Spurningar og svör – Inflúensa A(H1N1)v

 • Hver eru einkenni inflúensu A(H1N1)v í mönnum?
  Einkenni inflúensu A(H1N1)v í mönnum eru oftast svipuð einkennum af völdum árstíðarbundinnar inflúensu, þ.e. hiti, hósti, hálssærindi, þreyta og slappleiki. Einnig hefur verið lýst einkennum frá meltingarvegi (uppköst og/eða niðurgangur) hjá fleiri tilfellum samanborið við árlega inflúensu.
 • Hvað á ég að gera ef mig grunar að ég sé með inflúensu A(H1N1)v?
  - Ef þú ert í vinnu eða á fjölmennum stöðum þegar þú veikist, skaltu fara heim.
  - Hringdu í heilsugæsluna á þínu svæði og fáðu ráðleggingar.
  - Ef þörf er á læknisrannsókn, fylgdu leiðbeiningum frá heilsugæslunni um hvernig henni verður háttað til að koma í veg fyrir að aðrir smitist.
  - Taktu verkjastillandi eða hitalækkandi lyf í samræmi við leiðbeiningarnar sem fylgja með lyfinu. Börn undir 16 ára aldri mega ekki taka aspirín.
  - Drekktu vel.

  Fylgstu vel með ráðleggingum sóttvarnalæknis í fjölmiðlum og á www.influensa.is
 • Hversu lengi smita þeir sem eru sýktir?
  Gera má ráð fyrir að viðkomandi sé smitandi í allt að 7 daga frá upphafi einkenna.
 • Hvernig smitast menn af inflúensu A(H1N1)v?
  Smitleiðirnar eru þær sömu og í árlegri inflúensu, þ.e. með dropum sem myndast við hósta og hnerra frá inflúensasjúklingi. Inflúensuveirur eru í dropunum sem berast út í loftið og getur fólk andað þeim beint að sér. Droparnir falla síðan niður í umhverfi hins veika og geta borist þaðan á hendur annars einstaklings og valdið smiti ef viðkomandi snertir slímhúð í munni, nefi eða augum án þess að hafa þvegið sér um hendur eða sprittað hendurnar eftir snertingu við mengað yfirborð. Droparnir falla yfirleitt innan við 1 meters fjarlægð og er smithættan því minni ef maður er í a.m.k. eins meters fjarlægð frá þeim sem hóstaði eða hnerraði.
 • Hvaða yfirborð eru líklegust til að vera menguð af inflúensu A(H1N1)v?
  Veiran getur borist við hósta eða hnerra á snertifleti í nánasta umhverfi inflúensusjúklings eða sjúklingurinn mengað þá með því að snerta þá með höndunum ef hann hefur ekki þvegið þær eða sprittað.

  Dæmi um algenga snertifleti eru hurðarhúnar, borðblötur, lyklaborð, tölvumýs og símar. Rannsóknir benda til að inflúensuveiran geti lifað og smitað fólk í 2-8 klst. eftir að hún lendir á yfirborðinu.
 • Hvernig get ég forðast að smita aðra þegar ég er veikur?
  - Dragðu úr samskiptum við annað fólk eins mikið og þú getur. Vertu heima í einangrun, ekki fara í skóla eða vinnu fyrr en þú ert búinn að vera hitalaus í tvo daga.
  - Við hnerra eða hósta skaltu hylja vit með bréfþurrku. Hentu bréfþurrkunni í ruslið strax eftir notkun og þvoðu eða sprittaðu hendur á eftir. Ef engar bréfþurrkur eru við hendina er ráðlegt að hnerra eða hósta í olnbogabótina til að minnka líkur á að veiran berist á hendurnar.
  - Þvoið eða sprittið hendurnar oft.
 • Hvað er hægt að gera til að minnka líkur á smiti?
  Mikilvægt er að gæta almenns hreinlætis.

  - Forðast náið samband við fólk sem er með einkenni inflúensu.
  - Halda a.m.k. eins metrers fjarlægð frá þeim sem eru með einkenni um inflúensu ef unnt er.
  - Halda kyrru fyrir heima á meðan veikindi standa yfir þar til þú ert búinn að vera hitalaus í tvo daga. Forðast mannsöfnuði.
  - Hnerra eða hósta í einnota pappírsþurrku eða olnbogabót og hreinsið hendur strax á eftir.
  - Þvo hendur oft eða berið á þær handspritt.
  - Forðast að bera hendur að munni, augum eða nefi því að hendurnar geta verið mengaðar eftir snertingu við t.d. hendur sýktra eða annað mengað í umhverfinu og sýkillinn berst þá með höndunum í slímhúðir augna, nefs eða munns.
 • Koma hlífðargrímur í veg fyrir smit?
  Óumdeilt er að hlífðargrímur gagnast heilbrigðisstarfsfólki sem stunda sjúklinga með inflúensu. Ekki hefur verið sýnt fram á að dagleg notkun hlífðargríma verji almenning gegn inflúensusmiti jafnvel á svæðum þar sem mörg smittilfelli hafa greinst. Grímurnar geta gefið falskt öryggi og jafnvel hugsanlega aukið líkur á smiti ef þær eru notaðar of lengi og/eða komið er við þær með höndunum.

  Til greina kemur að rjúfa smitleiðir með því að setja hlífðargrímu á inflúensusjúklinga í stuttan tíma, t.d. við flutning.
 • Hvað geri ég ef ég hef átt samskipti við einstakling með inflúensu A(H1N1)v?
  Ef þú færð engin einkenni sýkingar er engin ástæða til sérstakra aðgerða. Þú þarft ekki að draga úr samskiptum við annað fólk því afar litlar líkur eru á því að þú sért smitandi ef þú ert einkennalaus. Það er því engin ástæða til að vera frá vinnu eða skóla þó einhver í nánasta umhverfi sé með sýkingu af völdum inflúensu A(H1N1)v.

  En ef þú færð einkenni sýkingar getur þú haft samband við heilsugæsluna á þínu svæði á dagvinnutíma eða Læknavaktina á höfuðborgarsvæðinu utan hefðbundins dagvinnutíma ef einkenni eru talin alvarleg. Best er að hringja fyrst í heilsugæsluna/Læknavaktina til að draga úr líkum á smiti til annarra ef talin er þörf á skoðun læknis.
 • Hverjir eru í aukinni áhættu að fá alvarlegar sýkingar af völdum inflúensu A(H1N1)v?
  Svo virðist sem hætta á alvarlegum sýkingum af völdum inflúensu A(H1N1)v veiru sé dálítið meiri hjá barnshafandi konum og fólki með langvinna undirliggjandi sjúkdóma, t.d. lungnasjúkdóma, offituvandamál, taugasjúkdóma eða efnaskiptasjúkdóma. Læknir metur hvort þörf sé á veirulyfjameðferð hjá þessu einstaklingum.
 • Er hægt að smitast með neyslu svínakjöts eða annarra afurða þeirra?
  Nei. Inflúensuveiran smitast ekki með því að borða rétt meðhöndlað svínakjöt, sem er eldað á réttan hátt, né heldur með öðrum afurðum svínakjöts. Ekki liggja fyrir nein vísindaleg gögn sem benda til þess að menn geti smitast af neyslu svínakjöts eða svínaafurða. Óháð núverandi faraldri er nauðsynlegt að brýna fyrir fólki að forðast neyslu á hráu kjöti til að koma í veg fyrir matarsýkingar. Það er alltaf ráðlegt að viðhafa gott hreinlæti í eldhúsinu og þvo vel hendur og yfirborð eftir meðhöndlun á hráu kjöti. Við innra hitastig 70°C í svínakjöti drepast veirur og bakteríur.
 • Ég fór til læknis, hann tók ekkert sýni en taldi líklegt að ég væri með inflúensu A(H1N1)v sýkingu. Er það í lagi?
  Já, læknirinn getur gert læknisskoðun og tekið afstöðu til meðferðar með veirulyfjum án þess að sýni sé tekið til staðfestingar. Í upphafi faraldursins er mikilvægt að taka sýni til að staðfesta útbreiðslu veirunnar hérlendis. Það er þó ekki nauðsynlegt að taka sýni frá öllum og er það meðhöndlandi læknir sem tekur endanlega ákvörðun um sýnatöku hverju sinni. Þegar nýja veiran er orðin algeng í samfélaginu verður ómögulegt að taka sýni frá öllum vegna mikils fjölda tilfella og greiningin og ákvörðun um veirulyfjameðferð byggir þá í langflestum tilfellum eingöngu á skoðun læknis.
 • Hvernig er staðan í Evrópu?
  Staðan breytist stöðugt, bestu upplýsingarnar eru á vefsetri Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (European Centre for Disease Control – ECDC) 
 • Hvernig er staðan á Íslandi?
  Upplýsingar um stöðuna hérlendis eru stöðugt uppfærðar á www.influensa.is
 • Samvinna við útlönd
  Íslendingar fá upplýsingar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og hafa jafnframt nána samvinnu við sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) og Evrópusambandsins (ESB) um vöktun og viðbrögð. Þessar stofnanir, ásamt Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) hafa með sér náið samstarf um að fylgjast með og meta stöðuna.
 • Hvað er heimsfaraldur inflúensu?
  Heimsfaraldur inflúensu verður þegar nýr stofn inflúensu A veiru sem enginn hefur mótefni gegn, fer að berast manna á milli og sýkir stóran hluta mannkyns.

  Á síðustu öld gengu þrír heimsfaraldrar inflúensu yfir. Fyrst kom spænska veikin 1918–1919, en talið er að allt að 50 milljónir manna hafi látist af völdum hennar, aðallega ungt fólk á aldrinum 20–40 ára. Á Íslandi létust um 500 manns. Næstu heimsfaraldrar voru Asíuinflúensan 1957–1958 og Hong Konginflúensan1968–1969, en manntjón í þessum faröldrum var mun minna en í spænsku veikinni.

  Næstum 40 ár eru frá því að síðasti heimsfaraldur reið yfir, en það er óvenju langur tími milli slíkra faraldra í sögulegu samhengi.
 • Er til viðbragðsáætlun fyrir Ísland gegn heimsfaraldri inflúensu?
  Já, sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa sl. ár unnið að gerð viðbragðsáætlunar, sem var undirrituð í mars 2008

  Viðbúnaðaráætlunin nær yfir alla þætti samfélagsins því nauðsynlegt er að halda uppi mikilvægum samfélagsstoðum eins og löggæslu, fjarskiptum, orku- og vatnsdreifingu, sorphirðu, starfsemi fjölmiðla og banka og skipuleggja birgðir matvæla og annarra nauðsynja ásamt dreifingu þeirra.

  Í viðbúnaðaráætluninni er gert ráð fyrir ýmsum sóttvarnaráðstöfunum, svo sem bólusetningum, einangrun smitaðra, afkvíun byggðarlaga eða landsins alls, lokunum skóla eða samkomubanni og notkun veirulyfja.

  Í viðbragðsáætluninni er tekið á hlutverki heilbrigðisþjónustunnar sem þarf að vera undir það búin að annast aukinn fjölda sjúkra. Heilsugæslan gegnir mikilvægu hlutverki við fyrstu greiningu og meðferð ásamt umönnun sjúkra í heimahúsum. Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir undirbúa móttöku fjölda inflúensusjúklinga sem þurfa á innlögn að halda. Samtímis þarf að halda gangandi annarri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

  Birgðir af veirulyfjum til notkunar í heimsfaraldri inflúensu eru til í landinu. Sama gildir um nauðsynlegan hlífðarfatnað fyrir heilbrigðisstarfsmenn og aðra sem koma að umönnun sjúkra. Kaupréttur á bóluefni, þegar heimsfaraldur brýst út, er tryggður og unnið er að birgðahaldi á öðrum nauðsynlegum lyfjum.
 • Hvað er inflúensa A(H1N1)v veira?
  Inflúensu A(H1N1)v veiran, sem nú breiðist út, er ný undirtegund af inflúensuveiru sem leggst á menn. Veiran er með erfðaefni frá svína-, fugla- og mannainflúensu A veirum, en þessi samsetning hefur aldrei sést áður.
 • Af hverju veldur inflúensa A(H1N1)v heimsfaraldri?
  Já, þann 11. júní sl. lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin yfir 6. viðbúnaðarstigi sem þýðir að heimsfaraldur er skollinn á.

  Stærsti vandinn við nýju veiruna er að enginn hefur komist í kynni við hana áður. Þess vegna geta allir smitast og margir geta veikst á skömmum tíma með miklu álagi á heilbrigðisþjónustuna. Áhrifin verða meiri á samfélagið en í árlegri inflúensu, veiran er að öllum líkindum ekki hættulegri hverjum og einum en árleg inflúensa, nema breytingar á veirunni leiði af sér illvígari sjúkdóm.
 • Er hægt að meðhöndla sýkingu af völdum inflúensu A(H1N1)v í mönnum?
  Inflúensa A(H1N1)v er næm fyrir Tamiflu (oseltamivir) og Relenza (zanamivir) en ónæm fyrir eldri veirulyfjum (amantadín-lyfjum). Á Íslandi eru til lyfjabirgðir af Tamiflu og Relenza fyrir þriðjung þjóðarinnar. Niðurstöður af árangri veirulyfjameðferðar gegn sýkingum af völdum nýju veirunnar liggja ekki fyrir. Í árlegri inflúensu stytta lyfin veikindatíma og milda einkennin einkum ef þau eru gefin á fyrstu 48 klst. veikinda og vænta má sama árangurs í meðferð gegn nýju veirunni. Læknir metur hvort þörf sé á gjöf veirulyfja en oft er ekki þörf á notkun þeirra.
 • Ég er að fara í ferðalag til útlanda, get ég tekið með mér veirulyf (Tamiflu eða Relenza) til öryggis?
  Það er ekki mælt með því að íslenskir ferðamenn á leið til útlanda taki með sér veirulyf til öryggis. Veirulyfin eru einungis notuð við alvarleg einkenni sýkingar af völdum inflúensu og samkvæmt fyrirmælum læknis. Almenn veirulyfjaeign og notkun gæti stuðlað að óskynsamlegri notkun sem er talin auka líkur á myndun ónæmis hjá veirunni gegn lyfjunum.
 • Mega barnshafandi konur og konur með barn á brjósti taka Tamiflu og Relenza?
  Já, reynsla af notkun þessara lyfja hjá þessum konum er ekki löng en ekki hafa komið í ljós nein neikvæð áhrif á fóstur/barn vegna veirulyfjanotkunar móðurinnar. Barnshafandi konur og konur með barn á brjósti geta því tekið veirulyfin samkvæmt læknisráði eins og aðrir.
 • Er til bóluefni gegn inflúensu A(H1N1)v?
  Vinna við framleiðslu bóluefna hófst í júlí 2009 og bárust fyrstu skammtar bóluefnis hingað til lands um miðjan október 2009. Íslendingar hafa keypt 300.000 skammta af bóluefni og er áætlað að um áramótin 2009/2010 hafi um 200.000 skammtar af bóluefninu borist hingað til lands. Þar sem einungis þarf að bólusetja hvern einstakling einu sinni til að öðlast hámarksvernd þá mun verða til nægilegt bóluefni hér á landi fyrir alla sem það vilja.
 • Hverjir verða bólusettir fyrst?
  Í fyrstu verður lögð áhersla á að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn, öryggishópa og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma sem sýnt hefur verið fram á að geta fengið alvarlega sýkingu af völdum inflúensunnar. Í framhaldi af því verður almenningi gefinn kostur á bólusetningu.
 • Hverjir sjá um að bólusetja?
  Bólusett er á heilsugæslustöðvum, á Landspítalanum og á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
 • Hversu þýðingarmikil eru bóluefni til að koma í veg fyrir heimsfaraldur inflúensu?
  Bólusetning er ein áhrifaríkasta aðgerð sem völ er á til að koma í veg fyrir sýkingu. Bólusetning er ekki bara mikilvæg til að vernda hinn bólusetta heldur einnig til að koma í veg fyrir útbreiðslu sýkingarinnar í samfélaginu því bólusettur einstaklingur smitar ekki aðra.
 • Má bólusetja barnshafandi konur gegn inflúensu A(H1N1)v?
  Já, bóluefni gegn inflúensu A(H1N1)v er framleitt með sömu aðferðum og bóluefni gegn árlegri inflúensu. Óhætt er að bólusetja barnshafandi konur við árlegri inflúensu og ekkert mælir gegn því að bólusetja barnshafandi konur gegn inflúensu A(H1N1)v.
 • Vernda hefðbundin árleg inflúensubóluefni gegn inflúensu A(H1N1)v?
  Samkvæmt nýjustu rannsóknum þá virðast árleg inflúensubóluefni ekki vernda gegn hinni nýju inflúensu.
 • Geta bóluefnaframleiðendur framleitt árlegt bóluefni og bóluefni gegn inflúensu A(H1N1)v á sama tíma?
  Þegar framleiðsla á bóluefni gegn inflúensu A(H1N1)v hófst var búið að framleiða bóluefni gegn árlegri inflúensu. Hér á landi verður til taks hefðbundið magn af bóluefni gegn árlegri inflúensu auk nýja bóluefnisins.
 • Virkar bólusetning gegn inflúensu A(H1N1)v hjá fólki á öllum aldri?
  Bólusetning gegn árlegri inflúensu virkar hjá öllum aldurshópum, þó dregur nokkuð úr virkni með hækkandi aldri. Ekkert bendir til að nýja bóluefnið hafi minni virkni en bóluefnið sem er notað gegn árlegri inflúensu. Rannsóknir eru í gangi sem munu svara þessu fyrir víst.
 • Eru bóluefni gegn inflúensu A(H1N1)v örugg?
  Bóluefni sem notuð eru í dag gegn árlegri inflúensu hafa reynst örugg. Víðtækar rannsóknir á samskonar bóluefnum og eru gegn svínainflúensu hafa sýnt að þau eru virk og örugg.
 • Verður hægt að gefa nýtt inflúensubóluefni með öðrum bóluefnum?
  Inflúensubóluefni má gefa með öðrum bóluefnum en ekki í sama útlim.
 • Ef inflúensa A(H1N1)v veldur skæðari sýkingu næsta vetur eru þá líkur á að bóluefni framleitt nú muni virka næsta vetur?
  Þetta er ekki vitað því að algengt er að inflúensuveirur breytist með tímanum. Meiri líkur eru þó á því að bóluefnið muni veita vernd.
 • Hver er munurinn á bóluefni og veirulyfi?
  Bóluefni örvar ónæmiskerfið og hinn bólusetti myndar eigin mótstöðu gegn inflúensuveirunni sem verndar gegn smiti. Veirulyf eru aðallega notuð til meðferðar þegar einkenni sýkingarinnar hafa komið í ljós og virka bara á meðan þau eru gefin.

Fyrst birt 02.11.2009
Síðast uppfært 10.10.2012

<< Til baka