Öryggi bóluefna - Thiomersal

Stöðugt er unnið að því að bæta þau bóluefni sem notuð eru. Jafnframt er fylgst með hugsanlegum aukaverkunum sem þau kunna að hafa. Upplýsingar um öryggi bóluefna má m.a. finna á vefsíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Reynt er að fjarlægja úr bóluefnum þau efni sem hugsanlega geta haft skaðvænleg áhrif og eru ekki nauðsynleg til að fá vörn gegn þeim sjúkdómum sem þeim er ætlað að hafa.

Thiomersal er eitt þeirra efna sem notað hefur verið í bóluefni. Efnið innheldur kvikasilfur í mjög litlu magni og er það notað í rotvarnarskyni. Það er þekkt að kvikasilfur í of miklu magni getur haft skaðvænleg áhrif á vefi líkamans, einkum miðtaugakerfi, ef það nær ákveðnu styrkleikamagni í líkamanum.

Magn kvikasilfurs í bóluefnum er hins vegar það lítið að lítil sem engin hætta er á skaðlegri verkun. Þó kvikasilfursmagnið í bóluefnum hafi verið langt undir hættumörkum þá hefur verið stefnt að því að ekkert bóluefni sem notað er hjá ungum börnum innihaldi kvikasilfur því það er óæskileg viðbót við það kvikasilfur sem berst í fólk eftir öðrum leiðum. Kvikasilfur er til í umhverfinu og vissum fæðutegundum svo sem sjávarafurðum.

Af þeim bóluefnum sem notuð hafa verið í almennum bólusetningum á Íslandi þá innihélt einungis Pentavac örlítið af thiomersal en það bóluefni er ekki lengur í notkun hér á landi. Í staðinn er notað Pentavac bóluefni án thiomersal.

Frá 1. janúar 2007 inniheldur ekkert bóluefni kvikasilfurssambönd sem notað er í almennum bólusetningum á Íslandi.

Sóttvarnalæknir


Fyrst birt 01.11.2011
Síðast uppfært 16.11.2016

<< Til baka