SKAFL.is - Leiðbeiningar um notkun

Vefur til að auðvelda rétta kóðun fyrir skráningu í heilbrigðisþjónustu

Leiðbeiningar um notkun

Á forsíðu vefsins fyrir neðan titilborðann er stika með eftirtöldum hnöppum:

Leiðbeiningar: Þar opnast vefsíða með leiðbeiningum (sú sem nú er opin).

Senda villutilkynningu: Þar er vísun á netfang fyrir ábendingar um villur eða annað sem notendur vilja koma á framfæri varðandi flokkunarkerfin.

Íslenska / Enska: Flipi sem skiptir á milli tungumála. Athugið að hann endurræsir vefinn þannig að fyrri flettingar ógildast.

Endurstilla: Reitur til að koma síðunni í upphafsstöðu.

Fimm rammar

Í upphafsstöðu eru sex rammar opnir á skjánum. Rammarnir bera heitin Kóðaleit, Kóðatré, Kóði, Kóði-Enska, Hliðarkóðar og Skoðaðir kóðar. Hægt er að færa rammana til á skjánum eftir þörfum hvers og eins. Það er gert með því að velja ramma með músinni og draga hann til. Einnig er hægt að opna ramma eða loka með því að smella með músinni á litla ör í efra hægra horni rammans. Í öllum römmum birtist skrunstika til að færa sig innan rammans, til dæmis ef niðurstaða úr leit er lengri en svo að listinn í heild sjáist í rammanum.

Stærð leturs má breyta á fleiri en einn hátt. Margir vafrar bjóða upp á að þysja í stærri eða minni upplausn á síðunni og er það einföld leið til að stækka letrið. Einnig er hægt er að stýra stærð ramma með því að víxla þeim milli reita (frá hægri til vinstri eða öfugt) eða með því að stilla stærðina á rammanum sem vafrinn sjálfur sýnir.

Kóðaleit

Leitað er í öllum flokkunarkerfunum í senn, á íslensku og ensku, óháð tungumáli sem síðar er stillt á. Einnig er leitað í kóðanúmerunum sjálfum. Leitin finnur texta hvort sem er í upphafi orða eða í miðju þeirra. Leitarniðurstöður birta hámark 50 niðurstöður svo að almenn orðaleit getur orðið ómarkviss. Hafa ber í huga að leitin skilar niðurstöðum eftir stafrófsröð númers kóða. Þannig að ef orðið "lungnabólga" er t.d. slegið inn þarf að færa skrunstiku neðar til að finna réttan kóða ef lungnabólgan er af völdum ótilgreinds sýkis (J18). Hægt er að afmarka leit við hluta af flokkunarkerfum með því að velja í felliglugga. Þar býðst að velja Heilbrigðisstofnun-læknir, Heilbrigðisstofnun-Hjúkrunarfræðingur, Landspítali-Læknir, Landspítali-Hjúkrunarfræðingur, Sjúkraþjálfun-Iðjuþjálfun og ICD-10 eingöngu. Einnig er hægt að fletta upp á réttum kóða með því að nota kóðatréð.

Kóðatré

Kóðatré sýnir tré allra flokkunarkerfa sem eru aðgengileg í Skafli. Í kóðatrénu sýnir myndtákn með plúsmerki (+) hvort fleiri greinar kóðans leynast undir honum. Þegar myndtákn er eitt fyrir framan kóða er slóðin fullrakin í trénu.

Með því að smella með músinni á plúsinn framan við flokkunarkerfi opnast undirkaflarnir og má sjá á táknunum hvort fleiri kóðar leynist undir eða ekki. Hægt er að fletta fram og til baka í trénu án þess að aðrir rammar breytist. Það gerist þegar kóði er valinn og smellt er á hann.

Kóði

Þessi rammi sýnir heiti kóðans og tilheyrandi skýringartexta sem er sundurliðaður undir efnisliðunum inniheldur, útilokar, athugasemd og texti. Stundum er skýringartexti til að skerpa á því hvað á að falla undir viðkomandi kóða og eins hvort eitthvað útilokar notkun hans. Í þeim tilvikum er annar kóði oftast tiltekinn eða vísað á annan kafla. Einnig sést stjörnutákn í glugganum og er hægt að smella á það með mús og þá fer sá kóði í lista yfir Mínir kóðar (sjá nánar um þá).

Kóði-Enska

Hér birtist heiti kóðans og skýringartexti á ensku undir efnisliðunum includes, excludes, note og text. Einnig sést stjörnutákn í glugganum og er hægt að smella á það með mús og þá fer sá kóði í lista yfir Mínir kóðar (sjá nánar um þá).

Hliðarkóðar

Þessi rammi sýnir fjóra flipa með heitunum Börn, Systkini, Erfðir og Slóð og er skipt á milli þeirra með því að smella á flipana. Sé smellt á Börn birtast flokkar sem eru neðar í trénu en sá sem valinn var. Undir Systkini eru kóðar sem hafa sömu stöðu og valinn kóði (t.d. fyrstu 3 stafir samhljóða en sá fjórði ólíkur). Erfðir birta yfirkóða með kaflaheitum og undirköflum eftir atvikum. Slóð sýnir svo leiðina frá völdum kóða að stofni viðkomandi kóðatrés ásamt viðeigandi undirköflum. Athugið að undir Erfðir og Slóð  geta verið skýringar, millivísanir og/eða útilokanir sem eiga við heila kafla.

Skoðaðir kóðar

Þessi rammi sýnir tvo flipa með heitunum Saga og Mínir.  Saga birtir alla kóða sem hafa verið valdir í sögulegu samhengi og er því hægt að smella á þá þar, til að fara í kóða sem hafa nýlega verið valdir. Flipinn merktur Mínir sýnir kóða sem hafa verið valdir sérstaklega með því að smella á stjörnu í kóðareitunum, annað hvort Kóði eða Kóði-Enska. Þetta svæði getur nýst vel til að útbúa sinn eigin stuttlista yfir kóða sem eru oft notaðir.

SKAFL.is mun birta öll flokkunarkerfi sem fyrirmæli eru um að nota í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Um hvert og eitt flokkunarkerfi er fjallað á sérstökum vefsíðum á vef Embættis landlæknis (sjá Flokkunarkerfi). Sem stendur er ICPC tilefnisskráning einungis á ensku og birtist því einungis undir flipanum Kóði-Enska.

Markmiðið með þessum vef er að birta flokkunarkerfi fyrir heilbrigðisþjónustuna með skýringartextum og að auðvelda leit í texta kerfanna. Flest flokkunarkerfin hafa að geyma skýringartexta þar sem ýmist kveður á um hvort valinn kóði eigi við eða hvort vísað er á annan. Í sumum flokkunarkerfum er auk þess bent á viðbótarkóða til skýringar. Öll flokkunarkerfin krefjast nokkurrar kunnáttu til að geta beitt þeim rétt.

Hafa þarf í huga við notkun á vefnum að leit getur birt niðurstöður úr  fleiri en einu flokkunarkerfi sé ekki valið ICD-10 sérstaklega. Heiti þeirra birtast þá við hlið kóðans sem við á. Við aðgerðaskráningu þarf að gæta að því að ýmist er notaður NCSP kóði (með 5 stöfum) eða NCSP-IS kóði (með 6 stöfum). Almennt séð er NCSP kerfið notað í heilsugæslu og hjá stærri heilbrigðisstofnunum en á Landspítalanum er notað NCSP-IS.

Ábendingar varðandi flokkunarkerfin, vefinn eða leiðbeiningarnar eru vel þegnar. Sendið þær á netfangið flokkun@landlaeknir.is.

Farið hér á www.SKAFL.is til að hefja notkun.


Fyrst birt 13.01.2017

<< Til baka