Verklagsreglur um læknisrannsókn á fólki sem flyst til Íslands

Verklagsreglur um læknisrannsókn á fólki sem flyst til Íslands, sem og þeim sem koma til landsins til að sækja um dvalarleyfi eða hæli sem flóttamenn. Gilda frá janúar 2017. (Prentvæn útgáfa). 

 

1. Með umsækjendum um dvalarleyfi er í þessum verklagsreglum átt við þá sem sækja um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sem og kvótaflóttamenn, sbr. lög um útlendinga nr. 80/2016.

2. Umsækjendur frá Mið- og Suður-Ameríku, þ.m.t. Mexíkó, Evrópu utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), Asíu eða Afríku skulu gangast undir læknisrannsókn vegna sóttnæmra sjúkdóma. Hafi umsækjandi fullgilt erlent læknisvottorð sem uppfyllir þessar verklagsreglur að mati læknis og sé það ekki eldra en þriggja mánaða, þarf viðkomandi ekki að gangast undir læknisrannsókn. Umsækjendur frá EES, Sviss, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi eða Ísrael þurfa ekki að gangast undir læknisrannsókn. Einungis þeir einstaklingar sem munu fara úr landi innan tveggja vikna eftir komu geta verið undanþegnir neðangreindum rannsóknum.

3. Læknar á Íslandi með lækningaleyfi geta framkvæmt læknisrannsókn samkvæmt þessum verklagsreglum. Þegar læknisrannsókn er lokið skulu læknar senda Útlendingastofnun staðfestingu á því að fullnægjandi læknisrannsókn hafi verið gerð.

4. Með læknisrannsókn er átt við:

a. Almenna læknisskoðun sem gefur vísbendingu um heilsufarsástand þess sem sækir um dvalarleyfi. Kanna skal hvaða bólusetningar umsækjandi hefur fengið. Sé bólusetningum ábótavant skal tryggja að viðkomandi sé boðin bólusetning í samræmi við leiðbeiningar um almennar bólusetningar hér á landi. Ef tilkynningarskyldur sjúkdómur greinist, sbr. reglugerð um skýrslugerð vegna sóttvarna nr. 221/2012 er mælst til að samráð um meðferð og eftirlit verði haft við göngudeildir sem sinna slíkum sjúkdómum sbr. 1. gr. reglugerðar um sóttvarnaráðstafanir nr. 817/2012.

b. Berklarannsókn: Berklahúðpróf skal gera hjá öllum börnum og þunguðum konum. Einnig skal gera húðpróf hjá fullorðnum 35 ára og yngrisem munu dvelja hér lengur en 12 mánuði. Bendi húðpróf til berklasmits skal taka röntgenmynd af lungum. Einungis er skylt að taka röntgenmynd af fullorðnum einstaklingum sem dvelja skemur en 12 mánuði og af þeim sem eru eldri en 35 ára óháð lengd dvalar.

c. Rannsókn vegna þarmasmits: Saurrannsókn (ræktun og smásjárskoðun) skal gera hjá þeim sem hafa einkenni eða hafa haft einkenni frá meltingarvegi. Leita skal að þarmasmiti sem er tilkynningarskylt (salmonella, sígella, kampýlóbakter og Giardia lamblia). Slíka leit skal gera hjá öllum börnum yngri en sex ára án tillits til einkenna.

d. Rannsókn vegna lifrarbólgu B og lifrarbólgu C: Leita skal að lifrarbólgu B og lifrarbólgu C.

e. Rannsókn vegna HIV: Gera skal HIV-próf.

f. Rannsóknir vegna kynsjúkdóma: Rannsaka ber þá sem hafa einkenni um kynsjúkdóm eða ef rökstuddur grunur um kynsjúkdóm vaknar. Gera skal sárasóttarpróf (syphilis) hjá öllum.

 

5. Læknisrannsókn getur einnig tekið til annarra heilsufarsþátta sem ógna heilsu manna á hverju því landsvæði sem komið er frá. Frekari rannsóknir skulu þá gerðar samkvæmt ákvörðun sóttvarnalæknis.

6. Læknisskoðun og aðrar rannsóknir samkvæmt verklagsreglum þessum skulu framkvæmdar í einni og sömu heimsókn svo fremi að því verði við komið.

7. Við upphaf skólagöngu barna sem verklagsreglur þessar taka til skal ganga úr skugga um hvort gerð hafi verið læknisrannsókn skv. þessum verklagsreglum.

8. Ef læknisrannsókn með berklahúðprófi er gerð utan Höfuðborgarsvæðisins skal hafa samráð um framkvæmdina við göngudeild sem sinnir tilkynningarskyldum sjúkdómum.

9. Greiðsla vegna læknisrannsókna sem gerðar eru vegna umsóknar um dvalar- og atvinnuleyfi og eru í samræmi við verklagsreglur þessar skulu greiðast af vinnuveitanda eða þeim sem sækir um dvalar- eða atvinnuleyfið. Leiði læknisrannsókn í ljós þörf fyrir frekari sértækar rannsóknir þá greiðir umsækjandi eða sjúkratrygging hans kostnað við þau heilsufarslegu vandamál sem greinast fyrstu sex mánuðina sem dvalið er í landinu. Læknisrannsókn sem vinnuveitandi óskar sérstaklega eftir greiðist af vinnuveitanda. Greiðslur vegna læknisrannsókna og sem gerðar eru á umsækjendum um alþjóðlega vernd og kvótaflóttamönnum skulu vera þessum einstaklingum að kostnaðarlausu sem og kostnaður vegna bóluefna sem falla undir almennar bólusetningar á Íslandi. Mælst er til að við ákvörðun um meðferð og frekara eftirlit verði samráð haft við göngudeildir sem sinna slíkum sjúkdómum þ.e. göngudeild smitsjúkdóma á Landspítala, húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala og/eða göngudeild sóttvarna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (sbr. 1. gr. reglugerðar um sóttvarnaráðstafanir nr. 817/2012). Kostnaður vegna rannsókna og meðferðar tilkynningarskyldra smitsjúkdóma skal vera einstaklingum að kostnaðarlausu sbr. 11 gr. reglugerðar nr. 817/2012.

10. Verklagsreglur þessar eru settar á grundvelli sóttvarnalaga nr. 19/1997 sbr. einnig reglugerð um sóttvarnaráðstafanir nr. 817/2012 og taka við af eldri verklagsreglum frá 16. september 2015.

 

Reykjavík, 26. janúar 2017

Sóttvarnalæknir

 

 


Fyrst birt 11.01.2011
Síðast uppfært 27.01.2017

<< Til baka