá vinnu eða skóla þó einhver í nánasta umhverfi sé með sýkingu af völdum inflúensu A(H1N1)v.
 • Hvað á að gera við einkenni inflúensu?
  Ef veikindin byrja í skólanum skal nemandinn láta kennarann vita sem hefur samband við skólahjúkrunarfræðing eða foreldra/forráðamenn. Ef bið er á að nemandinn komist heim (sóttur af foreldrum/forráðamönnum) skal reyna að hindra smit til annarra, t.d. bíða hjá skólahjúkrunarfræðingi. Þeir sem veikjast heima tilkynna skólanum um veikindin. Mælt er með að fólk haldi sig heima í tvo daga eftir að það er orðið hitalaust. Ef þörf er á læknisþjónustu á dagvinnutíma skal hringja í heilsugæslustöðina á svæðinu, utan dagvinnutíma Læknavaktina. Almenn meðferð við inflúensu er góð hvíld, að drekka vel og hitalækkandi lyf, en ekki má gefa börnum undir 16 ára aldri asperín.

Fyrst birt 02.11.2009
Síðast uppfært 30.06.2017

<< Til baka