Erfiðir tímar: missir og sorg

Lífið getur stundum reynst erfitt og börn átt í erfiðleikum með að höndla vissar aðstæður sem þau standa frammi fyrir. Það sama getur átt við um fjölskyldur og kennara barnanna. Foreldrum getur reynst mjög erfitt að styðja barnið sitt þegar þeim líður illa eru yfirkomnir af sorg daprir eða reiðir t.d. við dauðsfall náins ættingja eða vinar eða standa í hjónaskilnaði.

Hér fyrir neðan eru upplýsingar og úrræði sem studdar hafa verið með rannsóknum og geta reynst foreldrum gagnlegar í erfiðleikum sem stundum er erfitt að höndla.

Missir og sorg

Margir foreldrar óttast að ung börn þeirra verði leið og hrædd ef talað er um dauðann við þau. Þessar áhyggjur eru skiljanlegar en eru oftast á misskilningi byggðar. Að tala við börn um dauðann hjálpar þeim við að skilja að dauðinn er ófrávíkjanlegur hluti lífsins og gerir þau færari um að takast á við sorgina og ástvinamissinn.

Að hjálpa börnum að takast á við breytingar og missi

Að tala við börn um dauðann

Rannsóknir undanfarin 60 ár sýna ljóslega að fullorðna fólkið er miklu hræddara en börnin við að ræða um dauðann. Börn ræða opinskátt um dauðann og það að deyja hvert við annað og hafa alltaf verið miklu óhræddari við þetta umræðuefni en fullorðnir.

Því miður verða sum ung börn fyrir miklum missi þegar foreldri, afi eða amma eða systkini deyr. Það er mikilvægt að börnin fái greinargóðar upplýsingar um hvað hefur gerst og einnig ætti að hvetja þau til að spyrja spurninga og að tala um þann sem lést.

Foreldrar sem sjálfir eru yfirkomnir af sorg geta átt í erfiðleikum með að tala við börnin sín undir þessum kringumstæðum, en það er mikilvægt fyrir börnin að fá tækifæri til að tala um tilfinningar sínar og áhyggjur. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef um sjálfsvíg er að ræða. Barn sem hefur misst hefur foreldri eða systkini er oft haldið reiði eða sektarkennd. Ef barnið byrgir inni í sér þessar tilfinningar getur það valdið því erfiðleikum mörgum árum síðar. Jafnvel þó að barninu sé ekki rótt við slíkar umræður verður það samt fegið að fá tækifæri til að ræða málið opinskátt.

Mikilvægt að hlusta vandlega á barnið og gefa því skýr og heiðarleg svör eftir því sem best verður við komið.

Að hjálpa börnum að takast á við breytingar og missi

Allar breytingar eða missir geta raskað tilveru ungra barna. Börn vilja hafa reglu á hlutunum og það veitir þeim öryggiskennd. Allir foreldrar þekkja það þegar barnið biður um að sama sagan sé lesin fyrir það aftur og aftur, eða þegar það vill horfa á sama myndbandið eða hlusta á sama lagið. Ung börn hafa hag af því að búa við ákveðnar reglur,t.d. um hvernig háttatíminn fer fram, venjur um hvað er sagt og gert þegar þau vakna á morgnana o.s.frv. Börn þurfa ákveðnar viðmiðanir í daglegu amstri og um það hvernig þau eiga að hegða sér. Skortur á ákveðnum mörkum getur haft áhrif á sjálfsmyndina, leitt til lítillar sjálfsstjórnar og ófullnægjandi færni í félagslegum samskiptum.

Að öllu jöfnu eiga börn erfiðara en fullorðnir með að sjá hluti fyrir, en þau virðast oft vera fljótari að aðlagast nýjum aðstæðum eftir að breytingin hefur átt sér stað. Hvaða breyting sem er, t.d. að byrja í nýjum skóla eða að flytja í nýtt hverfi getur komið barninu úr jafnvægi, burtséð frá því hvort breytingin er til batnaðar eða ekki. Sem dæmi má nefna að fyrir fullorðinn einstakling væri það að flytja í stærra og íburðarmeira hús að öllum líkindum spennandi og dásamleg upplifun. Hinsvegar gæti barn orðið mjög kvíðið vegna breytinganna og fundist þær óþægilegar, jafnvel þótt það langi mikið í stærra herbergi eða fallegra heimili. Það getur verið gagnlegt að útskýra fyrir börnunum að jafnvel breytingar sem virðast vera til hins betra geti valdið manni óþægindum og börn geti orðið hrædd eða kvíðin vegna slíkra breytinga. Þetta sé mjög eðlileg líðan.

Þegar breytingin hefur átt sér stað getur líðan barnsins breyst mjög fljótt og það getur virst hafa lagast hratt að nýju aðstæðunum. Við erfiðar aðstæður þýðir þetta þó ekki að breytingin hafi ekki haft áhrif á barnið – viðbrögðin geta komið síðar, jafnvel eftir nokkur ár. Ef stutt er vel við bakið á barninu, eykur það möguleika þess á að aðlagast breytingum hraðar og á jákvæðari hátt en ella.

Upplifun barns af því hversu stór missirinn er getur virst órökrétt eða í röngu hlutfalli við veruleikann að mati hinna fullorðnu. T.d. getur barn sem missir foreldri sýnt lítil sem enginn merki um sorg, en eftirlifandi foreldrið er miður sín og finnst erfitt að skilja að barnið vilji bara fara út að leika eins og venjulega. Hins vegar getur það að tapa sérstöku leikfangi eða annað slíkt verið barninu mjög erfitt, jafnvel þannig að það getur ekki sofið eða borðað fyrr en hluturinn sem skipti það svona miklu máli er fundinn.

Oft er það þannig að breytingarnar eru ekki neinum að kenna. Foreldri þarf ef til vill að skipta um vinnu og í kjölfarið að flytja með fjölskylduna til annars bæjar; foreldrar skilja, þar sem þeim kemur ekki saman, og hugsanlega deyr ástvinur. Við slíkar aðstæður hafa fullorðnir væntanlega skilning á því að það er ekki hægt að kenna neinum um. Hins vegar er það algengt að börn kenni einhverjum um þegar þau upplifa mikilvægar breytingar eða missi. Stundum kenna þau sjálfum sér um, þó að slíkt virðist mjög óraunhæft fyrir fullorðinn einstakling. Ef þetta er tilfellið er mikilvægt að útskýra fyrir barninu að mörg börn upplifi svipaða hluti, en þetta sé alls ekki þeirra sök.

Skilnaður foreldra getur verið barninu mikið áfall og í kjölfarið getur það orðið áhyggjufullt, reitt og vantreyst öllu og öllum. Börn sem hafa orðið fyrir áfalli geta verið árásargjörn, feimin og átt við tímabundna námsörðugleika að stríða. Tillitssemi og skilningur kennara og bekkjarfélaga skiptir þess vegna sköpum fyrir þau. Strákar geta átt sérstaklega erfitt með þetta, þar sem það er oft faðirinn sem yfirgefur heimilið við skilnað. Þar sem flestir leikskóla –og grunnskólakennarar eru konur, gæti þessa stráka skort karlkyns fyrirmynd og kennarar og foreldrar ættu að vera meðvitaðir um þetta.

Það ætti einnig að hvetja börn til þess skoða hvernig þau geta sjálf breyst. Á aldrinum 5-7 ára verða börnin mjög meðvituð um eigin þroska miðað við önnur börn – þau geta farið að gera sér grein fyrir að yngri börn séu ,,smábarnalegri” en þau sjálf, þau sjá leikföng sem þau eru hætt að leika sér með af því að þau eru fyrir yngri börn, og þegar þau byrja í skóla læra þau fljótt að greina aldur bekkjarfélaga sinna eða í hvaða bekk þau eru. Þannig læra þau frá fyrstu hendi að breytingar, bæði góðar og slæmar, eru lífsins gangur .

Að tala við börn um dauðann

Fullorðið fólk á oft miklu erfiðara með að tala um dauðann en börn. Börn verða mjög forvitin um dauðann strax og þau kynnast honum í sögum og ævintýrum, í leikjum af ýmsu tagi og þegar þau horfa á sjónvarpsþætti. Börn þykjast vera „dauð” í leikjum og drepa „vonda kallinn” í tölvuleikjum og ræða á opinskáan hátt um dauðann við önnur börn. Börn eiga oftast jafn auðvelt með að tala um dauðann eins og hvert annað umræðuefni s.s. íþróttir, uppáhaldsleikfangið eða matinn sinn. Ef einhver nákominn deyr vekur andlátið sorg, en börnin eru samt forvitin um þann sem dó og geta talað opinskátt um tilfinningar sínar. En þegar börn finna áhrifin sem dauðinn hefur á eftirlifandi fullorðna á þann hátt að þeir eigi erfitt með að ræða um dauðann, geta börnin sjálf orðið óörugg.

Jafnvel þótt börn hafi strax frá ungum aldri vissan skilning á dauðanum og hvað það sé að deyja er sá skilningur oft mjög ólíkur þeim „þroskaða” skilningi fullorðna fólksins á því hvers vegna fólk deyr og hvað gerist þegar dauðinn knýr að dyrum. Fyrstu rannsóknir á hugmyndum barna um dauðann voru unnar í seinni heimsstyrjöldinni þegar mörg börn misstu foreldra sína. Fræðimenn fóru þá að taka viðtöl við börn á kerfisbundinn hátt og spurðu þau hvað þau héldu að gerðist þegar manneskja deyr. Niðurstöður þessara athugana voru á þá leið að mjög ung börn skynjuðu dauðann fyrst sem eins konar svefn sem væri þó ekki endanlegur heldur gætu dánir menn vaknað aftur rétt eins og hún Þyrnirós í ævintýrinu góðkunna. Yngstu börnin héldu að hægt væri að komast hjá því að deyja með því að vera varkár eða hafa góðan lækni. Dauðinn er þannig ekki endilega varanlegt ástand í hugum barnanna. Fólk í teiknimyndum deyr og lifnar jafn skjótt við aftur eftir að hafa orðið fyrir stórum flutningabíll – rétt eins og ekkert hafi í skorist. Börn undir fimm ára aldri telja oft að fólk sem deyr hafi verið óvarkárt eða óhamingjusamt. Börn á þessum aldri hafa hvorki skilning á því að allir muni eitt sinn deyja né að dauðinn sé oftast tengdur illvígum sjúkdómum og afleiðingum þeirra. Börnunum finnst að hinir látnu geti hugsað og fundið til og geti séð og heyrt, en að færni þeirra sé skert- þeir geti til dæmis ekki hreyft sig og ekki séð vel því þeir séu látnir vera ofan í dimmri kistu.

Athuganir á hugmyndum barna um dauðann hafa oft beinst að hinum ýmsu þroskastigum barnsins. Þótt um það sé deilt hvort barnið fari í gegnum skýrt afmörkuð þroskastig og hvort það eigi við um öll börn eru fræðimenn sammála um að skilningur barna á dauðanum þróist smám saman. Oft beinast rannsóknir að því að finna hvort barnið hafi náð tökum á nokkrum hugtökum sem eru eins konar grundvöllur skilnings á sjálfum dauðanum. Skilningur á því að eitthvað sé endanlegt er forsenda þess að barnið geti áttað sig á því að hinn látni muni ekki koma aftur til lífsins. Þessi skilningur er fyrsta merki um að barnið hafi þroska til að skilja hvað í dauðanum felst. Skilningur á því að eitthvað sé algilt er önnur forsenda skilnings á dauðanum og þýðir að barnið áttar sig á því (oft 6 – 8 ára) að dauðinn nær til allra – einhvern tíma. Önnur hugtök koma einnig við sögu, til dæmis að eitthvað sé ófyrirsjáalegt – að enginn geti vitað hvenær kallið kemur – en börn öðlast ekki skilning á þessu fyrr en þau eru orðin mun eldri. Þegar börn eru spurð hvað þau haldi að gerist þegar þau deyi svara þau samt mjög sjaldan á þá leið að skilja megi sem þau upplifi dauðann sem eitthvað endanlegt ástand þar sem hvorki hugsun né tilfinning sé til staðar. Sum börn nota sömu svör og þau hafa heyrt heima eða í kirkjunni: „Maður fer til himnaríkis” – en kannski halda þau að ætlast sé til þess að þau svari á þennan hátt fremur en að þau séu að greina frá því sem þau hugsa sjálf eða trúa. Ef spurt er á annan hátt viðurkenna þau oft að þau hugsi líka um dauðann á annan hátt.

Við þurfum einnig að hafa í huga annað sem gjarnan einkennir skilning barna á dauðanum. Börn geta nefnilega trúað að tvennt sem algjörlega stangast á geti á sama tíma átt sér stað. Þetta kemur fullorðu fólki oft algjörlega í opna skjöldu. Hinn fullorðni einstaklingur sem veit að hinn látni kemur ekki aftur til lífsins gerir sér grein fyrir að það er ekki um leið hægt að trúa því að ef þú hafir nógu góðan lækni eða biðjir nægilega heitt þá muni hinn látni vakna til lífsins á ný. Ekki er óalgengt að börn lýsi því af nákvæmni hvernig hinn látni getur ekki séð, heyrt eða talað við þá sem eru lifandi, en segi svo frá því nokkrum mínútum síðar að afi, sem er dáinn, sjái allt og hlakki til að horfa á íþróttakeppnina sem barnið ætlar að taka þátt í. Af þessum ástæðum getur fólk sem ræðir um dauðann við börn orðið hálfringlað og haldið að börnin séu bara að bulla eða segja bara eitthvað sem þeim flýgur í hug. Venjulega er þessu ekki þannig varið. Börn hafa einfaldlega dásamlegan hæfileika til að trúa samtímis ýmsu sem ekki samrýmist eða fær staðist og þetta eiga hinir fullorðnu oft erfitt með að samþykkja vegna þess að þeirra hugsun er allt önnur og rökréttari.

Börn hafa gott af því að tala um dauðann og því þannig fá þau prófstein á hvort skilningur þeirra á dauðanum sé sambærilegur við skilning annarra, barna eða fullorðinna. Þau geta einnig með því að tala um dauðann létt af sér tilfinningum sem þau hafa borðið til látins ástvinar. Börn fá hins vegar of sjaldan tækifæri til að ræða um dauðann þar sem fullorðið fólk færist oft undan slíkri umræðu við þau. Börn geta þróað með sér hugmyndir sem geta valdið þeim óþarfa vandamálum ef enginn útskýrir þessa þætti betur fyrir þeim. Barn sem misst hefur foreldri er oft haldið sektarkennd. Ekkert barn er alfullkomið og stundum hefur sú frumsæða trú náð yfirtökunum að vegna þess að þau hafi ekki verið nægilega hlýðin og góð hafi móðir þeirra eða faðir dáið. Stundum verða börn reið, en læra fljótt að reiði í garð hins látna ættu þau aldrei að láta í ljós – það sé allt í lagi að vera sorgbitinn vegna þess að foreldri hefur skyndilega yfirgefið þau – en ekki reið. Ef rætt er um þetta við börn er mjög mikilvægt að hjálpa þeim til að skilja að tilfinningar þeirra séu ekkert óeðlilegar með því að segja til dæmis: “Það er alveg eðlilegt að vera sár og reiður þegar einhver sem manni þykir mjög vænt um hefur farið frá manni. Hann gat bara ekkert gert að því og myndi örugglega vera hér ef það hefði verið í hans valdi.”

Oftast nær þarf ekki að hafa mikið fyrir því að koma umræðu um dauðann af stað. Börn hafa margt um málið að segja og eru fljót að bregðast við þegar eitthvert þeirra kemur með óvenjulega eða frumstæða hugmynd um dauðann. Það er börnum oft hugarléttir þegar þau átta sig á því að yfir þessu umræðuefni – sem oftast er ekki til umræðu – sé alls ekki sú leynd sem þau hafa e.t.v.átt að venjast og að umræðan veki ekki ótta eins og foreldrar þeirra hafa kannski haldið.


Fyrst birt 07.07.2008
Síðast uppfært 30.10.2017

<< Til baka