Upplýsingar um bólusetningu gegn inflúensu A(H1N1)v á Íslandi

Inngangur

Heimsfaraldur inflúensu A(H1N1)v geisar nú um allan heim eftir að fyrstu tilfelli greindust í Bandaríkjunum í apríl 2009. Fyrstu tilfelli heimsfaraldursins á Íslandi greindust í maí 2009 og hefur hann síðan breiðst út um landið. Faraldurinn náði hámarki hér á landi í byrjun nóvember en síðan hefur dregið úr honum, ekki síst vegna góðrar þátttöku í bólusetningu. Á Íslandi hafa tæplega 200 einstaklingar verið lagðir inn á sjúkrahús vegna inflúensunnar og þar af 20 einstaklingar á gjörgæsludeild. Tveir einstaklingar, 18 ára stúlka og 81 árs karlmaður hafa látist vegna staðfestrar inflúensu A(H1N1)v 2009 eða fylgikvilla í kjölfar sýkingarinnar. Stúlkan lést 19. október og maðurinn lést 20. nóvember, bæði voru með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma.

Alvarleg einkenni sýkingarinnar eru einkum lungnabólga af völdum veirunnar sjálfrar sem leitt getur til öndunarbilunar og dauða. Áætlað er að um 1% af þeim sem sýkjast þurfi á sjúkrahúsinnlögn að halda og um 0,1% látast (1).

Við nánari greiningu á þeim einstaklingum sem veikst hafa alvarlega af inflúensunni kemur í ljós að um 20-30% hafa enga undirliggjandi áhættuþætti en um 70-80% eru með einhvern af eftirtöldum undirliggjandi sjúkdómum (2):

 • Alvarlega hjartasjúkdóma
 • Alvarlega lungnasjúkdóma, þ.á m. astma
 • Sykursýki
 • Alvarlega nýrnabilun
 • Alvarlega lifrarsjúkdóma
 • Tauga- og vöðvasjúkdóma
 • Ónæmisbilun
 • Þungaðar konur
 • Hættan á að þungaðar konur þurfi að leggjast á sjúkrahús vegna inflúensunnar virðist vera um 0,3 á hverja 100.000 íbúa, sem er um fjórföld áhætta miðað við konur sem eru ekki barnshafandi
 • Offita (meira en 40 BMI)

 

Bóluefni á Íslandi
Íslendingar hafa tryggt sér kaup á 300.000 skömmtum af bóluefni gegn inflúensu A(H1N1)v sem dugar til að fullbólusetja svo til alla þjóðina. Bóluefnið heitir Pandemrix® og er framleitt af GlaxoSmithKline (GSK). Bóluefnið er framleitt í eggjum og bárust fyrstu skammtar þess til landsins um miðjan október 2009. Bóluefnið mun síðan berast til landsins í vikulegum skömmtum og því er áætlað að í lok nóvember hafi um 100.000 skammtar borist og í lok ársins um 200.000 skammtar. Þar sem að inflúensa A(H1N1)v er ný veira þá kemur árleg inflúensubólusetning ekki í veg fyrir sýkingu af völdum þessarar veiru.

Er bóluefnið hættulaust?
Samskonar bóluefni gegn fuglainflúensu (H5N1) hefur verið rannsakað hjá nokkur þúsund einstaklingum og engar alvarlegar aukaverkanir hafa komið í ljós. Það bóluefni sem og Pandemrix hafa verið samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu (EMEA) en rannsóknir á Pandemrix standa nú yfir.

Einnig hefur verið sýnt fram á að árleg inflúensubóluefni eru örugg og ekki ástæða til að ætla að hið nýja bóluefni verði frábrugðið þeim.

Nýja bóluefnið inniheldur thiomersal sem tryggir endingu og stöðugleika þess. Thiomersal hefur verið í flestum bóluefnum sem eru á markaði í heiminum þar til á síðustu árum en hins vegar hafa engin bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi innihaldið thiomersal í mörg undanfarin ár. Á síðastliðnum árum hafa margar rannsóknir verið gerðar á því hvort thiomersal í bóluefnum geti verið skaðlegt börnum. Þessar rannsóknir hafa sýnt að thiomersal er ekki skaðlegt og því óhætt að nota í bóluefnum.

Bóluefnið er framleitt í eggjum. Því geta einstaklingar með alvarlegt eggjaofnæmi eins og lostviðbrögð fengið alvarlega aukaverkun af bóluefninu. Ekki er ráðlagt að bólusetja einstaklinga með sögu um slíkt ofnæmi.

Bóluefni mun koma í glösum með gúmmíhettu og er alvarlegt latex ofnæmi því frábending fyrir bólusetningu.

Framkvæmd bólusetningar á Íslandi
Bóluefnið gegn hinni nýju inflúensu er vandmeðfarið þar sem það þarfnast blöndunar fyrir gjöf og hefur auk þess takmarkaðan líftíma eftir blöndun. Þess vegna er hætta á að nýting þess verði ófullnægjandi og hefur því verið ákveðið að einungis verði bólusett á heilsugæslustöðvum, Landspítala (LSH) og á Sjúkrahúsinu á Akureyri (FSA). Sóttvarnalæknir mótar stefnu og áætlanir um bólusetninguna hér á landi en framkvæmdin er í höndum heilsugæslunnar, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri.

Flokkun í markhópa fyrir bólusetninguna hér á landi, eins og í öðrum löndum, byggist annars vegar á áhættumati sýkingarinnar og hins vegar á nauðsyn þess að hér verði haldið uppi nauðsynlegri starfsemi eins og heilbrigðis- og öryggisþjónustu. Þessir markhópar eru í megindráttum samkvæmt tillögum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (3) og Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (4). Hins vegar kunna faraldsfræðilegar upplýsingar um faraldurinn að breytast á hverjum tíma, sem leitt getur til þess að flokkun í markhópa hér á landi breytist.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum á Pandemrix bóluefninu þá nægir að bólusetja alla aldurshópa einu sinni til að öðlast hámarsks vernd. Börn 6 mánaða til og með 9 ára þurfa hálfan skammt (0,25 ml) en eldri einstaklingar 0,5 ml. Fyrstu sendingar bóluefnisins voru notaðar til að fullbólusetja markhóp 1 sem lýst er hér að neðan.

Hverja á að bólusetja á Íslandi?
Markhópur 1 samanstendur af eftirtöldum einstaklingum:

Einstaklingar eldri en 6 mánaða með eftirtalda sjúkdóma:

 • Alvarlega hjartasjúkdóma, einkum hjartabilun, alvarlega kransæðasjúkdóma og alvarlega meðfædda hjartagalla með vinstra til hægra flæði.
 • Alvarlega lungnasjúkdóma, þ.á m. astma sem þarfnast stöðugrar fyrirbyggjandi lyfjameðferðar.
 • Alvarlega efnaskiptasjúkdóma, einkum insúlínháða sykursýki og barksteraskort.
 • Tauga- og vöðvasjúkdóma sem valda truflun á öndunarhæfni.
 • Alvarlega nýrnabilun.
 • Alvarlega lifrarsjúkdóma sem valda skorpulifur og/eða lifrarbilun.
 • Alvarlega ónæmisbresti.

Einnig:

 • Þungaðar konur, en rannsóknir hafa sýnt að þær eru í aukinni áhættu að sýkjast alvarlega af völdum inflúensunnar.
 • Einstaklingar sem eiga við offitu að stríða (>40 BMI).
 • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast veika og lasburða einstaklinga og starfsmenn sem nauðsynlegir eru starfsemi heilbrigðiskerfisins. Í þessum hópi eru einnig starfsmenn hjúkrunarheimila og sambýla.
 • Lögregla, björgunarsveitir, slökkviliðsmenn og sjúkraflutningamenn.

Nú þegar búið er að bólusetja markhóp 1 er öllum almenningi boðin bólusetning. Hver og einn getur leitað á heilsugæslustöðina í sínu hverfi til að fá upplýsingar um tímapantanir.

Hvernig eru einstaklingar boðaðir til bólusetningar?

 • Bólusett er á heilsugæslustöðvum, LSH og FSA.
 • Læknar hafa verið hvattir til að hvetja sjúklinga sína sem eru í markhópi 1 til að panta tíma í bólusetningu á heilsugæslustöðvum sem þjóna búsetusvæði þeirra. Sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn LSH og FSA hafa hins vegar verið bólusettir á þessum stofnunum samkvæmt áhættumati.
 • Bólusetningin er öllum að kostnaðarlausu.

Hverjum verður ráðið frá því að láta bólusetja sig?

 • Einstaklingum með lífshættulegt latexofnæmi.
 • Einstaklingum með alvarlegt eggjaofnæmi. Exem er ekki frábending fyrir bólusetningu.
 • Einstaklingum með alvarlegt ofnæmi gegn thiomersal.

 

(1) Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC)

(2) MMWR. 28. ágúst 2009

(3) Weekly epidemiological record, WHO. 84, 2009


Fyrst birt 27.11.2009
Síðast uppfært 02.11.2017

<< Til baka