Svefn er næring


Ósvinnur maður
vakir um allar nætur
og hyggur að hvívetna.
Þá er móður
er að morgni kemur,
allt er víl sem var.
(Úr Hávamálum)

Góður svefn veitir þreyttum manni hvíld, frið og endurnæringu. Algeng orsök streitu er sú að fólk vanrækir þörf líkamans fyrir svefn. Í erindi Hávamála hér að ofan er bent á að ekki sé viturlegt að vaka yfir vandamálum á nóttunni. Maður vakni einungis þreyttur og mæðan sé óbreytt eftir sem áður.

Svefnþörf er mismunandi sem nemur 1-2 klst en meðalsvefnþörf fullorðinna er talin sjö og hálf klst. Gæði svefnsins skipta einnig máli. Öruggasti mælikvarðinn á góðan svefn er að vakna úthvíldur og líða vel yfir daginn. Dagsyfja þýðir alltaf svefnskuld. Börn og ungmenni þurfa meiri svefn en fullorðnir. En sjónvarp, myndbönd, tölvur og gemsar stela gjarnan svefntíma. Nemendur sem koma óhvíldir í skólann hafa skerta námsgetu.

Auk endurnærandi áhrifa svefnsins er m.a. vitað að vaxtarhormón myndast í djúpum svefni fyrri hluta nætur. Vaxtarhormónin stýra vexti þeirra sem ungir eru en einnig hraða endurýjunar á frumum í líkama þeirra eldri og hægja líklega á Elli kerlingu.

Að spara við sig svefn bitnar á heilsunni
Flestir vita að það er skaðlegt heilsunni að svipta fólk svefni. Athygli og einbeiting skerðist, líkamleg streitueinkenni koma í ljós, einbeiting, hugsun og tímaskyn brenglast, misskynjanir og ofskynjanir glepja fólk og endalaus vaka leiðir til dauða. Færri gera sér grein fyrir heilsufarslegum áhrifum þess að spara við sig svefn. Hægt og hljótt safnast fyrir þreyta sem fólk áttar sig ekki á að þurfi að leiðrétta. Þreytunni fylgir aukin spenna sem getur dulið þreytuna og fólk notar gjarnan örvandi efni til að þrauka daginn. Smám saman byggist upp streituástand; vítahringur spennu, svefnskorts, þreytu og kvíða (sjá mynd).

Streituástand birtist sem líkamleg einkenni, s.s. vöðvaspenna, verkir, meltingartruflanir, hjartsláttarónot og hækkaður blóðþrýstingur. Þau einkenni trufla svefn enn frekar. Draumar sem verða að martröðum vegna streitunnar vekja fólk upp með andfælum. Langvarandi streita lamar ónæmiskerfið, sem aftur eykur líkur á sýkingum og fleiri sjúkdómum. Líkur aukast einnig á hjarta- og æðasjúkdómum af öllu tagi sem og ótímabærri elli.

Gefum okkur því tíma til að njóta nægrar hvíldar. Háttum snemma.

Skynsamlegir lífshættir, hreyfing og slökun greiða fyrir svefni.

Svefnlyf eiga rétt á sér í hrakningum þreytu og streitu. Mörg eru alls óskaðleg.

Geymum ekki í leit okkar að góðu lífi að það eru lífsgæði að fá góðan svefn.

 

Ingólfur Sveinsson geðlæknir
Anna Björg Aradóttir hjúkrunarfræðingur

Birtist i Mbl. 1. mars 2003


Fyrst birt 18.07.2008
Síðast uppfært 13.07.2012

<< Til baka