Fyrirbyggjandi lyfjagjöf gegn meningókokkum

I. Hverjum á að gefa fyrirbyggjandi lyf?

Líkur á smiti þeirra sem haft hafa náin samskipti við sjúkling sem greinst hefur með meningókokkasjúkdóm eru mestar fyrstu viku eftir greininguna. Því ætti fyrirbyggjandi lyfjagjöf að hefjast eins fljótt og mögulegt er eftir greiningu (sjá töflu I).

 • Sjúklingur sjálfur
  Sjúklinginn sjálfan skal meðhöndla með fyrirbyggjandi sýklalyfjum (upprætingarmeðferð) áður en hann fer heim af sjúkrahúsi, nema hann hafi verið meðhöndlaður með a.m.k. einum skammti af ceftriaxone.
   
 • Fjölskylda sjúklings
  Alla einstaklinga sem sofið hafa á sama heimili og sjúklingur vikuna fyrir greiningu skal meðhöndla með fyrirbyggjandi sýklalyfjum.
   
 • Börn og starfsmenn í leikskólum/dagvistun
  Börn og starfsmenn sem dvalið hafa á sömu leikskóladeild/dagvistun og sjúklingur vikuna fyrir greiningu skal meðhöndla með fyrirbyggjandi sýklalyfjum. Ekki er þörf á að meðhöndla allan leikskólann. Í öllum tilfellum skulu foreldrar upplýstir um veikindin og hvött til að leita fljótt til læknis vegna veikinda barna sinna.
   
 • Nemendur og starfsmenn í grunn- og framhaldsskólum
  Ekki er ástæða til að meðhöndla nemendur og starfsmenn í grunn- og framhaldsskólum með fyrirbyggjandi sýklalyfjum nema þá sem útsettir voru fyrir munnvatni sjúklings og/eða deildu með honum svefnaðstöðu vikuna fyrir veikindin. Í öllum tilfellum skulu nemendur og/eða foreldrar upplýstir um veikindin og hvött til að leita tafarlaust til læknis vegna veikinda.
   
 • Starfsmenn heilbrigðisstofnana/sjúkrahúsa
  Ekki er ástæða til að meðhöndla heilbrigðisstarfsmenn sem annast hinn sýkta nema þá sem beitt hafa munn við munn aðferð við endurlífgun hans/hennar.
   
 • Einstaklingar sem deildu sama farartæki (bíll, bátur, flugvél, rúta) skömmu fyrir greiningu
  Ekki er ástæða til að meðhöndla einstaklinga sem ferðuðust með hinum sýkta jafnvel eftir að einkenni byrjuðu nema þeirra sem útsettir voru fyrir munnvatni viðkomandi (t.d. munn við munn endurlífgun og kossar).


II. Nefkoksræktanir

Ekki er ástæða til að taka nefkoksræktanir frá einstaklingum í nánasta umhverfi sjúklings né þeim sem uppfylla skilyrði um fyrirbyggjandi lyfjameðferð.


IV. Bólusetningar gegn meningókokkum

Eftirfarandi bóluefni gegn meningókokkkum eru skráð á Íslandi:

 • Fjórgild meningókokka polysakkaríð bóluefni (A, C, Y og W135). Þetta bóluefni er mótefnavekjandi hjá börnum eldri en tveggja ára og má ætla að mótefnin endist í 3-5 ár.
   
 • Protein tengt bóluefni gegn meningókokkum C. Þetta bóluefni er ónæmisvekjandi hjá öllum aldurshópum og ætla má að mótefnin endist ævilangt.
   
 • Protein tengt bóluefni gegn meningókokkum A, C, Y og W135. Þetta bóluefni er mótefnavekjandi hjá öllum aldurshópum og ætla má að mótefnin endist ævilangt.
   
 • Engin bóluefni eru á markaði gegn meningókokkum B.

Ef sjúklingur veikist af meningókokkum af hjúpgerð A, C, Y eða W135 er ekkert því til fyrirstöðu að bólusetja nánustu aðila sem uppfylla skilyrði um fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf en hafa ber í huga að um 1-2 vikur tekur að mynda verndandi magn mótefna eftir bólusetningu og kemur bólusetning því ekki í stað fyrirbyggjandi lyfjagjafar.

 

V. Hvað skal gera ef annað tilfelli með meningókokkasjúkdómi greinist í nánasta umhverfi sjúklings (með meningókokka)?

Í slíkum tilfellum getur komið til greina að útvíkka reglur um fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf eða grípa til fjöldabólusetningar. Slíkar aðgerðir skulu gerðar í samráði við sóttvarnalækni.

 

Tafla I. Lyf til notkunar til að fyrirbyggja meningókokkasjúkdóm

1. Börn
a) Rifampicin (Rimactane®)Rifampicin mixtúra er ekki skráð hér á landi en fæst í apóteki LSH. 10mg/kg/dag, gefið í tveimur jöfnum skömmtum í 2 daga.
b) Ceftriaxone (Rocephalin®)  125mg i.m. x1
2. Fullorðnir 
 a) Rifampicin (Rimactane®)  600mg p.o. x2 á dag í 2 daga.
 b) Ciprofloxacin (Ciproxin®, Cíflox® eða Síprox®)  500mg eða 750mg p.o. x1
 c) Ceftriaxone (Rocephalin®)

Þetta er eina lyfið sem ráðlagt er fyrir ófrískar konur.

 250mg i.m. x1

 

ATH !

Rifampicin veldur appelsínugulum lit á þvagi og augnlinsum og örvar microsomal ensým í lifur, sem getur dregið úr verkun getnaðarvarnapilla. Fullnægjandi upplýsingar um notkun lyfsins hjá ófrískum konum liggja ekki fyrir.


Ciprofloxacin má ekki gefa ófrískum konum eða konum með börn á brjósti. Lyfið er ekki ætlað börnum á vaxtarskeiði vegna möguleika á brjóskskemmdum af völdum þess.


Fyrst birt 01.01.2011
Síðast uppfært 21.11.2016

<< Til baka