Leiðbeiningar um bólusetningu og meðhöndlun bóluefnis

Bóluefni gegn inflúensuveiru A(H1N1)v 2009 samanstendur af mótefnavakablöndu (antigen=AG), sem er í stærri hettuglösunum, og ónæmisglæði (adjuvant=AD), sem er í minni hettuglösunum.

Glösin eru merkt lotunúmerum og einnig fylgja límmiðar með öðrum lotunúmerum.

Lotunúmerið sem er á límmiðanum er lotunúmerið sem skal skrá í gögn viðkomandi einstaklings og vísar það til blandaðs bóluefnis, AG+AD, þ.e. lausnarinnar sem síðan er sprautað í sjúklinginn.

Mikilvægt er að:

 • Byrja á handhreinsun, annaðhvort með vönduðum þvotti með vatni, sápu og þerrun eða með handspritti.
 • Spritta gúmmítappana á hettuglösunum eftir að lokin hafa verið fjarlægð.
 • Finna til 5 ml dælu og grófa nál (G20).
 • Draga upp í 5 ml dæluna allan ónæmisglæðinn (AD) úr minna hettuglasinu.
 • Öllum ónæmisglæðinum (AD) er því næst sprautað í stærra hettuglasið með mótefnavakanum (antigeninu, AG). Nálina má skilja eftir til að draga upp úr glasinu.
 • Blanda efnunum vel saman.
 • Hver bóluefnisskammtur er 0,5 ml og er hann dreginn upp úr glasinu í 1 ml dælu.
 • Sett ný nál (G23) á dæluna.
 • Gamall siður er að spritta húð áður en stungið er en það er ekki nauðsynlegt.
 • Mikilvægt er að fylgjast með hugsanlegum aukaverkunum og mælst er til að hinn bólusetti bíði á bólusetningarstað í um 20 mínútur eftir bólusetningu.
 • Bólusetningarteymi þurfa að vera í stakk búin til að meðhöndla hugsanlegar aukaverkanir eins og t.d. ofnæmisviðbrögð (anaphylaxis). Sjá frábendingar hér neðar í skjalinu.
 • Skrá þarf bólusetninguna ásamt lotunúmerinu á límmiðanum á kennitölu viðkomandi einstaklings og helst í bólusetningakortið í Sögu.

Mjög mikilvægt er að geyma bóluefnið við 2°-8°C (í ísskáp) og muna að eftir blöndun hefur lausnin aðeins 24 klst. líftíma. Að þeim tíma liðnum skal henda henni (jafnvel þó hún hafi verið geymd í ísskáp).

Hér er hægt að sjá á myndrænan hátt hvernig bóluefnið er blandað (PDF)


Frábendingar fyrir bólusetningu:

 • Alvarlegt eggjaofnæmi eins og anaphylaxis. Exem vegna eggjaofnæmis er ekki frábending gegn bólusetningu.
 • Alvarlegt latexofnæmi.
 • Alvarlegt ofnæmi gegn thiomersal.

Bólusetningar fara fram á heilsugæslustöðvum, Landspítala og Sjúkrahúsinu á AkureyriFyrst birt 06.11.2009
Síðast uppfært 08.10.2012

<< Til baka