Um hjartasjúkdóma

Rúmlega 14 milljón manns deyja árlega í heiminum af völdum hjartasjúkdóma. Árið 2020 er talið að tala dauðsfalla muni verða um 20 milljónir á ári.

Vanþróuð lönd hafa ekki farið í gegnum þá breytingu á mynstri dánarorsaka sem átti sér stað fyrir mörgum áratugum á Vesturlöndum, þ.e. að smitsjúkdómar hættu að vera helsta dánarorsökin, en langvinnir sjúkdómar tóku við. Þótt enn sé langt í land með að útrýma smitsjúkdómum í þriðja heiminum, er hlutfallslegt vægi langvinnra sjúkdóma, svo sem hjarta- og æðasjúkdóma að aukast í þróunarlöndum eins og í Kína og á Indlandi.

Hjarta- og æðasjúkdómar eru enn um 50% af aldursstöðluðum dánarorsökum á Vesturlöndum, þar af um helmingur vegna kransæðasjúkdóms, þriðjungur vegna heilablóðfalls en afgangurinn af öðrum hjarta-og æðasjúkdómum. Vægi hjarta-og æðasjúkdóma fer minnkandi í þessum löndum. Lækkunin byrjaði í Bandaríkjunum um 1970, en á Norðurlöndum um 1980. Fækkun dauðsfalla af þessum sjúkdómum í Vestur-Evrópu má vafalítið þakka því, að dregið hefur úr áhættuþáttum hjartasjúkdóma auk þess sem meðferð hefur batnað. Mikilvægi meðferðar má meðal annars sjá af því að fleiri lifa nú af hjartasjúkdóma en áður var. Hjartabilun eftir kransæðasjúkdóm verður æ meira vandamál eftir því sem fleiri lifa sjúkdóminn af og ná háum aldri.

Í Austur-Evrópu er aðra sögu að segja. Þar voru dauðsföll af völdum hjartasjúkdóma algengari en á Vesturlöndum fyrir hrun kommúnismans og þar hefur, gagnstætt því sem gerist á Vesturlöndum, orðið veruleg aukning hin síðustu ár.

Breyttur lífsstíll
Rangt er að líta á hjartasjúkdóma sem hrörnunarsjúkdóma eingöngu. Hægt er að hafa veruleg áhrif á áhættuþættu hjartasjúkdóma með breyttum lífsstíl. Helstu áhættuþættirnir eru mataræði (hátt kólesteról), hár blóðþrýstingur, reykingar og hreyfingaleysi. Af hreyfingaleysi og slæmu mataræði leiðir svo offita, sem er sjálfstæður áhættuþáttur hjartasjúkdóma. Í flestum vestrænum löndum hefur kólesteról lækkað verulega í blóði með bættu mataræði, minni neyslu á mettuðum fitusýrum og meiri neyslu grænmetis og ávaxta. Almenningur og læknar eru betur meðvitaðir um mikilvægi þess að fylgjast með blóðþrýstingi en áður var. Í mörgum löndum hefur dregið verulega úr tóbaksneyslu. Á móti kemur að hreyfingaleysi og offita er vaxandi vandamál á Vesturlöndum.

Áður fyrr var talið að hjartasjúkdómar væru algengari meðal hinna ríku. Það á vissulega ekki við í vestrænum löndum nú á dögum. Þar hefur lækkun dánartölu af völdum hjarta- og æðasjúkidóma orðið mun hraðari hjá efnuðum og vel menntuðum þjóðfélagsþegnum.

Stjórnvöld hafa hlutverki að gegna
Hlutverk stjórnvalda er að auðvelda fólki að breyta lífsstíl sínum til hins betra. Þetta er mögulegt með ýmsum stjórnvaldsaðgerðum, t.d. með skattlagningu á tóbaki, en minni skatt á matvælum sem stuðla að heilbrigði. Bættar gönguleiðir, hjólabrautir og aðstæður til útivistar eru verkefni umhverfis- og samgönguráðuneyta, landbúnaðarráðuneytið hefur hlutverki að gegna vegna matvælaframleiðslu, menntamálaráðuneyti vegna uppfræðslu almennings og svo mætti lengi telja. Þar sem hjartasjúkdómar eru fremur sjúkdómar þeirra fátæku en hinna ríku, geta stjórnvaldsaðgerðir sem miða að jöfnun lífskjara haft jákvæð áhrif.

Matthías Halldórsson
aðstoðarlandlæknir

Þessar upplýsingar birtust fyrst sem Hollráð á vef Landlæknisembættisins í apríl 2000.


Fyrst birt 01.04.1999
Síðast uppfært 24.10.2017

<< Til baka