Upplýsingar um smitleiðir, einkenni og meðferð

Einkenni sýkingar
Algengustu einkennin eru skyndilegur hiti, hósti, hálssærindi, slappleiki, beinverkir og höfuðverkur. Einkennum frá meltingarfærum (ógleði, uppköst og/eða niðurgangur) hefur verið lýst.

Smitleiðir og smittími
Veiran smitast manna á milli með hósta og hnerra, smitlíkur eru mestar ef fjarlægð frá sjúklingi er minna en einn meter. Smit berst einnig í slímhúðir í munni, nefi og augum, með höndum sem hafa mengast frá höndum inflúensusjúklinga eða menguðu yfirborði í umhverfi þeirra. Inflúensusjúklingar eru mest smitandi í upphafi veikinda, en smithætta er að mestu leyti horfin sjö dögum eftir upphaf veikinda.

Greining á rannsóknarstofu
Hægt er að taka sýni frá öndunarfærum til greiningar en við útbreidd veikindi í þjóðfélaginu verður ekki hægt að senda sýni frá öllum. Sjúkdómsgreiningin byggir þá á mati læknis.

Tími frá smiti þar til fyrstu einkenni koma í ljós
Meðgöngutími veirunnar, þ.e. tími frá smiti til fyrstu einkenna er oftast 2 – 3 dagar en getur verið allt frá 1 – 7 daga.

Almenn meðferð
Ráðlegt er að hvíla sig og drekka ríkulega. Notkun hitalækkandi lyfja (t.d. paracetamols) við háum hita er ráðlegt en asperín skal ekki nota hjá börnum undir 16 ára aldri vegna hættu á Reyes heilkenni, sem leggst á miðtaugakerfi og lifur.

Veirulyfjameðferð
Á markaði eru fáanleg tvö lyf gegn inflúensu sem nefnast Relenza (zanamivir) og Tamiflu (oseltamivir). Bæði lyfin virka vel á inflúensu A(H1N1)v en meðferð er ekki gefin nema ef sjúklingur er alvarlega veikur að mati læknis. Árangur lyfjameðferðar er mestur ef meðferðin hefst á fyrstu 48 klst. veikinda en hægt er að hefja meðferð síðar að undangengu mati læknis.


Fyrst birt 12.08.2009
Síðast uppfært 09.10.2012

<< Til baka