Atburðir - Bólusetning

Atburðir sem geta sést á þeim tíma sem bólusett er gegn svínainflúensu.

Á hvaða tíma sem er má búast við stökum alvarlegum atburðum sem erfitt er að skýra eða sjá fyrir. Í októberhefti læknatímaritsins Lancet (Lancet. 2009 Oct 30.) er lagt mat á tíðni nokkurra atvika og sjúkdóma í samfélagi. Gert er ráð fyrir samsvarandi tíðni atburða hér á landi og lagt mat á tíðni nokkurra alvarlegra atvika og sjúkdóma sem búast má við að sjá eftir bólusetningu 300.000 einstaklinga hér á landi án þess að um orsakasamhengi sé að ræða.

Í október 2009 var hrundið af stað mesta bólusetningarátaki í sögu þjóðarinnar þegar bólusetning gegn svínainflúensu hófst. Keyptir hafa verið 300.000 skammtar af bóluefni (Pandemrix) sem mun duga til að fullbólusetja alla þjóðina. Áætlað er að um áramótin 2009/2010 hafi um 200.000 skammtar borist hingað til lands og í byrjun árs 2010 muni 300.000 skammtar hafa borist.

Vægar aukaverkanir eru algengar eftir bólusetningar og eftir bólusetningu með Pandemrix hefur staðbundinni bólgu og þrota á stungustað, hita, bein- og liðverkjum og útbrotum verið lýst. Þar sem að stór hluti þjóðarinnar mun verða bólusettur á nokkurra mánaða tímabili þá munu óhjákvæmilega koma upp alvarleg atvik hjá bólusettum einstaklingum sem þurfa ekki að vera af völdum bólusetningarinnar sjálfrar en munu vekja upp spurningar um orsakasamhengi.

Búast má við eftirtöldum atburðum og sjúkdómum hér landi eftir bólusetningu 300.000 einstaklinga með Pandemrix þó bólusetningin valdi ekki atburðunum.

I. Guillain Barre heilkenni

Guillain Barre er sjúkdómur sem lýsir sér sem tímabundnar lamanir í útlimum. Orsakir þessa sjúkdóms eru ekki að fullu þekktar en sjást oftast í kjölfar sýkinga og þar á meðal eftir inflúensu. Guillain Barre var lýst eftir bólusetningu gegn inflúensu í Bandaríkjunum á árinu 1976 en niðurstöður viðamikilla rannsókna á inflúensubólusetningum eftir 1976 hafa ekki sýnt fram á tengsl við Guillain Barre.

Á Íslandi greinast að meðaltali um 3-4 einstaklingar árlega með Guillain Barre og því má búast við að 0-1 einstaklingur greinist með sjúkdóminn á fyrstu 6 vikum eftir bólusetningu hér á landi án þess að hann sé af völdum bólusetningarinnar.

II. Bólga í sjóntaug (optic neuritis)

Ýmsir hafa viljað bendla inflúensubólusetningu við bólgu í sjóntaug sem oft er fyrsta einkenni MS sjúkdóms (multiple sclerosis). Þótt niðurstöður rannsókna hafi sýnt að inflúensubólusetning veldur ekki bólgu í sjóntaug þá hefur verið bent á að nauðsynlegt sé að fylgjast með þessum sjúkdómi í tengslum við bólusetningarátakið sem nú stendur yfir.

Þar sem að MS er til muna algengari hjá konum en körlum þá er áhættan á bólgu í sjóntaug hér reiknuð hjá konum. Í Bandaríkjunum er áætlað að á hverju ári sjáist bólga í sjóntaug hjá 7-8 konum á hverjar 100.000. Því má búast við að um 1-2 konur greinist hér landi með bólgu í sjóntaug á fyrstu 6 vikum eftir bólusetningu þó engin orsakatengsl séu við bólusetninguna.

III. Skyndidauði

Með skyndidauða er hér átt við dauðsfall þar sem aðdragandi atburðarins hefur staðið styttra en 1 klst. Fyrri rannsóknir á bólusetningum gegn inflúensu hafa ekki sýnt fram á tengsl við skyndidauða en slíkt getur gerst þegar margir einstaklingar eru bólusettir á stuttum tíma þó engin orsakatengsl séu til staðar. Í Bretlandi er talið að 0-1 einstaklingur per 100.000 íbúa deyi skyndidauða á hverju ári. Á 6 vikna tímabili eftir bólusetningu má því búast við að sjá skyndidauða hjá 0-1 einstaklingi hér á landi sem ekki er af völdum bólusetningarinnar.

IV. Fósturlát

Í Bretlandi er talið að um 12% af öllum þungunum endi með fósturláti. Tíðni fósturláta getur hins vegar verið mismunandi á milli landa og misalgeng á mismunandi tímabilum þungunar. Ef 4.000 þungaðar konur verða bólusettar hér á landi á næstu vikum má búast við að sjá fósturlát hjá 1-2 konum á fyrsta sólarhring eftir bólusetningu, um 11 konum á fyrstu viku eftir bólusetningu og um 67 konum á sex vikna tímabili eftir bólusetningu þó ekkert orsakasamband sé til staðar við bólusetningun sjálfa.


Fyrst birt 16.11.2009
Síðast uppfært 26.10.2015

<< Til baka