Þolgæði og þrautseigja

Það er umhugsunarefni hvað ræður því að sumum tekst að vaxa upp og verða að heilsteyptum einstaklingum þrátt fyrir erfiðar aðstæður, þungbær áföll í æsku, vandamál foreldra, geðræn og önnur, ofsa og ofbeldi, félagsleg vandamál fjölskyldu, s.s. mikla fátækt, og skort á hvatningu og stuðningi.

Þessir þættir eru mjög streituvekjandi fyrir flest börn og geta skapað mikið óöryggi og kvíða. Slíkt ástand tefur fyrir eðlilegum þroska sjálfsmyndar og sjálfstrausts, skapar tengslavanda, hegðunartruflanir og jafnvel alvarlegar geðraskanir. Þetta leiðir til þess að á fullorðinsárunum eiga þau frekar á brattann að sækja.

Það er mjög mikilvægt að átta sig á því hverjir áhættuþættirnir eru og ekki síst hvaða þættir eru styðjandi og fyrirbyggjandi þannig að hæfileikar barnsins fái að þroskast og njóta sín. Um áhættuþættina er fjallað á öðrum stað á þessum vef.

Styrkjandi þættir eru margs konar, innan og utan fjölskyldu, og líka í einstaklingnum sjálfum.

Einstaklingsbundnir þættir

 

 • Traust, sjálfsvirðing og almennt jákvæð afstaða til eigin persónu.
 • Geta til að íhuga og skoða sjálfan sig.
 • Trú á eigin hæfileika og geta til að taka sjálfstæðar ákvarðanir.
 • Hæfileikar til að leysa vandamál.
 • Jákvæð afstaða til lífsins.
 • Jákvæð tengsl við aðra.
 • Virkni og þátttaka í lífinu.

Flest börn sem sýna þrautseigju hafa til að bera einbeitingu, ákveðni, úthald og þolinmæði. Þau eiga vini sem þau geta rætt við, stunda áhugamál, treysta fullorðnum fyrir líðan sinni og fá leyfi foreldra til að tjá sig um það sem er að gerast í nánasta umhverfi. Þau hafa haft aðgang að fullorðnum sem taka mark á þeim og þar sem ábyrgð, frelsi, umhyggja og traust eru leiðarljósin.

 

Fjölskyldutengdir þættir

 

 • Fjölskyldusamskipti sem byggja á hlýju og stuðningi.
 • Sterk tengsl við foreldri.

Uppeldisþáttur foreldra og lífsgildi nánasta umhverfis skipta hér miklu máli. Þegar foreldrar setja uppeldisskilyrði barna sinna í forgang þá varðar það miklu um framtíðarmöguleika barnsins. Foreldrar, sem eru fastir punktar í tilveru barnsins, eru góð fyrirmynd, styðja, hvetja, hlusta, hrósa og sýna umhyggju ásamt aga, eru að tryggja barni sínu meiri möguleika til farsællar framtíðar.

 

Samfélagsþættir

 

 • Áhrif félaga.
 • Styðjandi tengsl við einhvern fullorðinn utan fjölskyldu.
 • Góðar fyrirmyndir í fullorðnum.
 • Jákvæð reynsla í skóla hefur áhrif á aðra þætti í lífinu.
 • Ljóst er að mikilvægi uppeldisstofnana vegur æ þyngra í umönnum barna okkar. 

Því er mikilvægt að foreldrar treysti störfum þeirra sem sinna börnunum og hafi góða samvinnu við þá sem umgangast barnið eða unglinginn í skóla, leikskóla eða í tómstundastarfi. Það er forsenda þess að hægt sé að skapa börnum og fjölskyldum þeirra gott líf.

 

Að lokum

 

 • Til að geta borið virðingu fyrir öðrum þarf barn að læra að bera virðingu fyrir sjálfu sér, þekkja eiginleika sína og skoðanir og um leið virða skoðanir annarra.
 • Barn þarf að fá stuðning við að læra að setja sjálfu sér mörk og segja nei.
 • Miðlun lífsgilda er mikilvæg í öllu uppeldi og fer ekki hvað síst fram í uppbyggilegum samskiptum kynslóðanna.
 • Í því sambandi er nauðsynlegt að barnið læri að setja sér raunhæf markmið og hlúa að þeim. Það þarf að kenna því að markmiðin þarf að endurskoða reglulega og til þess að forðast stöðnun þarf að staldra við af og til og setja sér ný markmið.
 • Eins er mikilvægt að hjálpa barninu að skoða hvernig samband það óskar sér gagnvart vinum og nánustu fjölskyldu og hvaða tíma það vill gefa sjálfu sér til að rækta mikilvæg tengsl.

 

 


Fyrst birt 29.05.2012

<< Til baka