Inflúensa – Leiðbeiningar fyrir heimilisfólk

Sjá stærri mynd

Sýkingar af völdum inflúensuveiru 
Leiðbeiningar fyrir heimilisfólk jafnt í árlegri inflúensu og í heimsfaraldri

Inflúensa smitast auðveldlega milli manna á heimilum en hægt er að draga úr líkum á að smit berist manna á milli með ákveðnum varúðarráðstöfunum, sbr. hér fyrir neðan.

Umönnun sjúkra og sýkingavarnir

 • Mælt er með að einstaklingar sem eru með grunaða eða staðfesta inflúensu haldi sig heima í einn dag eftir að þeir verða hitalausir. 
 • Takmarkið samneyti við inflúensusjúkling eins og unnt er, t.d. með því að halda u.þ.b. eins metra fjarlægð frá honum eða vera ekki í sama herbergi. 
 • Hafið umönnun hans að mestu í höndum sama aðila. Ef einhver nákominn aðili hefur náð sér af inflúensu er best að hann annist þann sjúka. 
 • Hafið poka hjá inflúensusjúklingum fyrir notaðar bréfþurrkur. Pokanum skal síðan lokað og hent í sorptunnu ásamt öðru heimilissorpi. 
 • Þvoið hendur oft og vel eða hreinsið þær með handspritti. 
 • Ef skæður inflúenusfaraldur geisar eða heimsfaraldur þarf að gæta sérstaks hreinlætis. Þrífið vel með sápuvatni, einkum sameiginleg rými og staði sem allir á heimilinu snerta, t.d. borðplötur, handfang á kæliskáp, hurðarhúna o.s.frv. 
 • Forðist beina snertingu við líkamsvessa (slím úr öndunarvegi, hægðir, uppköst, blóð). Ef snerting verður skal hreinsa hendurnar (með þvotti eða handspritti) strax á eftir. 
 • Hafið góða loftræstingu (glugga opna), einnig í sameiginlegu rými, s.s. í eldhúsi og baðherbergi. 
 • Ef þörf er á nýju mati læknis eða hjúkrunarfræðings skal hringja í heilsugæslu/Læknavaktina og fá ráðleggingar.

Annað heimilisfólk og fólk sem getur átt á hættu að smitast

 • Ekki er þörf á að rannsaka frískt fólk án einkenna. 
 • Hafið samband við næstu heilsugæslustöð ef alvarlegra einkenna inflúensu verður vart. 
 • Ekki er mælt með fyrirbyggjandi notkun veirulyfja. 
 • Ef skæður faraldur geisar fylgist þá með leiðbeiningum sóttvarnalæknis í fjölmiðlum og á www.influensa.is

 


Fyrst birt 02.11.2010
Síðast uppfært 29.10.2012

<< Til baka