Fyrir aðstandendur

Þunglyndi getur herjað á alla aldurshópa og gerir sér ekki mannamun. Jafnvel virkustu einstaklingar geta orðið þunglyndir. Einstaklingar sem áður báru höfuðið hátt og virtust höndla flesta hluti með sæmd, upplifa allt í einu að fótunum er kippt undan þeim; litlar þúfur verða að óyfirstíganlegum hindrunum.

Þunglyndi fylgja oft miklar félagslegar breytingar, væntingar til lífsins verða oft að engu, niðurrifshugmyndir hrannast upp, einstaklingurinn missir tengsl við vini og ættinga, sjálfstraustið er í molum, vandræði verða í vinnu eða atvinnumissir blasir við. Þunglyndur maður hefur þannig áhrif á allt í umhverfi sitt.

Sá þunglyndi getur jafnvel verið í afneitun gagnvart sjúkdómnum í lengri tíma, eða að hann vill ekkert aðhafast vegna skömmustutilfinningar eða jafnvel eigin fordóma. Nánustu aðstandendur eru oftar en ekki búnir að gera sér grein fyrir ástandinu og hafa reynt að fá þann sjúka til að leita aðstoðar, en án árangurs.

Makar, börn og aðrir aðstandendur kvarta undan þeim erfiðleikum sem fylgja því að búa við þunglyndi á heimilinu. Andrúmsloftið verður þrungið spennu, þögnin oft óbærileg, framtaksleysið yfirþyrmandi, einangrun vex.

Þótt hinn þunglyndi virðist hunsa þá sem í kringum hann standa þá er það ekki raunin, heldur á hann erfitt með öll tengsl. Neikvætt viðhorf hins þunglynda til sjálfs sín og aðstæðna kallar á særindi aðstandenda, sem upplifa þennan vanda sem óskiljanlega höfnun. Erfitt getur reynst að útskýra fyrir börnum, vinum eða vinnuveitendum hvað sé á seiði.

En hvað er til ráða?
Þunglyndi fylgir mikið álag, sérstaklega þegar einkennin eru á hástigi. Mikilvægt er að vera til staðar fyrir þann sjúka, styðja við bakið á honum og hjálpa honum til að leita sér aðstoðar. Samt er mikilvægt að taka ekki ráðin af sjúklingnum, heldur styðja hann til sjálfshjálpar og eigin ákvarðana.

Sumir falla í gryfju meðvirkninnar; vilja gera allt fyrir þann sjúka, afsaka hann, jafnvel skrökva fyrir hann. Meðvirknin er misskilin góðsemi sem oft viðheldur ástandinu, en um leið er hún skiljanleg hegðun í óskiljanlegum kringumstæðum.

Vanlíðan
Náin tengsl eða sambýli við þunglyndan einstakling getur valdið depurð, vonbrigðum, sorg, skömm, reiði og uppgjöf. Aðstandandinn fer að velta fyrir sér til hvers sé að standa í þessu: „Ég sem geri allt til að gera ástandið gott.? Sá sjúki getur hins vegar ekki séð tilgang með neinu eða dregur sífellt úr aðstandenda sínum. Stundum leiðir þunglyndi til skilnaðar.

Áskorun
Þunglyndi er læknanlegur sjúkdómur. Því fyrr sem einstaklingurinn fær hjálp því fyrr nær hann bata. Viðtöl, fræðsla og rétt lyfjameðferð geta komið í veg fyrir annað þunglyndiskast.

Það er oft erfitt yfirvinna þunglyndi maka síns eða annarra náinna aðstandenda. Best er að líta á það sem tímabundið verkefni, sem áskorun í stað óleysanlegs vandamáls. Það verður auðveldara að tala um hlutina og umræða um þá verður miðast frekar við lausn vandans en að festast í vandamálum. Þegar þunglyndið er um garð gengið og heimilislífið kemst í réttar skorður er mikilvægt að ræða um þessa reynslu á jákvæðum nótum og hugsa hvað sé best að gera ef sjúkdómurinn gerir aftur vart við sig.

Mikilvægt er fyrir aðstandendur að vera í góðu sambandi við meðferðaraðila og fá fræðslu um sjúkdóminn og æskileg viðbrögð. Hjóna- eða fjölskylduviðtöl geta haft mjög góð áhrif til lengdar. Víst er að sá sem varð þunglyndur þarf aðstoð við að byggja upp sjálftraust sitt og fá að axla daglega ábyrgð á nýjan leik.

Þú verður að hugsa um þig
Mikilvægt er fyrir aðstandendur að halda áfram með sitt líf þrátt fyrir veikindin heima fyrir. Nauðsynlegt er að sækja vinnu, sinna áhugamálum, fara í líkamsrækt og slökun, fara í heimsóknir, hlúa að þörfum sínum og draumum. Gott er að fást við það sem maður er góð/ur í og getur einbeitt sér að. Það færir vellíðan og aukið sjálfstraustið.

Hugarfar skiptir miklu í daglegu lífi þínu. Maður verður að hlú að sjálfstrausti, bjartsýni, öryggi og jákvæðni, því slíkir þættir geta haft úrslitaáhrif á það hvernig maður tekst á við áskorunina heima fyrir. Um leið og maður hlúir að sjálfri/sjálfum sér á maður auðveldara með að hlúa að þeim þunglynda.

Þunglyndi makinn, barnið eða foreldrið þarf að fá að taka ábyrgð á sjúkdómi sínum, en hlutverk annarra er að styðja hinn sjúka til betra lífs. Það þarf að hvetja hann til að sækja sér aðstoð, að sjá líf sitt í heild en ekki bara úr öldudalnum, hvetja hann til að stunda hreyfingu og líkamsrækt, og jafnvel taka þátt í því með honum; hvetja hann og styðja í að viðhalda tengslum við aðra svo eitthvað sé nefnt.

Oft er það eins og kraftaverk að koma hinum þunglynda af stað, en þegar af stað er komið þá er það léttir, bæði fyrir hinn þunglynda og fyrir þann sem er að reyna að styðja hann. Takist það virðist hann oftast kunna að meta það.

Mikilvægt er þó að hafa að leiðarljósi að hvetja hinn þunglynda ekki til eða ýta honum út í eitthvað sem kann að vera honum um megn eða hann er ekki tilbúinn að leggja út í.


Fyrst birt 07.01.2009
Síðast uppfært 13.06.2012

<< Til baka