Meðferð einstaklinga

Leiðbeiningar fyrir heilbrigðisþjónustuna

Meðferð einstaklinga með grunaða eða staðfesta sýkingu af völdum nýrrar inflúensu A(H1N1)v

Einkenni   Faraldsfræðitengsl
Hiti yfir 38°C og einkenni bráðrar öndunarfærasýkingar   Náin umgengni við staðfest tilfelli nýrrar inflúensu A(H1N1)v meðan viðkomandi var veikur
eða og eða
Lungnabólga (alvarleg veikindi í öndunarfærum)   Ferðalag á svæði þar sem inflúensan hefur greinst

 

Fyrsta greining og meðferð

Heilsugæslan
Sjúklingar grunaðir um sýkingu af völdum inflúensu, sem ekki eru með alvarleg einkenni, þurfa ekki alltaf að leita sér læknisaðstoðar. Ef læknisaðstoðar er hins vegar þörf er þeim bent á að leita til heilsugæslunnar á sínu svæði til að fá ráðgjöf og leiðbeiningar um fyrirkomulag við læknisskoðun ef hennar er þörf. Heilsugæslustöðvar eru með áætlanir um að lágmarka hættu á smiti til annarra sjúklingahópa sem til heilsugæslunnar leita. Þessar áætlanir miða að því að skilja sem mest á milli sjúklingahópa eins og að koma í veg fyrir að þeir bíði á sömu biðstofu. Leiðir til að draga úr smithættu er t.d. aðskildir inngangar og biðstofur fyrir þessa hópa eða að þeir sem eru með öndunarfæraeinkenni noti hlífðargrímur fyrir vitin eða vitjanir í heimahús.

Sjúkrahús
Ef veikindin eru alvarleg og talin er þörf á innlögn á sjúkrahús er sjúklingi ráðlagt að leita á bráðamóttöku eða slysadeildir sjúkrahúsa. Ráðlagt er að hringja í 112 þar sem alvarleiki veikinda er metinn og sjúkrabíll sendur ef þörf er á.

Staðfesting rannsóknarstofu á greiningu
Læknir metur hvort þörf er á sýnatöku til greiningar og skal þá fara eftir leiðbeiningum veirufræðideildar Landspítala (sjá: www.influensa.is) og sýnið sent á:

Veirufræðideild Landspítala
Ármúla 1A
108 Reykjavík

Aðgerðir til að draga úr smiti

Flutningur til og frá lækni/sjúkrahúsi
Við flutning sjúklinga til og frá sjúkrahúsi skal forðast að útsetja aðra sem ekki eru í nánum tengslum við sjúklinginn fyrir smit, t.d. skal forðast að nota almenningssamgöngur og leigubíla og láta sjúklinginn bera hlífðargrímu ef hægt er.
Við flutning í sjúkrabifreið ber sjúkraflutningamönnum að fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis um sýkingavarnir og notkun hlífðarbúnaðar (sjá: www.influensa.is).

Innlögn á sjúkrahús
Á sjúkrahúsum eru í gildi leiðbeiningar sem miða að því að lágmarka áhættu á smiti til starfsfólks og annarra sjúklinga.

Dvöl í heimahúsi
Ef ekki er talin þörf á sjúkrahúsvist og sjúklingurinn er talinn geta fylgt leiðbeiningum um smitvarnir getur hann dvalið heima á meðan á veikindum stendur. Mælt er með að sjúklingurinn dvelji í heimaeinangrun í tvo daga eftir að hann er orðinn hitalaus og fylgi leiðbeiningum um heimaeinangrun (www.influensa.is) til að lágmarka hættu á smiti til annarra. Ekki er mælt með að fjölskyldumeðlimir noti hlífðarbúnað en bent er á almennar ráðleggingar um sýkingavarnir gegn inflúensu (sjá: www.influensa.is).

Veirulyfjameðferð
Mælt er með því að einstaklingar með alvarleg inflúensulík einkenni séu meðhöndlaðir með veirulyfjum jafnvel þó hin nýja inflúensa hafi ekki verið staðfest (sjá: www.influensa.is). Ekki er talin ástæða til lyfjameðferðar hjá sjúklingum með væg einkenni nema hugsanlega á fyrstu 48 klst. veikindanna jafnvel þó sýkingin sé af völdum hinnar nýju veiru.
Gagnsemi veirulyfja er mest á fyrstu 48 klst. veikindanna. Hins vegar metur læknir þörf á veirulyfjum jafnvel þó veikindi hafi staðið lengur en 48 klst.

Þeir sem umgangast líkleg eða staðfest tilfelli náið

Með náinni umgengni er átt við:

  • Að búa með eða annast sjúklinga sem eru með líklegt eða staðfest smit af völdum hinnar nýju inflúensu A(H1N1)v.

Sýkingavarnir og hlífðarbúnaður
Ekki er mælt með notkun hlífðarbúnaðar fyrir fjölskyldumeðlimi þó einn eða fleiri séu sýktir á heimilinu. Mælt er með notkun hlífðarbúnaðar hjá heilbrigðisstarfsmönnum sem annast sjúklinga með líklegt eða staðfest inflúensusmit (sjá: www.influensa.is).

Meðferð með veirulyfjum
Meðferð með veirulyfjum skal hefja að undangengnu mati lækna. Læknar eru hvattir til að hefja meðferð eins snemma og kostur er sérstaklega hjá einstaklingum sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og inflúensulík einkenni. Ef einkenni hafa staðið lengur en 48 klst. er lyfjameðferð ekki ráðlögð nema að viðkomandi sé með alvarleg einkenni að mati læknis.
Ekki er mælt með fyrirbyggjandi notkun veirulyfja.

Boðleiðir við greiningu sýkingar af völdum nýrrar inflúensu A(H1N1)v

Boðleiðir


Flæðirit um meðferð einstaklinga með grunaða eða staðfesta sýkingu af völdum nýrrar inflúensu A(H1N1)v

Flæðirit


Fyrst birt 02.11.2009
Síðast uppfært 09.10.2012

<< Til baka