Hvernig má forðast smit?

Hvernig má forðast smit af völdum inflúensu A(H1N1)v?

Þær leiðbeiningar sem hér eru birtar miðast við að inflúensufaraldurinn verði áfram vægur en geta breyst ef hann verður alvarlegur.

Sýkingavarnir sýktra einstaklinga
Mikilvægt er að þeir sem eru með inflúensulík einkenni (t.d. hita, hósta, hnerra, hálsbólgu, beinverki):

 • Byrgi munninn með einnota pappírsþurrkum þegar hóstað er eða hnerrað.
 • Þvoi sér oft um hendur eða beri á þær handspritt.
 • Haldi a.m.k. eins metra fjarlægð frá öðrum, ef unnt er.
 • Haldi kyrru fyrir heima í tvo daga eftir að viðkomandi er orðinn hitalaus.

Sýkingavarnir á heimilum
Inflúensa smitast auðveldlega milli manna á heimilum og erfitt að koma í veg fyrir það með notkun hlífðarbúnaðar. Þess vegna er ekki mælt með að heimilisfólk veikra í heimahúsi noti hlífðarbúnað. Hins vegar má draga úr líkum á smiti með eftirfarandi aðgerðum:

 • Takmarka samneyti við hinn veika eins og unnt er, t.d. með því að halda u.þ.b. eins metra fjarlægð frá honum eða vera ekki í sama herbergi.
 • Þvo hendur oft og vel eða hreinsa þær með handspritti.
 • Hafa góða loftræstingu (glugga opna), einkum í sameiginlegu rými, s.s. í eldhúsi og baðherbergi.
 • Þrífa vel með sápuvatni, einkum sameiginleg rými og staði sem allir á heimilinu snerta, t.d. borðplötur, handfang á kæliskáp, hurðarhúna o.s.frv.
 • Forðast beina snertingu við líkamsvessa (slím úr öndunarvegi, hægðir, uppköst, blóð). Ef snerting verður skal hreinsa hendurnar (með þvotti eða handspritti) strax á eftir.
 • Þeir sem annast ættingja eða vini með inflúensu í heimahúsi ættu að takmarka samskipti sín út á við eins og unnt er á meðan veikindin standa yfir.
 • Ef hinn veiki þarfnast aðstoðar læknis eða hjúkrunarfræðings skal hringja í heilsugæslu/læknavakt og fá ráðleggingar.
 • Ef sá/sú sem annast hinn veika finnur fyrir einkennum um inflúensu er ráðlagt að hafa strax samband við lækni, sem metur þörf á meðferð.
 • Ekki er mælt með fyrirbyggjandi notkun veirulyfja.

Hversu lengi geta inflúensuveirur lifað utan líkamans?
Við ákjósanleg skilyrði hefur komið í ljós að inflúensuveirur geta lifað í 24–48 klst. á hörðu ógegndræpu yfirborði, á taui og pappír í 8–12 klst. og í fimm mínútur á húð.

Sótthreinsun
Inflúensuveirur eru hjúpaðar og innihalda fitusameindir sem gera þær viðkvæmar fyrir utanaðkomandi áhrifum, s.s. þvotti með vatni og sápu og öllum hefðbundnum sótthreinsunarefnum. Talið er að það sama gildi um hina nýju inflúensuveiru A(H1N1).

 


Fyrst birt 20.08.2009
Síðast uppfært 09.10.2012

<< Til baka