Rannsóknir á lyfjanotkun

Það skapar tækifæri fyrir einstaka lækna/deildir eða hjúkrunar- og dvalarheimili að nota gæðavísa við rannsóknir á lyfjanotkun íbúa og eigin lyfjaávísunum. Nákvæmari vitneskja en nú liggur almennt fyrir um notkun og eftirlit með lyfjameðferð auk samanburðar við aðrar stofnanir getur auðveldað eftirlit, aukið öryggi og hagkvæmni meðferðar og jafnvel leitt til þess að tekið sé á vanmeðhöndlun einhverra vandamála.

Upphaflega vinnu og heimildaleit vegna lyfjagæðavísanna hafði með höndum Sigurður Helgason læknir á Hrafnistu í Reykjavík, fyrrv. ritstjóri klínískra leiðbeininga. Í starfi sínu á Hrafnistu hefur hann haft eftirlit með lyfjanotkun á hjúkrunar- og dvalarheimilum Hrafnistu undanfarin ár. Sú vinna hefur mótað tillögur að völdum lyfjagæðavísum fyrir hjúkrunar- og dvalarheimili sem stýrihópur um klínískar leiðbeiningar hjá embættinu hefur notað til að semja þá lyfjagæðavísa sem hér birtast.

Í öllum tilvikum hafa gæðavísarnir verið bornir undir hóp lækna, lyfjafræðinga og hjúkrunarfræðinga sem komst að sameiginlegri niðurstöðu um mikilvægi, innihald, mælanleika og viðmið. Þar sem það á við eru sett fram viðmið um æskilega útkomu, sem byggir á erlendum heimildum og samráði.

Við gerð gæðavísanna var stuðst við Lyfjastefnu Heilbrigðisráðuneytisins (nú Velferðarráðuneytis), upplýsingar frá Lyfjadeild Sjúkratrygginga Íslands, klínískar leiðbeiningar landlæknis, erlendar leiðbeiningar og aðrar heimildir.


Fyrst birt 02.07.2012

<< Til baka