Að þekkja þunglyndi

Hvernig getum við greint fyrstu einkenni?
Þunglyndi tengist oft álagi sem getur átt rót sína í ytra umhverfi okkar eða komið innan frá vegna óhóflegra krafna sem við gerum til okkar. Ef álagið stendur í lengri tíma fer það að trufla mikilvæga þætti í andlegri og líkamlegri starfsemi, svo sem einbeitingu og svefn og líkamlegt úthald. Þetta getur leitt til vaxandi streitu, sem kemur fram í ýmsum einkennum.

Vægt streituástand
Einstaklingurinn verður vel vakandi („upptjúnaður") og er í stöðugu kappi við klukkuna, spenna myndast. Einstaklingnum finnst hann afkasta meiru, hugsa skýrar og finnst að sér vinnist betur undir þessu álagi. Þetta ástand getur verið heppilegt þegar verkefni krefjast skorpuvinnu. Hætta fer að skapast þegar einstaklingurinn gerir þetta vinnulag að ríkjandi mynstri í lífi sínu.

Yfirálag
Spennumynstrið er orðið að vana og hamlandi streitueinkenni myndast. Vöðvaspenna er oft fyrsta skrefið og þróast yfir í vöðvabólgu. Vinnuorkan endist ekki allan daginn einstaklingurinn fer að vakna þreyttur á morgnanna. Fram koma meltingartruflanir, sviði í maga, jafnvel magabólgur og ristilkrampi. Einnig fer að bera meira á óróleika og erfiðleikum með að slaka á. Þá er því miður oft stutt í að menn fari inn á óheppilegar leiðir til slökunar, eins og að leita á náðir Bakkusar.

Þreyta og slen
Næsta stig felst oft í því að líkamleg einkenni fara vaxandi; þreyta, eymsli í öxlum, vöðvaspenna, magaverkir, ógleði, svimi, framtaksleysi, kyndeyfð, suð fyrir eyrum og veruleg röskun á svefnvenjum.

Verkkvíði og vondir draumar
Vaxandi einbeitingarskortur og minnistruflanir gera vart við sig, sem leiðir oft til fleiri mistaka í starfi. Einstaklingurinn á erfitt með að koma sér að verki og enn erfiðara með að klára verkefni. Honum vex í augum og það sem áður var auðvelt virðist nú yfirþyrmandi.

Umgengni við aðra verður stirð, samskipti verða flókin og pirringur út í allt og alla vex. Árekstrar í samskiptum við þá sem eru nánastir verða tíðari og oft að tilefnislausu. Neikvæðni verður meiri, „allt á móti manni, enginn skilur mig". Svefn versnar til muna, viðkomandi vaknar oft og finnst hann ekkert hafa sofið. Vondir draumar verða einkennandi. Fótaferð verður mjög þung.

Lamandi þreyta og kvíði verður að þunglyndi
Fleiri einkenni myndast, eins og óljósir en oft erfiðir verkir og hjartsláttaróregla, og fyrri einkenni fara vaxandi. Einstaklingnum vex allt í augum og fyllist hjálparleysi, vonleysi og ótta. Þunglyndishugsanir verða í aðalhlutverki og fátt ef þá nokkuð getur komið viðkomandi til að brosa.

Óttavekjandi einkenni
Ofangreind einkenni fara að taka á sig mynd sem vekja upp ótta hjá einstaklingnum. Einkenni eins og þungur hjartsláttur, grunn öndun og tilfinning um að ná ekki djúpum andardrætti framkalla kvíðahnút og hræðslu, jafnvel dauðahræðslu. Viðbrögð verða stundum þau að viðkomandi fer að leita til lækna sí og æ, og ef athyglin beinist bara að hinum líkamlegu einkennum, þá er hætt við að grunnvandinn verði ekki greindur. Stutt er í sjálfsvígshugsanir og hugsunin snýst í „best fyrir alla að ég hverfi". Það að komast á fætur verður kraftaverk.

Einmanakennd og niðurrif
Þegar hér er komið fer að bera á tilfinningu um að vera einskis verð(ur) eða baggi á öðrum. Það verður stutt í grát, sektarkennd og sjálfsásakanir. Hugsanir eins og þessar verða ríkjandi: „Allir aðrir hafa það betra, ég get ekki gefið neinum neitt. Ég er ömurleg(ur) og misheppnuð/misheppnaður. Enginn þolir mig. Skyldi einhverjum líða svona eins og mér." Það er svo erfitt að lifa, mig langar í hvíld frá ástandinu." Þessi líðan og þessar hugsanir leita sífellt á, svartsýni verður yfirþyrmandi og framtakssemi hverfur. Þunglyndi er komið á fulla ferð.

Börn og maki
Þegar einhver verður svona illa á sig kominn af þunglyndi hefur það áhrif á alla sem umgangast hinn þunglynda. Börn og maki verða oft mjög vansæl og ráðvillt. Þau átta sig ekki á hvers vegna sá sjúki breytir um ham. Hinn þunglyndi hefur enga þolinmæði lengur, pirrast út af smámunum, sýnir enga hlýju eða umhyggju eins og áður, bannar heimsóknir eða lokar sig af og enginn má trufla. Aðstandendur fara jafnvel að draga sig í hlé frá hinum þunglynda, en þó með kvíða og sektarkennd.

Það er því mikilvægt að sinna einnig maka og börnum þess þunglynda.

Hafir þú hugboð um að þú kunnir að vera þunglynd(ur) mælum við með að hafa samband við netspjall Heilsuvera.is  því þar er hægt að spjalla við hjúkrunarfræðing. Einnig er mælt með að fólk leiti aðstoðar heimilislæknis og fari í mat ef það eru einkenni um depurð. Sjálfspróf geta gefið vísbendingu.

 


Fyrst birt 07.01.2009
Síðast uppfært 11.10.2021

<< Til baka