Þroski og geta barna

Það er ýmislegt sem hafa þarf í huga á ólíku þroskaskeiði barna. Það er mikil ábyrgð að ala barn upp frá fæðingu til fullorðinsára. Stöðugt þarf að gæta að heilbrigði og velferð barnsins. Flestir foreldrar gera allt sem þeir geta til að barninu líði sem best og til að vernda það fyrir hættum í umhverfinu. Til að foreldrar geti fyrirbyggt slysin er nauðsynlegt að hafa innsýn í þroskastig barnsins. 

0-3 mánaða
6 mánaða
9 mánaða
Við 1 árs aldur
Við 2 ára aldur
Við 4 ára aldur
Við 6 ára aldur
Við 9 ára aldur
Við 12 ára aldur
Við 15 ára aldur

Börnin þroskast á mismunandi hraða, en eðlilegt er að sum þroskist fyrr en önnur seinna. Með því að þekkja þroska barnsins geta foreldrar verið skrefi á undan barninu í forvörnum, t.d. með því að setja hlið fyrir stigann áður en barnið fer að hreyfa sig úr stað. Þess ber þó að geta að ekkert kemur í stað eftirlits foreldranna. Það er alltaf besta forvörnin.

Fyrstu ár ævinnar kannar barnið umhverfið, lærir nýja hluti, kynnist vinum sínum og fleira. Yngri börn eru því í meiri hættu á að slasa sig vegna smæðar sinnar og skorts á þroska til að sjá og meta hætturnar. Ævintýraþráin getur verið mikil hjá þeim og lítið þarf til að þau gleymi sér í leiknum. Þegar þau eldast, reyna sum þeirra að heilla vinina með því að gera eitthvað sem leiðir af sér óþarfa áhættu.

Það þarf ekki að koma á óvart að flest slys á börnum verða á milli kl. 16 og 21. Þá er annasamur dagur á enda og allir orðnir þreyttir. Þegar bæði börnin og foreldrarnir eru þreyttir eða einfaldlega vegna þess að það er svo margt í gerast í einu, aukast líkurnar á slysi verulega. Auðvitað er ómögulegt að fylgjast með barninu 24 tíma á sólarhring, en ein besta forvörnin er að gera allt sem hægt er á heimilinu og í nánasta umhverfi þess til að fyrirbyggja slysin.

Hér fyrir neðan er stiklað á stóru í þroska barnsins. Þessi upptalning er einungis til viðmiðunar fyrir foreldra.

0-3 mánaða

Spriklar. Byrjar að velta sér upp á hliðarnar. 
Heldur höfði.
Snýr höfði að hlut og fylgir eftir með augunum.
Snýr höfði í átt að hljóði við eyra.
Grip þroskast. Heldur um hlut sem settur er í hönd þess.
Grætur, hjalar og brosir.
Regla kemst á mátmálstíma og svefntíma.

Öryggisatriði

Útvegið ungbarnabílstól sem uppfyllir gildandi öryggisstaðal áður en barnið fæðist.
Skiljið ungbarnabílstól og barnastóla aldrei eftir t.d upp á borði eða í rúmi, á meðan barnið er í honum.
Útvegið barnavörur, s.s. vöggu og skiptiborð, sem uppfylla gildandi öryggisstaðla.
Notið stuðkanta í rimlarúm til að koma í veg fyrir að barnið festi útlimi á milli rimlanna.
Skiljið barnið aldrei eftir á skiptiborði, rúmi, borði, stól eða í sófa.
Ef öryggisbelti er á skiptiborðinu ætti alltaf að nota það og gæta þess að það sé notað rétt. Aldrei skal skilja barnið eftir eitt á skiptiborðinu, þó að það sé fest með öryggisbeltinu.
Haldið ekki á barninu í fanginu á meðan þið drekkið heita drykki.
Látið gæludýr heimilisins ekki vera nálægt barninu.
Hafið hitastillt blöndunartæki
Notið beisli í barnavagn/barnakerru strax frá fyrsta degi sem barnið notar vagninn/kerruna.
Verið viss um leikföngin hæfi aldri barnsins og uppfylli lágmarkskröfur um öryggi.


6 mánaða

Spriklar. Veltir sér yfir á maga og á bak. 
Grípur um hluti. Flytur á milli handa.
Setur allt upp í munninn.
Byrjar að sitja með stuðningi.
Tyllir vel í fætur. Dansar á tánum.
Lítur í átt að hljóði.
Gerir greinarmun á fólki sem það þekkir og ókunnugum.
Brosir við spegilmynd sinni.
Bablar.
Byrjar að tyggja. Fyrsta tönnin birtist (getur verið fyrr eða seinna).

Öryggisatriði

Fjarlægið alla smáhluti. Notið kokhólk til að mæla stærð smáhluta.
Fjarlægið leikföng sem strengd eru yfir rúmið og hangandi leikföng úr rimlarúminu þegar barnið nær að lyfta sér upp á hendur eða hné.
Notið beisli í hástól, barnavagn og barnakerru strax frá byrjun.
Fjarlægið snúrur úr barnafatnaði og leikföngum.
Verndið barnið fyrir sólinni. Húð barna er þynnri og viðkvæmari en fullorðinna.


9 mánaða

Sest upp og situr óstutt.
Skríður. 
Getur togað sig upp til að standa. Stendur við húsgögn.
Segir „mama“ og „baba“.
Drekkur úr bolla með hjálp.
Tínir upp í sig t.d. brauðbita. Notar vísifingur og þumal (skæragrip).

Öryggisatriði

Setjið öryggishlið fyrir stigaop bæði uppi og niðri. Einnig æskilegt að vera með hlið fyrir inngang í baðherbergi, eldhús og þvottahús.
Ef arinn er á heimilinu, setjið þá öryggishlið þar fyrir.
Lyf og hreinsiefni á að geyma í læstum hirslum.
Skiljið barn aldrei eftir eftirlitslaust nálægt vatni.
Setjið öryggislæsingar í innstungur ef innstungur eru eldri en 8 ára.
Setjið hlífar á hvöss horn á húsgögnum.
Farið yfir plöntur á heimilinu en margar plöntur eru eitraðar.
Ef barnið getur ekki notað ungbarnabílstólinn lengur er æskilegt að velja barnabílstól sem getur snúið baki í akstursstefnu.

Orkumikil og forvitin smábörn eru í meiri hættu á að meiða sig, þar sem þau finna ekki til hræðslu og hafa ekki þroska til að sjá og meta hætturnar í umhverfinu. Þau hafa gaman af því að kanna umhverfið, reyna nýja hluti og æfa getu sína.


Við 1 árs aldur

Stendur upp sjálft. Tekur fyrstu skrefin.
Reynir að setja einn kubb ofan á annan.
Næstum hætt að skoða dót með munninum.
Drekkur sjálft úr bolla. Reynir að borða sjálft með skeið.
Segir nokkur orð. Skilur einföld fyrirmæli.

Öryggisatriði

Veljið öryggisbúnað í bílinn sem hæfir aldri og þyngd barnsins. Hann þarf að uppfylla gildandi öryggisstaðla.
Haldið heitum drykkjum, hraðsuðukatli og skaftpottum frá barninu.
Notið aftari hellurnar á eldavélinni ef hægt er. Setjið hlíf fyrir hellurnar og á bakaraofninn.
Setið öryggislæsingar á skápa og skúffur. Geymið beitta hnífa þar sem barnið nær ekki til.
Verndið barnið fyrir sólinni. Húð barna er þynnri og viðkvæmari en fullorðinna.


Við 2 ára aldur

Hleypur um og fer í stiga, eitt þrep í einu. 
Getur gengið afturábak.
Snýr hnöppum og hurðarhúnum. Skrúfar lok af dósum.
Borðar sjálft.
Hjálpar til við að klæða sig. Fer í og úr buxum, sokkum og skóm.
Hlustar á sögur, bendir á myndir og flettir blaðsíðum.
Byrjar að mynda setningar.
Venst á koppinn.

Öryggisatriði

Skiljið barnið aldrei eftir eftirlitslaust í baði.
Setjið öryggisplast á gler í borðum, skápum og hurðum eða notið öryggisgler.
Útbúið afgirt leiksvæði fjarri götu og vatni.

Forskólabörn eru sífellt önnum kafin og gífurlega sjálfstæð. Þau hafa lítinn en vaxandi skilning á öryggi sínu og fylgja betur fyrirmælum. Þau eru með líflegt ímyndunarafl og átta sig ekki alltaf á muninum á raunveruleikanum og ímynduninni. Þau herma eftir öðrum svo miklu skiptir að vera góð fyrirmynd. Þau læra það sem fyrir þeim er haft.


Við 4 ára aldur

Lærir að telja. 
Segir sögur og fer í hlutverkaleiki.
Teiknar myndir og finnst gaman að klippa og líma
Finnst skemmtilegt í fjörmiklum leikjum.
Getur verið glannalegt.
Heldur athyglinni í stuttan tíma og hefur ekkert tímaskyn.
Hjólar á þríhjóli.
Fer sjálft á klósett.

Öryggisatriði

Geymið eldfæri þar sem barnið nær ekki til.
Leiðið barnið alltaf nærri umferð.
Kennið barninu umferðarreglurnar. Kennið þeim að stoppa, horfa, hlusta og hugsa áður en og á meðan það fer yfir götu.
Barnið þarf að vera undir eftirliti þegar það hjólar. Það þarf að nota hjálm og hjóla á hjólastíg eða á lokuðu leiksvæði.
Byrjið sundkennslu
Veljið lág leiktæki með öryggis undirlagi.
Fylgist með barninu nálægt gæludýrum, sérstaklega hundum.


Við 6 ára aldur

Barnið er forvitið og sífellt í leit að ævintýrum. 
Missir auðveldlega athyglina.
Getur ekki lagt rétt mat á fjarlægð og hraða bíls.
Sér ekki alltaf fyrir afleiðingar gjörða sinna.

Öryggisatriði

Takið ekki getu barnsins, þekkingu og dómgreind sem gefna. Það þarf enn mikið eftirlit, sérstaklega í nýjum aðstæðum.
Fylgist vel með barninu nærri umferð.
Verið góð fyrirmynd með því að nota gönguljós þegar farið er yfir götu, þegar það er mögulegt.
Barnið þarf að vera undir eftirliti þegar það hjólar. Það þarf að nota hjálm og hjóla á hjólastíg eða á lokuðu leiksvæði.

Að byrja í skóla er stór áfangi í lífi barns og foreldra þess. Allt í einu er litla barnið orðið svo stórt. Þrátt fyrir meiri þroska til að meta umhverfið þarf stöðugt að minna barnið á öryggi þeirra og annarra. Þau eiga erfitt með að nýta þekkingu sína í nýjum aðstæðum.


Við 9 ára aldur

Áttar sig betur á umferðinni og á auðveldara með að leggja mat á hana.
Almennt ábyrgara, en þarf þó stöðuga tilsögn og eftirlit.
Getur verið áhrifagjarnt og látið vinina plata sig út í eitthvað sem ekki er skynsamlegt.

Öryggisatriði

Leyfið barninu að fara eitt yfir rólegar götur en fylgist með þeim við að fara yfir umferðarþungar götur
Best er fyrir barnið að vera í íþróttum með skýrum og auðskiljanlegum reglum.
Brýnið enn og aftur fyrir barninu hversu mikilvægt það er fyrir það að nota hjólreiðahjálm.


Við 12 ára aldur

Reynir að standa fast á sínu og vera sjálfstæðara. 
Barnið er líkamlega sterkara og hreyfingar þess eru samhæfðari.
Hefur góðan/betri skilning á afleiðingum gjörða sinna.

Öryggisatriði

Barnið þarf að vera með hjálm og hlífar á olnbogum, úlnliðum og hnjám, þegar það er á línuskautum, hlaupahjóli eða hjólabretti. Þegar það hjólar á það að nota hjólreiðahjálm.
Kennið barninu að meðhöndla eldfæri og fylgist með því t.d. við að kveikja á kertum. Brýna þarf fyrir þeim að fikta ekki með eld, flugelda og þess háttar.
Hvetjið barnið til að gera upphitunaræfingar fyrir æfingar og teygjur eftir þær til að minnka líkurnar á íþróttameiðslum.

Breytingin frá barnæsku yfir í unglingsár getur verið spennandi og jafnvel stundum ruglingsleg. Eldri börn og táningar taka oftar óþarfa áhættur og verða auðveldlega fyrir áhrifum frá vinum sínum. Áhugi þeirra og orka beinist oft að íþróttum og öðrum tómstundum eins og hjólreiðum, línuskautum og keppnisíþróttum. Íþróttameiðsl eru algengari í þessum hópi, stundum vegna skorts á öryggishlífum/persónuhlífum, eins og hjólreiðahjálmum.


Við 15 ára aldur

Barnið upplifir miklar líkamlegar og tilfinningalegar breytingar. 
Þar sem unglingum finnst þeir gjarnan þurfa að vera eins og vinirnir, eru þeir oft undir áhrifum frá þeim
Barnið getur verið mjög skynsamt einn daginn en mjög hvatvíst þann næsta.
Sumum unglingum finnst öryggisbúnaður ekki flottur, ekki fylgja tísku, þægindum og eru hræddir um að vinir geri grín að sér.
Unglingar reyna sumir að komast eins langt og þeir geta í að ákveða hvað sé best fyrir þá sjálfa. Það eru þó foreldrarnir sem bera ábyrgð á öryggi og velferð þeirra ennþá.

Öryggisatriði

Setjið skýrar reglur, með smá sveigjanleika og haldið þær.
Hrósið og hvetjið barnið þegar það tekur skynsamar ákvarðanir.
Viðurkennið það sem barnið gerir vel.
Verið góð fyrirmynd í einu og öllu.
Ræðið öryggisreglur og ástæðurnar fyrir þeim, m.a. hverjar afleiðingarnar eru af því að taka áhættu.
Verið áfram ákveðin í því að barnið noti hjálm og aðrar öryggishlífar þegar það stundar íþróttir og tómstundir sem krefjast þess.
Setjið þær reglur að þið verðið viðstödd teiti og að barnið sé ekki úti næturlangt.
Hvetjið til reglulegra matmáls- og svefntíma, lærdóms og æfinga.

 


Fyrst birt 16.03.2004

<< Til baka