Hvað veldur þunglyndi?

Margar ástæður geta legið að baki þunglyndi. Stundum finnast engar augljósar, utanaðkomandi ástæður, þunglyndið er þá sagt koma innan frá, hugsanlega vegna erfða eða einhverra sjúkdóma. Þess ber að geta að þunglyndi er margslunginn sjúkdómur með mismunandi birtingarmyndir. Erfðir hafa sín áhrif, bæði erfðir sem liggja í erfðavísunum (genum) og eins hinn uppeldislegi arfur, þ.e. hvernig umhverfið mótar börn frá fæðingu og styður við bakið á þeim í uppvextinum.

Mjög oft má þó rekja þunglyndi til ákveðinna viðburða í lífi fólks eða kringumstæðna sem reynast því erfiðar eða þá beinlínis til líkamlegra sjúkdóma. Meðal þess getur verið undirrót þunglyndis:

Áföll
Þunglyndi getur þróast upp úr sorgarviðbrögðum eftir missi og önnur áföll, s.s. eftir skilnað, upp úr baráttu um forsjá barna, skipbroti í fjármálum, slysum eða sjúkdómum, sem hafa varanleg áhrif á viðkomandi og fjölskylduna. Eðlileg sorg eftir dauðsfall maka, náins ættingja eða vinar getur þróast í þunglyndi.

Lítið sjálfsmat
Einstaklingar með lágt sjálfsmat eiga á hættu að festast í neikvæðum hugsunum um sjálfa sig eða aðstæður sínar og möguleika. Einkenni þreytu, framtaksleysis, líkamlegra verkja, svefnörðuleika og kvíða myndast. Ef hugsunin heldur áfram að snúast um hið neikvæða er ákveðin hætta á að þunglyndi myndist.

Áfengis- og vímuefnameðferð
Þeir sem hafa átt við áfengis- og vímuefnavanda að stríða fá gjarnan ýmis einkenni þunglyndis eftir að hafa hætt neyslu og þegar þeim fer að verða ljós sá skaði sem fíknin hefur valdið þeim og öðrum. Þessir einstaklingar hafa oft skapað sér og fjölskyldum sínum mikil vandræði og skemmt fyrir sér í vinahópi. Atvinnumissir og erfiður fjárhagur bætir ekki úr. Þegar víman er horfin og þeir skoða hvað býður þeirra vex þeim oft í augum að takast á við erfiðleikana. Þess ber að geta að einstaklingar geta einnig hafa verið með undirliggjandi kvíðaraskanir eða þunglyndi áður, og hafa leitað á náðir Bakkusar til að flýja þá vanlíðan.

Skólinn
Ungmenni sem eiga við námsörðugleika að stríða, eru vinafáir, lagðir í einelti eða eiga ekki vísan stuðning í fjölskyldu sinni hættir til að draga sig í hlé og horfa á allt það erfiða í lífinu. Sjálfsmynd verður neikvæð og sömuleiðis hugsanir og viðhorf. Ef ekkert er að gert eykst hættan á þunglyndi.

Aðrir geðsjúkdómar
Kvíði, fælniviðbrögð (fóbíur), felmturröskun (panik) og almenn kvíðaröskun eru algengar geðraskanir, sem byrja gjarnan snemma á ævinni. Því fleiri sem kvíðaraskanir eru því hættara er við að þunglyndi fylgi fljótlega í kjölfarið. Bak við átraskanir, sem oftast greinast hjá ungum stúlkum, má oft finna ýmis einkenni þunglyndis. Þeir, sem veikjast af geðklofa, eiga á hættu að einangrast félagslega, detta út úr skóla eða vinnu. Þunglyndi er ekki óalgengt í þessum hópi.

Líkamlegar orsakir
Ýmsir líkamlegir sjúkdómar eða líkamlegar fatlanir geta orðið þess valdandi að fólk veikist af þunglyndi. Meðal slíkra orsaka geta verið:

Krabbamein
Krabbamein og meðferð við því veldur oft djúpstæðum, en sem betur fer oft aðeins tímabundnum röskunum á lífshögum. Það skapast óvissa um batahorfur og framtíðina, eins reynir á fjölskyldutengsl. Meðferðin sjálf reynir einnig mikið á líkamlega og andlega líðan. Styðja þarf einstaklinginn í að takast á við breyttar aðstæður og að nýta alla möguleika til að lifa góðu lífi þrátt fyrir sjúkdóminn og meðferð hans.

Meðganga og fæðing
Talið er að ein af hverjum tíu konum fái þunglyndi á meðgöngu eða rétt eftir fæðingu. Þegar konur verða þungaðar eða fyrst fæðingu getur þunglyndi hellst yfir þær að því er virðist að ástæðulausu. Þungun og fæðing barns eru oftast gleðilegur atburður, væntingar eru miklar og framtíðin blasir við. Konan reynir að sjá það jákvæða, en kvíðinn yfir því að eitthvað sé að barninu getur stundum tekið yfirhöndina á meðgöngunni eða óttinn um hún verði ekki nógu góð móðir eða henni finnst hún jafnvel ekki eiga skilið að eignast barnið. Samband við maka og aðra nána verður erfitt, konan vill einangra sig og grátköst verða tíð.

Skjaldkirtilssjúkdómur
Skjaldkirtillinn framleiðir hormón, sem m.a. stýrir brennslu í líkamanum. Þegar of lítið er framleitt af þessu hormóni geta komið fram einkenni, sem eru alveg eins og mörg einkenni þunglyndis. Því er það alltaf góð regla, ef minnsti grunur er um vanstarfsemi skjaldkirtils hjá einstaklingi með þunglyndiseinkenni, að mæla starfsemi skjaldkirtils.

Sykursýki
Sykursýki, einkum þegar ungur einstaklingur á í hlut, getur valdið þunglyndiseinkennum. Þau tengjast því álagi sem fylgir því að lifa með sykursýki. Það skapast af breytingum á mataræði og aðhaldi í þeim efnum, meiri þörf fyrir hvíld, fylgja nákvæmlega fyrirmælum um inntöku lyfja, hvort heldur er með sprautu eða í töfluformi, breytingum á lífstíl vegna minna úthalds. Sorg, pirringur og reiði eru oft eðlilegar og skiljanlegar tilfinningar í þessum aðstæðum, en geta jafnframt þróast yfir í þunglyndi.

Lyfjanotkun
Sum lyf við háþrýstingi og einnig öðrum sjúkdómun geta kallað fram þunglyndi og þarf notandinn að vera meðvitaður um það.

Aðrar breytingar á lífshlutverki
Atvinnumissir, óvæntir eða langvarandi fjárhagserfiðleikar, breytingar á kynhlutverki, eins og við að „koma út úr skápnum", auk áfalla sem lýst hefur verið hér að ofan, geta valdið mikilli streitu og þunglyndi.

Efri árin
Þegar aldurinn færist yfir verða ýmsar eðlilegar breytingar á starfsemi líkama og hugar, þannig að margt sem áður var auðvelt verður erfiðara eða ómögulegt. Auk þess verða margar ytri breytingar, s.s. missir maka, starfslok, breytingar á húsnæði, börnin og barnabörn fjarlægast. Einmanakennd er því algengur fylgikvilli öldrunar.

Góð félagsleg heilsa er öllum mikilvæg, ekki síst þeim sem hafa lokið sínum hefðbundnu lífshlutverkum. Því er mikilvægt að koma í veg fyrir félagslega einangrun þeirra sem komnir eru á efri ár. Þar sem fjölskyldu- og vinatengsl hafa gliðnað getur þátttaka í félagsstarfi með öðrum eldri borgurum verið mjög hjálpleg. Það skref reynist þó mörgum erfitt að stíga í byrjun. Hinir eldri kvarta oft undan því að tíminn standi í stað, yfir einmanaleika, tómleika og tilgangsleysi; jafnvel það að fara á fætur sé til einskis og þeim finnst þeir vera byrði á öðrum. Auk hinna andlegu og sálrænu þátta valda líkamlegir verkir vanlíðan. Upp úr svona líðan getur þunglyndi og vanmetakennd hellst yfir hinn aldraða.

 


Fyrst birt 07.01.2009
Síðast uppfært 14.06.2012

<< Til baka