Sögulegt yfirlit um skráningu dánarmeina

Samræmd skráning dánarmeina á alþjóðavísu nær allt aftur til ársins 1900 með fyrstu útgáfu alþjóðlegs flokkunarkerfis. Flokkunarkerfið hefur frá upphafi farið í gegnum reglulega endurskoðun og er það nú hluti af alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma og dánarmeina sem gefið er út af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, WHO. 

Skráning dánarmeina samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi var tekin upp á Íslandi árið 1911, sbr. lög nr. 30, 22. júlí 1911. Landlæknir gaf í fyrsta sinn út leiðbeiningar um dánarvottorð og dánarskýrslur sama ár. Á þessum tíma var ferill dánarvottorða með þeim hætti að prestar sendu héraðslæknum skýrslur um manndauða í sinni sókn, héraðslæknar yfirfóru og leiðréttu eins og þurfa þótti og sendu loks landlækni. Landlæknir fór einnig yfir dánarvottorðin eftir því sem þörf krafði og sendi þau loks til Hagstofunnar og aðstoðaði við að semja ítarlega dánarskýrslu fyrir allt landið. Dánarskýrslur voru, eins og nú, einn þáttur í mannfjöldaskýrslum Hagstofunnar og upplýsingar um dánarorsakir landsmanna hafa ennfremur ávallt verið birtar í Heilbrigðisskýrslum landlæknis.


Fyrst birt 25.05.2012
Síðast uppfært 03.11.2016

<< Til baka