Börn og þunglyndi

Þunglyndi getur lagst á alla, líka börn og ungmenni.

  • Börn með námserfiðleika
  • Börn sem lenda í einelti
  • Börn sem einangrast félagslega
  • Börn sem flytja oft
  • Börn eftir skilnaði
  • Börn eftir dauðsfall
  • Börn sem eru vanrækt
  • Börn sem eiga foreldra með geðræna sjúkdóma
  • eða eiga við fíknivanda að stríða

Áður fyrr var talið að börn gætu ekki orðið þunglynd, þunglyndi væri sjúkdómur þeirra fullorðnu. Depurð og aðrar tilfinningasveiflur unglingsáranna voru útskýrðar sem eðlilegur fylgifiskur þess að breytast og þroskast. Undanfarin ár hefur geðheilsa barna verið markvisst skoðuð. Þá kemur í ljós að þunglyndi hinna ungu er vaxandi vandi í hinum vestræna heimi.

Það sem veldur þunglyndi barna eða ungmenna er samspil margra þátta. Lágt sjálfsmat, erfitt áfall, s.s. við dauðsfall náins ættingja eða vinar, erfiður skilnaður foreldra, og félagsleg einangrun um lengri tíma getur orðið ávísun á þunglyndi, sérstaklega ef barnið fær ekki virkan stuðning innan fjölskyldunar. Þunglyndi foreldris er áhættuþáttur fyrir börn, sömuleiðis mikil spenna og samskiptaörðuleikar á heimili.

Einkenni
Helstu einkenni þunglyndis hjá börnum og unglingum eru einbeitingarleysi með minnkuðum námsárangri, pirringur og reiði, léleg umhirða, lystarleysi og þreyta; þau kvarta um að geta ekki sofið eða að dreyma illa, þau snúa sólarhringnum við og loka sig af frá vinum; leiði, og áhugaleysi; dapurleg tónlist verður ríkjandi.

Mjög mikilvægt er að vera vakandi fyrir þunglyndi barna því ómeðhöndlað þunglyndi getur haft afdrifarík áhrif á líf þeirra síðar á ævinni. Ómeðhöndlað þunglyndi barns getur truflað mjög alla félagslega virkni og leitt til þess að barnið flosnar upp úr skóla, leitt til félagslegrar einangrunar og vímuefnanotkunar til að deyfa sársaukann. Í verstu tilvikum getur það leitt til sjálfsvígstilraunar.

Meðferð
Mikilvægt er að hefja meðferð sem fyrst. Það er ekki nóg að meðhöndla barnið eitt og sér, heldur þarf að aðstoða alla fjölskylduna. Foreldrar þurfa stuðning og fræðslu til að geta stutt barnið sem best. Fjölskyldumeðferð hefur að leiðarljósi að minnka togstreitu, ef hún er fyrir hendi, og stuðla að bættum samskiptum allra aðila.

Auk þess þarf barnið eða ungmennið einstaklingsmiðaða meðferð. Hópmeðferð getur líka verið mjög gagnleg, ekki síst þar sem hún hjálpar barninu/unglingnum að sjá að það eru fleiri sem glíma við svipaðan vanda, því að barnið hefur oft þróað með sér það viðhorf að engum geti liðið eins illa og því sjálfu, eða verið jafn ómöguleg manneskja.

Lyfjameðferð er stundum valkostur og er þannig meðferð nú beitt í æ ríkara mæli við þunglyndi barna og unglinga.

Úrræði
Þunglyndi greinist oft fyrst í skólanum. Kennarar taka eftir því að nemandinn er farinn að dragast aftur úr, sinnir ekki heimanámi, tekur lítinn þátt í umræðu, dregur sig í hlé eða mætir illa. Leita þarf allra ráða til að koma í veg fyrir að slíkt ástand þróist í þunglyndi svo að draga megi úr hamlandi áhrifum þess á þroska barnsins.

Innan skólans eru sálfræðingar, námsráðgjafar, skólahjúkrunarfræðingar og kennarar sem hægt er að leita til í upphafi og fá ráðgjöf hjá. Heilsugæslan á hverjum stað getur gripið inn í ferlið snemma. Margar heilsugæslustöðvar hafa komið á fót unglingamóttöku þar sem unglingurinn getur komið sjálfur án þess að panta tíma. Sérfræðingsþjónusta er á Barna-og unglingageðdeild við Dalbraut. Eins er starfandi barnageðlæknir við barnadeild FSA á Akureyri.

Þá starfa barnageðlæknar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og geðhjúkrunarfræðingar á einkareknum stofum sem veita ráðgjöf og meðferð. Félagsþjónustan um allt land hjálpar til með stuðningi við fjölskyldur í vanda, m.a. með því að útvega tilsjónarmenn, stuðningsfjölskyldur, greiða kostnað við meðferð ef með þarf, auk þess sem Barnaverndarstofa hefur fjölmörg meðferðarúrræði sem félagsþjónustan getur beðið um ef barn eða ungmenni þarf tímabundið að komast í annað umhverfi til að ná bata.


Fyrst birt 12.10.2009
Síðast uppfært 12.06.2012

<< Til baka