Áhættuþættir hjartasjúkdóma

Hugsaðu um hjartað
Þrátt fyrir að talsvert hafi áunnist í baráttunni við hjarta og æðasjúkdóma eru þeir enn aðal dánarorsök Vesturlöndum. Því hefur Landlæknisembættið ákveðið að aprílmánuður verði tileinkaður umræðu um hjarta og æðasjúkdóma. Mikilvægt er að vekja almenning til umhugsunar um kransæðasjúkdóm og áhættuþætti hans þannig að einstaklingar geti hugað að forvörnum í tíma, því betra er að fyrirbyggja sjúkdóminn áður en hann fer að gera vart við sig.

Áhættuþættir
Helstu áhættuþætti kransæðasjúkdóms má flokka í gróft í tvo flokka. Annars vegar þá sem við getum haft áhrif á og hina sem við ráðum ekki við.

Áhættuþættir sem við getum breytt Áhættuþættir sem við getum ekki breytt
Reykingar Kyn
Hár blóðþrýstingur Erfðir
Hátt kólesteról Aldur
Offita  
Hreyfingarleysi  
Streita  
Mikil áfengisneysla  

Mikilvægt er fyrir alla að huga að þessum áhættuþáttum tímanlega og frá barnæsku ætti að temja sér reglubundna hreyfingu ásamt hollu fjölbreyttu fæði.

Blóðþrýsting og kólesteról er rétt að mæla reglulega og oftast er byrjað á því að gefa almenn ráð varðandi mataræði og hreyfingu sem fyrstu meðferð.

Aðrir áhættuþættir eins og offita og hreyfingarleysi eru einnig afar mikilvægir. Þessir þættir hafa ekki bara sjálfstæð áhrif á þróun sjúkdómsins heldur hafa þeir einnig skaðleg áhrif á aðra áhættuþætti og magna þá upp. Offitu og hreyfingarleysi fylgir gjarnan hækkaður blóðþrýstingur og kólesteról og einnig getur fylgt þessu aukin hætta á fullorðinssykursýki. Við mat á hvort einstaklingur sé of þungur er oft miðað við svokallaðan líkamsþyngdarstuðul (BMI) sem reiknaður er út frá hæð og þyngd (kg/m2). Þumalfingursregla er að sá sem er 1.8 m á hæð ætti ekki að vera mikið þyngri en 80 kg og sá sem er 1.70 m á hæð væri í kjörþyngd ef hann væri um 70 kg. Önnur viðmiðun mittismál, þ.e. mælt er víðasta ummál kviðar um mitti. Ef mittismál er er yfir 94 cm hjá körlum og yfir 80 cm hjá konum er það merki um að viðkomandi sé kominn í ákveðna áhættu.

Reykingar eru einn aðaláhættuþátturinn og sennilega sá þáttur sem hvað mikilvægast er að taka á. Auk þess að valda æðakölkun valda reykingar einnig vanheilsu á annan hátt s.s. með lungnasjúkdómum og krabbameinum. Sennilega er því engin leið ódýrari og betri í forvörnum en að koma í veg fyrir reykingar.

Hreyfingarleysi og gildi hreyfingar í forvörnum hafa verið rannsakað mikið að undanförnu. Þessar rannsóknir renna stoðum undir fyrri hugmyndir um það að hreyfingarleysi sé sjálfstæður áhættuþáttur hjarta og æðasjúkdóma. Með aukinni tækni og velmegun höfum við dregið úr hreyfingu almennt. Fólk notar bifreiðar til að komast leiðar sinnar, situr meira við tölvur og sjónvarp og hitaeininganotkun er því minni en áður. Þetta samfara breyttu mataræði hefur haft óhagstæð áhrif á áhættuþættina. Ekki er þörf fyrir alla að fara og æfa fyrir maraþonhlaup, heldur hafa rannsóknir sýnt að öll dagleg hreyfing skiptir máli. Því er mikilvægt fyrir alla að huga að því hvernig þeir geti aukið hreyfingu í daglegu lífi, s.s. með því að ganga eða hjóla til vinnu, nota ekki lyftur osfrv. Einnig er mikilvægt að temja sér reglubundna hreyfingu s.s. sund, göngur eða skokk a.m.k. 3-4 sinnum í viku 30 mínútur í senn.

Mataræði er einnig lykilatriði í forvörnum. Draga þarf úr neyslu í feimeiti og auka hlut grænmetis og ávaxta. Manneldisráð, Krabbameinsfélagið og Hjartavernd hafa gefið út ráðleggingar um þetta og mælt er með því að fólk á öllum aldri borði að minnsta kosti fimm skammta af grænmeti, ávöxtum eða kartöflum á dag. Þessu er t.d. unnt að ná með því að fá sér einn ávöxt eða ávaxtasafa að morgni og grænmetissalat með hádegismatnum, annan ávöxt síðdegis og soðnar kartöflur og grænmeti með kvöldmatnum. Einfalt.

Einkenni
Helstu einkenni kransæðasjúkdóms eru verkur, þrýstingur, sviði eða önnur einkenni fyrir brjósti sem koma helst við áreynslu. Verkurinn getur leitt upp í háls og út í vinstri handlegg. Einkennin eru ekki alltaf augljós og því er rétt að ráðfæra sig við sinn lækni til frekari greiningar.

Staðan í dag
Dánartíðni vegna kransæðasjúkdóms fer lækkandi á Vesturlöndum en því er öfugt farið með austur-Evrópulönd sem nú hafa byrjað að tileinka sér vestræna siði og reykingar eru þar einnnig mjög algengar.

Í rannsóknum Hjartaverndar var sýnt fram á að lækkun á tíðni kransæðasjúkdóma hér á landi má skýra með lækkun á tíðni háþrýstings og neyslu á fituríkri fæðu. Því er ljóst að með því að taka á ofannefndum áhættuþáttum er unnt að fyrirbyggja sjúkdóminn og draga verulega úr afleiðingum hans hjá þeim sem þegar hafa fengið hann. Hver og einn einstaklingur verður að vera ábyrgur sjálfur fyrir sinni heilsu og fyrir því að áhættuþættir hans séu greindir og viðeigandi ráðstafanir gerðar. Með einföldum lífsstílsbreytingum er unnt að draga úr vægi flestra áhættuþáttanna en í sumum tilfellum þarf að beita lyfjameðferð t.d. við háum blóðþrýstingi og einnig ef kólesteról er of hátt þrátt fyrir viðeigandi mataræði og hreyfingu.

Markmið hvers og eins ætti að vera að hreyfa sig reglulega, velja holla og fjölbreytta fæðu með áherslu á grænmeti og ávexti, algert tóbaksbindindi og láta fylgjast með blóðþrýstingi og kólesteróli. Á þann hátt hugsum við vel um hjartað.

Emil L. Sigurðsson, yfirlæknir
Heilsugæslustöðinni Sólvangi Hafnarfirði

Þessar upplýsingar birtust fyrst sem Hollráð á vef Landlæknisembættisins í apríl 2000.


Fyrst birt 03.04.2000
Síðast uppfært 24.10.2017

<< Til baka