Heilsa kvenna og reykingar

Margir vita ekki að reykingar eru hlutfallslega stærri áhættuþáttur hjá konum en körlum. Af öllum áhættuþáttum lífsstíls eru reykingar langhættulegastar hjartanu og hjartasjúkdómar eru algengasta dánarorsök íslenskra kvenna.

Heilsa kvenna og reykingar

Margar góðar ástæður fyrir því að hætta að reykja og góð ráð til þess

Margir vita ekki að reykingar eru hlutfallslega stærri áhættuþáttur hjá konum en körlum.

Af öllum áhættuþáttum lífsstíls eru reykingar langhættulegastar hjartanu og hjartasjúkdómar eru algengasta dánarorsök íslenskra kvenna. Áhættan eykst enn frekar ef fyrir eru aðrir áhættuþættir eins og ættarsaga, aldur, streita, ofþyngd, offita og of hátt kólesteról í blóði.

Reykingar valda því að æðar dragast saman og blóðstorknun verður meiri en ella. Líkurnar á að deyja úr kransæðastíflu meira en sjöfaldast hjá konum sem reykja meira en pakka á dag en þrefaldast hjá körlum sem reykja sama magn. Jafnvel færri en 5 sígarettur á dag auka hættu á hjartasjúkdómum hjá konum og jafnframt hafa óbeinar reykingar áhrif.

Áhættuþættir reykinga á meðgöngu eru vel þekktir. Talið er að reykingar á meðgöngu sé ástæða allt að 15% fyrirburafæðinga og 20-30% léttburafæðinga. Kona sem hættir að reykja dregur úr hættunni á að fæða andvana barn og að barnið deyi vöggudauða.

 • Algengasta dánarorsök íslenskra kvenna eru hjartasjúkdómar - reykingar eru langhættulegasti áhættuþátturinn
 • Meira en einn pakki á dag sjöfaldar hættuna á kransæðastíflu hjá konum
 • Meiri líkur eru á því að fæðingarþyngd barnsins verði eðlileg og það verði hraustara ef móðirin er reyklaus

 

Hver er ávinningurinn fyrir konur af því að hætta að reykja?

Heilbrigðara hjarta

Með því að reykja eina til fjórar sígarettur á dag tvöfaldast líkurnar á því að fá hjartaáfall.

Með því að hætta að reykja eykst úthaldið og blóðrásin verður betri. Eftir eins árs reykbindindi hafa líkurnar á hjartasjúkdómum minnkað um helming og eftir 15 ára reykbindindi eru líkurnar á hjarta-og lungnasjúkdómum þær sömu og hjá þeim sem aldrei hafa reykt.

Heilbrigðari meðganga

Með því að hætta að reykja fær ófædda barnið meira súrefni og blóðflæði til barnsins verður betra. Minni líkur eru á því að barnið verði undir fæðingarþyngd. Einnig minnka líkur á því að legvatnið fari of snemma og barnið fæðist fyrir tímann.

Að hætta að reykja á meðgöngu hefur góð áhrif á almenna líðan og tengsl við ófædda barnið. Konan finnur fyrir jákvæðari tilfinningum og hættir að hafa áhyggjur og sektarkennd vegna reykinganna.

Léttari öndun 

Þar sem konur hafa yfirleitt minni lungu en karlar eru meiri líkur á að þær fái astma, lungnaþembu eða langvinna berkjubólgu.

Nokkrum vikum eftir að kona hættir að reykja, finnur hún að það verður léttara að anda, hóstinn minnkar og henni líður betur.

Minni líkur á krabbameini

Lungnakrabbamein er eitt algengasta krabbameinið hjá konum. Við það að hætta að reykja minnka líkurnar á að fá lungnakrabbamein um helming.

Líkurnar á krabbameini í munni, hálsi, nýrum, blöðru, brisi og leghálsi minnka einnig.

Hægt að hætta án þess að þyngjast

Konur sem hætta að reykja þyngjast aðeins um 2,5 kg að meðaltali. Sumar konur léttast. Með því að borða hollan mat og stunda líkamsrækt er hægt að koma í veg fyrir þyngdaraukningu. Þótt kona þyngist um nokkur kíló er engin ástæða til að örvænta. Hægt er að losna við aukakílóin á skömmum tíma.

Meiri regla á tíðahringnum

Reykingar skapa óreglu á tíðahringnum og draga úr frjósemi. Reyki kona samhliða notkun P-pillunnar getur það valdið alvarlegu heilsutjóni, s.s. heilablóðfalli, hjartaáfalli eða blóðtappa. Með því að hætta minnka líkurnar verulega á slíkum sjúkdómum.

Minni hætta á beinþynningu

Konur sem reykja fara yfirleitt fyrr á breytingaskeiðið og líkur á beinþynningu aukast verulega. Við það að hætta styrkjast beinin.

Börnin og fjölskyldan vernduð gegn óbeinum reykingum

Óbeinar reykingar (reykurinn frá reykingamanninum sjálfum og reykurinn frá logandi sígarettu) eru heilsuspillandi, sérstaklega fyrir börn. Þeir sem eru útsettir fyrir óbeinum reykingum finna fyrir ertingu í augum, nefi og hálsi og geta fundið fyrir höfuðverk, svima og ógleði.

Hætti móðir að reykja fær barn hennar síður kvef, nefrennsli, flensu, eyrnasýkingar, ofnæmi og astma. Einnig minnkar hættan á krabbameini og ýmsum alvarlegum sjúkdómum hjá öðru heimilisfólki.

Fallegri húð, heilbrigðari tennur, ferskari andardráttur

Reykingar valda ótímabærum hrukkum og kona virðist því eldri en ella. Við það að hætta að reykja verður blóðrásin til húðarinnar betri og við það mýkist hún og sléttist. Gular tennur og tannholdsbólga eru algengir fylgifiskar reykinga. Með því að hætta að reykja minnka líkurnar á tannskemmdum og tennurnar öðlast aftur sinn upprunalega lit. Reykingalykt af fötum, hári og andardrætti hverfur um leið og hætt er að reykja.

Þú getur það!

Að hætta að reykja getur verið erfitt en það borgar sig alltaf,Reyklaus_hnappur_200 það er aldrei of seint að hætta. Hvers konar líkamsþjálfun og slökunaræfingar virka mun betur en tóbak til að losna við streitu. Reyndu!

Mundu að sumir þurfa nokkrar tilraunir til að hætta að reykja áður en það tekst.

Tíu mjög góð ráð til að hætta

Góður undirbúningur er grundvallaratriði þess að hætta að reykja. Því betri undirbúningur, því betri árangurs má vænta.

Undirbúningur:

 1. Veljið dag til að hætta. Gott getur verið að velja fyrsta dag í mánuði eða einhverja dagsetningu sem skiptir máli fyrir hvern og einn og því auðvelt að muna. Þennan dag er gott að nota til að marka upphafið.
 2. Skrifið hjá ykkur ástæðurnar fyrir að því að vilja hætta tóbaksnotkun (betri heilsa, fyrirmynd, peningar, úthald, útlit, lykt o.s.frv.).
 3. Skoðið hvaða leiðir eru færar til að hætta og veljið leið sem hentar ykkur. Skrifið hjá ykkur úrræði, þ.e. hvað hægt sé að gera í staðinn fyrir að reykja og reynið að forðast aðstæður sem tengjast reykingum á meðan þið eruð að hætta.
 4. Útbúið áætlun um hvernig þið ætlið að hætta og hafið hana þar sem þið sjáið hana á hverjum degi. Finnið eitthvað til að gera við tímann sem fór í að reykja og jafnvel eitthvað til að hafa í höndunum á meðan þið eruð að venja ykkur af því að hafa sígarettu á milli fingranna.
 5. Skipuleggið ykkur fram í tímann til að takast á við erfiðar aðstæður. Reynið að gera ykkur grein fyrir hvaða aðstæður og hugsanir það eru sem stefna reykbindindinu í hættu og finnið leið til að bregðast við því. Þið þurfið að vera búnar að ákveða hvað þið ætlið að gera þegar ykkur langar í tóbak. Munið að það tekur yfirleitt ekki nema nokkrar sekúndur að standast freistinguna.
 6. Takið einn dag í einu og fagnið hverjum degi sem þið eruð reyklausar.
 7. Segið fjölskyldu, vinum og vinnufélögum frá því að þið séuð hættar og þið eigið eftir að finna vel fyrir því hvað stuðningur þeirra hvetur ykkur áfram.
 8. Fylgist með hvað þið sparið mikla peninga – og njótið þeirra.
 9. Það er ekkert sem heitir að fá sér „aðeins eina sígarettu“
 10. Biðjið reykingafólk að sýna ykkur tillitssemi og reykja ekki í návist ykkar.

 

Aðstoð við að hætta

Víða er veittur stuðningur til reykleysis. Reyksíminn 800 6030 er símahjálparlína þar sem hjúkrunarfræðingar svara í símann og veita upplýsingar og persónulega aðstoð við að hætta. Síminn er opinn á milli kl. 17 og 20 á virkum dögum og þess á milli er símsvari þar sem hægt er að biðja um að haft sé samband. Fyllsta trúnaðar er gætt og það kostar ekkert að hringja.

Eins hjálpar það mörgum að skrá sig inn á www.reyklaus.is sem er gagnvirkur vefur fyrir alla sem vilja hætta tóbaksnotkun. Fólk skráir sig og fær síðan póst með hvatningu og ýmsum góðum ráðum til að hætta. Á síðunni er spjallsvæði þar sem þeir sem eru að hætta geta talað saman, sagt frá því hvernig þeim gengur og aðrir, sem eru í sömu sporum, gefa ráð og veita stuðning. Á heilsugæslustöðvum er hægt að leita til heimilislæknis, hjúkrunarfræðings og ljósmóður eftir aðstoð og ráðgjöf.

Til að koma í veg fyrir sjúkdóma og ótímabær dauðsföll er ekkert eins árangursríkt og það að hætta að reykja!

Hugsaðu jákvætt – þú GETUR hætt!

 

Bára Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í barnahjúkrun, MSc
verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Lýðheilsustöð

Karitas Ívarsdóttir, ljósmóðir
Þróunarstofu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins


Fyrst birt 27.05.2010
Síðast uppfært 30.10.2017

<< Til baka