Vöktun sýkinga

Vöktun sýkinga af völdum inflúensu A(H1N1)v

Þegar ljóst var að heimsfaraldur inflúensu var yfirvofandi varð öll inflúensa tilkynningaskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis. Tilkynna skal bæði tilfelli sem byggja á klínísku mati læknis og þau sem eru staðfest á með sýni jákvæðu fyrir inflúensu A(H1N1) frá sjúklingi. Meðhöndlandi læknum og rannsóknarstofum ber því að tilkynna öll tilfelli inflúensu með persónugreinanlegum upplýsingum til sóttvarnalæknis. Síðastliðið vor hófst vinna við sjálfvirkar, rafrænar tilkynningar á inflúensutilfellum úr Sögunni, þeirri vinnu er nú lokið og sóttvarnalækni berast sjálfvirkt og rafrænt persónugreinanlegar upplýsingar um inflúensutilfelli. Upplýsingarnar eru uppfærðar sjálfvirkt einu sinni á sólarhring. Ekki er þörf á að fylla í eyðublað fyrir tilkynningarskylda sjúkdóma fyrir inflúensutilfelli en aðra tilkynningarskylda sjúkdóma skal tilkynna á eyðublaði fyrir tilkynningarskylda sjúkdóma sem er aðgengilegt á heimasíðu Embættis landlæknis.

Skráningarkóðar inflúensu

  • Eftirfarandi ICD-10 kóðar (International Classification of Diseases) skulu notaðir með viðeigandi undirkóðum þegar klínísk greining er sett án staðfestingar frá rannsóknarstofu:

J10 Inflúensa af völdum greindrar inflúensuveiru
J11 Inflúensa veira ekki greind
J12 Veirulungnabólga ekki flokkuð annars staðar

  • Þegar inflúensa A(H1N1)v hefur verið staðfest á rannsóknarstofu eða sjúklingur hefur umgengist náið annan sjúkling með staðfesta inflúensu A(H1N1)v á smittíma skal nota ICD-10 kóðann:

U05.9 Inflúensa af völdum greindrar inflúensu A(H1N1)v veiru

  • Við grun um inflúensu við komu áður en læknismeðferð fer fram skal nota ICPC kóðann (International Classification of Primary Care) fyrir tilefni komu:

R80 Inflúensa

Þegar ofannefndir kóðar eru notaðir og samskipti eru staðfest í Sögunni berast tilkynningar til sóttvarnalæknis um sjúkdómstilfellið. Sérstaklega skal tekið fram að læknir verður að staðfesta samskipti í Sögunni til að tilkynning berist til sóttvarnalæknis.


Fyrst birt 13.08.2009
Síðast uppfært 10.10.2012

<< Til baka