Meðferð

Að greina orsakir vandans

Undirstaða skilvirkrar meðferðar á þunglyndi er nákvæm greining á ástandinu. Fyrst þarf að greina þunglyndisástandið, hvort þetta sé fyrsta skiptið eða endurtekið þunglyndi, á hvaða stigi það sé, og sömuleiðis þarf að greina fylgikvilla, eins og kvíðaraskanir.

Síðan þarf að fara vel ofan í saumana á mögulegum orsökum vandans. Kanna þarf vandlega hvort líkamlegar ástæður séu að verki, eins og vanstarfsemi á skjaldkirtli, blóðleysi eða annað. Síðan þarf að meta hvort missir eða önnur áföll
hafi sett ferlið af stað, eða óvæntar eða erfiðar breytingar á félagslegum aðstæðum, eða jafnvel langvarandi álag og streita. Það síðastnefnda kann að vera tengt vinnu, erfiðum fjárhag og/eða samskiptavanda innan fjölskyldu.

Kanna þarf hvort einhverjir þessara ytri þátta spili svo inn í þunglyndið að þá þurfi að leysa fyrst. Sé viðkomandi í virkri ofneyslu áfengis eða annarra vímuefna þá er nauðsynlegt að taka á þeim vanda eigi þunglyndismeðferð að takast vel.

Hvað getur maður gert sjálfur?

Áður en meðferð er lýst nánar er rétt að brýna fyrir fólki að skoða lífsstíl sinn og umhverfi til að greina hvort eitthvað þurfi þar að lagfæra. Hér getur verið um að ræða almenn atriði eins og rangt mataræði, hreyfingarleysi og lélega spennustjórnun, eða sértæk atriði eins og of mikið álag og streita, og árekstrar eða deilur við fjölskyldu eða vinnufélaga. Þessi mál er sjálfsagt að ræða við fjölskyldu eða vini og fá stuðning þaðan.

Lyfjameðferð

Lyf eru það meðferðarform sem flestir hafa heyrt um. Þunglyndislyf eru til í nokkrum flokkum:

  • Þekktust þeirra eru eflaust þau lyf sem líkjast Prozac í verkun, en þau virka að miklu leyti á serotónín-boðleiðir í heila. Þetta eru lyf eins og Fontex (Seról, flúoxetín), Seroxat (paroxetín), Cipramil (oropram) og Zoloft (sertralín). Þau virka best þegar verulegur kvíði fylgir.
  • Annar flokkur þunglyndislyfja virkar aðallega á noradrenaín-boðkerfi heilans og má þar nefna Remeron og Edronax. Þeim er frekar beitt þegar sjúkdómurinn einkennist meir af tregðu og þyngslum.
  • Önnur lyf, eins og Efexor, virka á bæði boðkerfin.
  • Til eru einnig svokallaðir MAO-hemjarar, eins og Aurorix.
  • Stundum þarf einnig að nota kvíðastillandi lyf og svefnlyf um tíma meðan þunglyndislyf eru að ná verkun.

Það er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar lyfjameðferð er beitt að bati kemur ekki strax, jafnvel þarf að bíða í nokkrar vikur eftir að þunglyndiseinkenni víki. Á þeim tíma þarf oft að auka skammtinn þar til árangri er náð. Náist árangur ekki skal skipta um lyf. Það er síðan nauðsynlegt að halda áfram lyfjatöku eftir að bata er náð í a.m.k. sex mánuði til að draga úr líkum á bakslagi.

Algengasta ástæðan fyrir því að varanlegur bati næst ekki er ef meðferð er ekki fylgt eftir með nægilega stórum skömmtum, ef lyfið er tekið óreglulega eða ef meðferð er hætt of snemma.

Aukaverkanir

Aukaverkanir fylgja öllum lyfjum. Því er mikilvægt að sjúklingur ræði við lækni sinn um hvaða aukaverkana sé helst að vænta. Eins er mikilvægt að sjúklingur skýri lækni sem stjórnar þunglyndismeðferðinni frá öðrum lyfjum sem hann tekur, því að stundum getur skapast óheppilegt samspil ólíkra lyfja og þarf að haga lyfjameðferð með tilliti til þess.

Samtalsmeðferð

Það er grundvallaratriði í allri meðferð að traust skapist milli þess sem veitir og sem þiggur meðferð. Komi upp vandamál, sem á einhvern hátt kunna að skerða þetta traust, er mikilvægt að ræða það strax. Það fara ekki allir í sérhæfða viðtalsmeðferð, en stutt viðtöl hjá heimilislækni t.d. nýtast oft mjög vel til að veita stuðning í gegnum bataferlið.

Hér verður greint frá tveimur aðferðum, sem beitt er í samtalsmeðferð.

  • Hugræn atferlismeðferð (HAM, Cognitive-behavioral therapy, BPT) er eitt þeirra samtalsmeðferðarforma sem sannað hafa gildi sitt. Þessi meðferð tekur á neikvæðum viðhorfum og bjöguðu mati á sjálfi og aðstæðum. HAM hentar vel þeim sem vilja og þola skipulagða og formfasta ráðgjöf.
  • Tengslameðferð (Interpersonal psycho-therapy, IPT). Í þessari meðferð er unnið að greiningu og lausnum í samskiptavanda, þegar missir eða áföll tengd nánum skyldmennum hafa átt sér stað, eða þegar viðkomandi hefur verið að fara í gegnum erfiðar breytingar á lífshlutverki sínu (role transition). Í þessari meðferð er unnið með erfiðar og bældar tilfinningar og stutt við uppbyggilega tjáningu þeirra.

Stundum er þessum tegundum samtalsmeðferðar beitt einum og sér, en oft einnig með lyfjum, sérstaklega ef þunglyndið er þungt og langvinnt.

Önnur meðferðarform

Stundum þarf að beita enn sértækari meðferðarformum, eins og t.d. hópvinnu á göngudeild geðdeilda eða dagdeildum. Iðjuþjálfun er mjög mikilvæg þegar þunglyndi hefur staðið lengi og truflað mikið starfsgetu. Endurhæfing og HAM-meðferð með innlögn á Reykjalundi hefur reynst mörgum gott úrræði

Árangur

Almennt séð má segja að árangur við meðferð þunglyndis sé nokkuð góður. Reikna má með að 70-90% fái viðunandi bata.


Fyrst birt 07.01.2009
Síðast uppfært 14.06.2012

<< Til baka