Spurningar og svör um kynsjúkdóma o.fl.


Spurningar um HIV

 • Hvernig smitast HIV?
  HIV getur smitast þegar HIV-smitað blóð, sæði eða leggangaslím kemst inn í blóðrás ósmitaðs einstaklings. Þetta getur gerst gegnum slímhimnur, endaþarm eða opin sár. Snerting við slímhimnu og þar með hættan á smiti er mest við endaþarmsmök og kynmök í leggöng. Það er líka mikil hætta á smiti þegar skipst er á sprautum og sprautunálum við HIV-jákvæða, því að þá kemst hið sýkta blóð auðveldlega inn í blóðrásina.
 • Er hægt að smitast af HIV með kossum?
  Með því að hafa aldrei óvarin kynmök. Til þess að tryggja öryggi í kynlífi þarf maður alltaf að nota smokk við endaþarmsmök og kynmök í leggöng og koma í veg fyrir að fá sæði eða leggangaslím í munninn.

  Mikilvægt er að temja sér rétt hugarfar. Það felst í því að maður skoði sjálfan sig svolítið, hugleiði hvernig lífi maður lifir, hvort maður sé að taka áhættu og þá við hvers konar tækifæri. T.d. með því að vera stundum of drukkin/n og gleyma þar með að passa sig, þora ekki að segja nei/láta vaða yfir sig, passa sig ekki á ferðalögum, t.d. erlendis, og láta ekki prófa sig fyrir kynsjúkdómasmiti, en aðrir kynsjúkdómar geta aukið hættu á HIV-smiti.

  Sé það reyndin að maður sé að taka áhættu þá er gott að búa sér til áætlun til þess að breyta því. Endurskoða árangur síðan reglulega. Kynlíf er æðislegt, en það er ekkert æðislegt við það að fá ólæknandi sjúkdóm sem fylgir manni alla æfi og maður hefði getað komið í veg fyrir.
 • Hvernig er hægt að koma í veg fyrir HIV-smit?
  Með því að hafa aldrei óvarin kynmök. Til þess að tryggja öryggi í kynlífi þarf maður alltaf að nota smokk við endaþarmsmök og kynmök í leggöng og koma í veg fyrir að fá sæði eða leggangaslím í munninn. Mikilvægt er að temja sér rétt hugarfar. Það felst í því að maður skoði sjálfan sig svolítið, hugleiði hvernig lífi maður lifir, hvort maður sé að taka áhættu og þá við hvers konar tækifæri. T.d. með því að vera stundum of drukkin/n og gleyma þar með að passa sig, þora ekki að segja nei/láta vaða yfir sig, passa sig ekki á ferðalögum, t.d. erlendis, og láta ekki prófa sig fyrir kynsjúkdómasmiti, en aðrir kynsjúkdómar geta aukið hættu á HIV-smiti.

  Sé það reyndin að maður sé að taka áhættu þá er gott að búa sér til áæltun til þess að breyta því. Endurskoða árangur síðan reglulega. Kynlíf er æðislegt, en það er ekkert æðislegt við það að fá ólæknandi sjúkdóm sem fylgir manni alla æfi og maður hefði getað komið í veg fyrir.
 • Smitast maður nokkuð af HIV ef maður hættir áður en að sáðláti kemur?
  Já, allir kynsjúkdómar geta smitast ef getnaðarlimur er settur inn án þess að notaður sé smokkur. Sæðisvökvi, sem oft getur komið áður en að sáðláti kemur, er með HIV-veirur.
 • Hvað tekur langan tíma fyrir HIV-veirur að deyja þegar þær koma úr líkamanum?
  HIV-veiran er ekki mjög smitandi í samanburði við flesta aðra kynsjúkdóma eins og klamydíu, herpes eða flatlús. Hún er viðkvæm og deyr fljótlega þegar hún kemst í snertingu við loft. Talið er að 90% af HIV-veirum deyi innan við klukkustund eftir að þær komast út úr líkamanum.

  HIV smitast nær eingöngu við kynmök og með óhreinum sprautum og sprautunálum hér á landi. Það er afar sjaldgjæft að smitun eigi sér stað þegar HIV-sýktur vökvi berst í sár einhvers staðar á húð líkamans. Grunur um að slíkt hafi gerst er hugsanlega í einu tilviki í öllum heiminum. Smitleiðin er því nær alltaf þegar leggangaslím, sæði eða blóð berst inn í rispu eða lítið sár á slímhimnu á kynfærum hins aðilans.
 • Á að fara strax að láta taka blóðprufu ef maður heldur að maður hafi smitast af HIV?
  Þú getur farið strax til að láta taka blóðprufu en HIV-greining verður ekki 100% örugg fyrr en 3 mánuðum eftir að smitunin átti sér mögulega stað. Þú þarft því að fara aftur og láta greina þig allt að 3 mánuðum eftir mögulegt smit. Þangað til niðurstaða fæst um það hvort þú ert smitaður/smituð eða ekki er mjög mikilvægt að nota alltaf smokka ákveði maður að stunda kynlíf þetta tímabil.
 • Hvað græði ég á því að láta athuga hvort ég hafi smitast af HIV?
  Það er miklu erfiðara að lifa í óöryggi um það hvernig málum er háttað en að vita hverjar staðreyndirnar eru í reynd. Kannski er ekkert til að hafa áhyggjur af. Ef svo ólíklega vill til að smitun hafi orðið er gott að vita það til þess að geta gert ráðstafanir vegna eigin heilsu. Komist maður t.d. á viðeigandi lyf er bæði hægt að lengja eigið líf og auka lífsgæðin. Auk þess minnka líkurnar á því að smita aðra mikið. En vitneskja um sjúkdóminn gefur manni líka aukið færi á því að passa sig betur í kynlífi svo maður smiti ekki aðra.
 • Hvar get ég fengið upplýsingar um HIV á íslensku?
  Þú getur lesið bæklinginn um HIV og alnæmi, sem er hægt að nálgast á heimasíðu Embætti landlæknis „Staðreyndir um HIV og alnæmi" Þar færðu heilmiklar upplýsingar um sjúkdóminn. Þú getur líka fengið hann sendan frá embættinu. Síminn er: 510 1900. Líka er hægt að fara inn á heimasíðuna www.HIV-Island.is sem er hjá Samtökunum HIV-Íslandi. Á þessum heimasíðum er ýmsan fróðleik að finna. Þér er líka alltaf velkomið að hringja í síma: 510 1941/1900 eða að senda póst.
 • Hvernig smitast flestir af HIV á Íslandi?
  Hér á landi smitast flestir af HIV í gegnum kynlíf. Þess vegna er mikilvægt að nota alltaf smokk í skyndikynnum og í upphafi lengri sambanda og nota hann allan tímann meðan á kynmökum stendur.

  Nauðsynlegt er líka að skoða leiðbeiningarnar sem fylgja smokknum vel því það skiptir miklu máli að nota smokkinn rétt. 20% þeirra sem hafa greinst hér á landi eru fíkniefnaneytendur sem hafa smitast á óhreinum sprautum eða sprautunálum. Þegar skipst er á sprautum getur alltaf eitthvert blóð orðið eftir í sprautunni eða sprautunálinni sem fer þá inn í þann sem sprautar sig næst. Það ber því alltaf að varast að nota óhreinar sprautur og sprautunálar.
 • Hvaða einkenni fær fólk þegar það smitast af HIV? Veikist það strax?
  Það er misjafnt hvort fólk veikist eitthvað eftir að það smitast. Sumir gera það viku eða nokkrum vikum eftir smit og geta þá fengið einkenni sem líkjast mjög venjulegum flensueinkennum í eina eða tvær vikur. Einkennin geta t.d. verið hiti, hálsbólga, höfuðverkur og eitlabólgur. Þegar fólk jafnar sig á þessum einkennum getur það gengið með sjúkdóminn í mörg ár án þess að vita af því.

  Ef maður lætur ekki greina sig með blóðprufu þróast sjúkdómurinn smám saman yfir í alnæmi sem er lokastig sjúkdómsins. Oft er talað um að það taki ca 8-10 ár sé maður ekki á lyfjum. Þá taka við mikil og alvarleg veikindi sem enda með dauða. Það getur tekið um 3 ár. Það er því mikilvægt að láta greina sig hafi maður minnsta grun um að geta verið smitaður.

  Þá getur læknir metið hvenær best sé að fara á lyf. Lyfin hafa þau áhrif að HIV-veiran hættir að ráðast á ónæmiskerfið og leggja það að lokum í rúst. Í stað þess leggja lyfin HIV-veiruna í dvala. Allan tímann sem maður er með veiruna í líkamanum getur maður smitað aðra af HIV, en sé maður á lyfjum dregur verulega úr smithættu. 

Spurningar um kynsjúkdóma

 • Er hægt að smitast af kynsjúkdómum á klósettum?
  Nei.
 • Getur herpes (kynfæraáblástur) smitað þegar maður hefur engar blöðrur?
  Smit getur orðið hvenær sem er, en hættan á að smita aðra er meiri rétt áður, á meðan og eftir að herpessýking á sér stað. Margir finna þegar sýking er í þann veginn að blossa upp og þá er ráðlegt að nota alltaf smokk. Það að herpes getur smitast án þess að einkenni séu til staðar gerir þennan sjúkdóm mjög algengan. Flestir sem eru smitaðir vita ekki um smit sitt (eru einkennalausir) og geta smitað aðra án þess að hafa nokkurn tíma fengið einkenni sjálfir.
 • Hvað kynsjúkdómur er hættulegastur?
  HIV er lífshættulegur sjúkdómur sem ekki er hægt að lækna. Hann er því pottþétt sá hættulegasti.
 • Er það rétt að maður geti orðið ófrjór við að fá kynsjúkdóma?
  Já, í sumum tilvikum getur klamydía og lekandi leitt til ófrjósemi. Hjá konum getur klamydía eða lekandi orðið til þess að þær fá bólgur í eggjaleiðarana. Bólgan getur síðan orsakað ör í eggjaleiðurunum þannig að eggið kemst ekki leiðar sinnar. Á sama hátt er hægt að fá bólgur í eistum. Ef það gerist öðru megin getur það orsakað minnkaða frjósemi, en sé það báðum megin getur það valdið algjörri ófrjósemi. Hjá körlum er ekki víst að ófrjósemin vari alla ævi.
 • Er hættulegt að gleypa sæði?
  Þar sem m.a. HIV getur smitast við munnmök er mikilvægt að vera varkár og stunda aldrei munnmök nema með smokk. En ef þú ert viss um að bólfélagi þinn sé ekki með kynsjúkdóma þá er það engin áhætta. Sæðið er í sjálfu sér ekki hættulegt. 

Spurningar um smokka

 • Hvaða smokkar eru bestir?
  Prófaðu þig áfram og finndu út hvaða smokkur þér finnst bestur. Tegundirnar geta verið aðeins mismunandi hvað varðar stærð, þykkt, lit og lögun. Sumir smokkar eru með olíu, aðrir með bragði eða örðum. Sé horft á öryggið má segja að smokkar sem seldir eru á Íslandi séu öruggari en í mörgum öðrum löndum. Hér eru þeir gæðaprófaðir. Það er því góð hugmynd að taka með sér smokka til vonar og vara til útlanda hvort sem maður notar þá eða ekki.
 • Er öruggara að nota tvo smokka til þess að koma í veg fyrir smit?
  Það er aldrei þörf fyrir að nota meir en einn smokk í einu. Það eykur ekki öryggið að nota fleiri smokka í einu. Þvert á móti getur það aukið hættu á því að smokkarnir detti af við kynmök eða að það komi gat á þá vegna núningsins sem verður á milli þeirra sem gerir þá þar með óöruggari. Eins og alltaf þarf að gæta þess að fylgja vel eiðbeiningum sem fylgja með smokkunum en einn er nóg í einu.
 • Er það rétt að það að nota smokka sé eins og að ,,borða karamellu með bréfið utan á"?
  Það er rétt að smokkar draga aðeins úr næmleika hjá karlmanninum. Það þarf alls ekki alltaf að vera ókostur þar sem minnkuð næmni getur orðið til þess að hægt er að halda lengur áfram. Notkun smokks getur því verið ágætis leið til þess að koma í veg fyrir ótímabært sáðlát. Gæði fullnægingarinnar þarf ekki að verða verri þótt notaður sé smokkur. Þykkt smokks getur verið svolítið mismunandi milli tegunda. Minni næmni getur af skiljanlegum ástæðum verið ókostur, en það er mikilvægt að skoða kostina líka. Smokkar eru besta vörnin til þess að koma í veg fyrir kynsjúkdóma og þar að auki góð getnaðarvörn. Þeir eru það eina sem gerir karlmönnum kleift að ákveða hver verður móðir barna þeirra. Þetta verður til þess að við getum notið kynlífs betur án þess að óttast kynsjúkóma eða ótímabærar fæðingar.
 • Finnst strákum grunsamlegt ef stelpa gengur með smokka á sér?
  Nei, alls ekki. Margar stelpur virðast óttast hvað aðrir halda. Það er tvímælalaust þroskamerki að ganga með smokk á sér. Smokkar hafa mjög langan geymslutíma, þannig að það segir ekkert til um hvenær, heldur þess í stað ,,ef einhvern tíma kæmi til þess að......".
 • Hvenær á maður að segja að maður vilji nota smokk? Hvað á maður að gera svo það verði ekki hallærislegt?
  Stundum getur verið erfitt að byrja að tala um þetta, en maður ber bæði ábyrgð á að vernda sjálfan sig og bólfélaga sinn frá kynsjúkdómum og/eða ótímabærum þungunum. Það að ræða um smokkanotkun sýnir því bæði að þú ert ábyrg(ur) og framsýn(n). Það er mikilvægt að þú ræðir þetta einhvern tíma áður en kynmök hefjast.

  Það er mikill kostur að vera í góðri þjálfun að setja á sig smokkinn, svo biðin verði sem styst. Þetta geta strákar æft sig að gera þegar þeir stunda sjálfsfróun. Hafðu smokkinn líka nálægt svo það verði auðveldara að ná í hann þegar hans verður þörf. 

Aðrar tengdar spurningar

 • Hvað kemur mikið af sæði við sáðlát? Getur það klárast ef ég stunda of mikla sjálfsfróun?
  Það koma mörg milljón sáðfrumur við hvert sáðlát. Þær klárast ekki við það að stunda oft sjálfsfróun. Það verður alltaf til sæði svo lengi sem þú lifir, meðan þú og eistun eru heilbrigð.
 • Hvert get ég farið í blóðprufu þar sem algjörum trúnaði er heitið?
  Ef þú óttast að smitun geti hafa átt sér stað skaltu ekki hika við að láta taka blóðprufu. Hægt er að fara til heimilislækna, á A-1 húð- og kynsjúkdómadeild, Landspítala Fossvogi vegna allra kynsjúkdóma og á A-3 göngudeild smitsjúkdóma, Landspítala Fossvogi vegna HIV, lifrarbólgu B og C og fá mótefnamælingu.

  Fyllsta trúnaðar er gætt á þessum stöðum, en þú verður að panta þér tíma. Síminn á A-1 er: 543-6050, kl. 8:15-15:45 alla virka daga. Síminn á A-3 er: 543-6040, kl. 08:00-16:00 alla virka daga. HIV-, lifrarbólgu-, klamydíu-, lekanda- og sárasóttarpróf og meðferð eru ókeypis á heilsugæslustöðum og sjúkrahúsum.

Fyrst birt 25.05.2012
Síðast uppfært 30.06.2017

<< Til baka