Viðbættur sykur í matvælum og tannheilsa

Á undanförnum vikum hefur mikið verið rætt um sykur í fæðu. Ekki er vanþörf á umræðu um sykur þar sem Íslendingar neyta meira af honum en flestar aðrar þjóðir. Í manneldismarkmiðum frá Manneldisráði Íslands er hvatt til þess að sykurneyslu sé stillt í hóf og ekki komi meira en 10% orkunnar úr fínunnum sykri. Öllum er ljóst að sykurneysla ýtir undir tannskemmdir.

Tennur skemmast við það að bakteríur í munni brjóta niður sykur í fæðunni og mynda sýru sem vinnur á tönnunum. Matvælarannsóknir Keldnaholti reka í samvinnu við Manneldisráð Íslands gagnagrunn um efnainnihald matvæla. Gagnagrunnurinn hefur komið að góðum notum þegar leitað hefur verið eftir upplýsingum um sykurinnihald matvæla.

Í grunninum er meðal annars að finna upplýsingar um viðbættan sykur, heildarmagn kolvetna og trefjaefni. Í tilefni af þessari grein voru allar upplýsingar um viðbættan sykur í gagnagrunninum skoðaðar og fæðutegundum raðað eftir vaxandi magni viðbætts sykurs. Af 900 fæðutegundum í gagnagrunninum voru skráðar upplýsingar um viðbættan sykur fyrir 170 fæðutegundir. Eftir þessa skoðun er ástæða til að fjalla um þrjú atriði út frá tannverndarsjónarmiði: drykki sem baða tennurnar í sykri, klístraða fæðu sem límist við tennurnar og ýmsar fæðutegundir sem innihalda meiri sykur en margur hyggur.

Sykurbað fyrir tennur
Strax er staldrað við gosdrykkina en þeir innihalda rúmlega 10% sykur. Sykurlausu drykkirnir eru að sjálfsögðu undanskyldir en þeir innihalda alls engan sykur. Að neyta sykurríkra gosdrykkja oft milli máltíða er því eins og að lauga tennurnar upp úr sykurupplausn. Í verslunum eru gosdrykkir áberandi og endurspeglar það mikla neyslu. Einnig er að finna mikið úrval af alls kyns hreinum ávaxtasöfum og drykkjum sem eru blöndur úr ávaxtasöfum og sykurvatni. Flestir þessir drykkir innihalda um 10% sykur. Sykurinn í hreinum ávaxtasöfum er að sjálfsögðu kominn beint úr ávöxtunum og telst því ekki viðbættur sykur. Vert er að vekja athygli á kolsýrðu vatni án sykurs en það hefur náð auknum vinsældum á síðustu árum. Þess ber að geta að gosdrykkir og ávaxtasafar eru súrir en sýran hefur eyðandi áhrif á tannglerunginn. Sykurlausir gosdrykkir eru einnig súrir en magn sýrunnar er þó mismunandi eftir tegundum. Að öllu þessu sögðu er óhætt
að fullyrða að vatn sé besti svaladrykkurinn.

Sykurforði límdur við tennur
Efst á listanum yfir fæðutegundir með viðbættum sykri er sælgæti af ýmsum gerðum. Nefna má karamellur, lakkrís og súkkulaði en þessu sælgæti hættir til að loða við tennurnar. Fleira fellur þó í þennan flokk og má sem dæmi taka vínarbrauð en hvorki meira né minna en fjórðungur af þyngd vínarbrauða er viðbættur sykur. Í þennan flokk bætist einnig fjölbreytt úrval af kaffibrauði og kökum.

Falinn sykur
Við hugsum oft ekki um kex og morgunkorn sem sérstaklega sykurrík matvæli. Sú er þó raunin þar sem algengt er að kex innihaldi um 17% viðbættan sykur jafnvel þótt kexið sé ekki húðað með súkkulaði. Morgunkorn er fjölbreyttur flokkur matvara, viðbættur sykur í þessum vörum er allt frá því að vera enginn upp í það að vera tæpur helmingur af þyngdinni. Mjög sykurríkt morgunkorn ætti í raun og veru að flokka með sælgæti. Samkvæmt því borða margir sælgæti í morgunmat, að vísu með mjólk út á. Það eru þó til ýmsar tegundir af næringarríku morgunkorni án mikils sykurs en besta leiðin til að átta sig á næringargildinu er að lesa upplýsingar um næringargildi og innihald á umbúðunum. Viðbættur sykur leynist víðar en í kexi og morgunkorni og má í því sambandi nefna ýmsar jógúttegundir og matarís. Rétt fæðuval og góðar matarvenjur eru mikilvægar fyrir tannheilsuna. Verst er að neyta sykurs oft milli máltíða. Skæðust eru sætindi sem loða
við tennurnar og drykkir sem baða þær í sykurupplausn milli máltíða.

Ólafur Reykdal

matvælafræðingur hjá Matvælarannsóknum Keldnaholti

Birt í Morgunblaðinu í tilefni tannverndardagsins, febrúar 2001.


Fyrst birt 28.02.2001
Síðast uppfært 24.10.2017

<< Til baka