Samhæfing veflausna við sjúkraskrárkerfi

Víða í heilbrigðisþjónustunni er unnið með gögn skjólstæðinga hennar á rafrænu formi og eru þá skráðir ýmsir þættir sjúkraskrárinnar með flokkunarkerfum Embættis landlæknis. Flokkunarkerfin eru þá innlimuð í hugbúnað þjónustuaðila til birtingar. Í gildandi útgáfum af fyrirmælum um skráningu í heilbrigðisþjónustu er kveðið á um birtingarform flokkunarkerfa, að þau sýni efni þeirra með fullri nákvæmni, tilheyrandi skýringartextum og milli- eða frávísunum eftir því sem við á. 

Þróun vefbirtingar flokkunarkerfa á www.skafl.is

Vefurinn www.SKAFL.is er þróaður af Embætti landlæknis til að veita starfsfólki í heilbrigðiskerfinu aðgang að þeim flokkunarkerfum sem samkvæmt fyrirmælum embættisins skal nota til að skrá heilsufarsupplýsingar á Íslandi. Á vefnum er hægt að leita að kóðum eftir tré eða með því að slá inn leitarorð. Öll heiti og skýringartextar birtast bæði á ensku og íslensku. Sjá nánar á leiðbeiningasíðu.

Vefurinn byggir á vinnu sem unnin hefur verið hjá embættinu á síðustu árum varðandi skipulag og viðhald flokkunarkerfa.

Næstu skref í þróun verða:

1. Vefur opnaður úr öðru kerfi
Vefurinn er ekki eingöngu hugsaður sem sjálfstæð lausn. Við næstu uppfærslu verður eftirfarandi virkni bætt við:

Birta upplýsingar um kóða
Að ræsa vefinn með leitarskilyrðum, sem nýtist t.d. þegar kóði er birtur í einhverju ytra kerfi og notandinn vill fá nánari upplýsingar um viðkomandi kóða. Þá er hægt að senda kóða og flokkunarkerfi inn sem breytur þegar vefurinn er ræstur og opnast þá vefurinn sjálfkrafa á þeim kóða sem skoða átti.

SKAFL.is sem kóðaleit
Með því að ræsa vefinn með sérstakri breytu er hægt að nota hann sem kóðaleit í öðrum kerfum. Vefurinn leyfir þá að notandinn velji sér kóða, einn eða fleiri, sem ytra kerfið getur nálgast með sérstöku vefkalli á XML formi þegar notandinn hefur lokið verki sínu. Ytra kerfið getur takmarkað í hvaða flokkunarkerfum leitað er með breytu.

2. Vefþjónustur fyrir kóðaleit
Fyrir þá sem vilja nýta sér þær upplýsingar sem til eru á SKAFL.is en vilja stýra notendaviðmóti sjálfir er hægt að notast við eftirfarandi vefþjónustur:

Kóðaleit
Inntak: Leitarstrengur; eitt eða fleiri flokkunarkerfi.
Úttak: Listi yfir kóða sem uppfylla leitarskilyrði.

Kóðatré
Inntak: Kóði fyrir eitt kóðatré; breyta sem segir til um hvort skila eigi öllu trénu eða eingöngu næsta lagi, rótarkóði (annað hvort raunverulegur rótarkóði eða ákveðinn kóði sem sækja á undirtré fyrir).
Úttak: Kóðatré, allt eða að hluta.

Kóðaupplýsingar
Inntak: Innri kóði.
Úttak: Allar upplýsingar um viðkomandi kóða

Bent er á verkefnisstjóra flokkunarkerfa til að fá nánari upplýsingar og eru allir sem eru ábyrgir fyrir uppfærslum flokkunarkerfa í sjúkraskrárhugbúnaði hvattir til að skrá sig á póstlista flokkunarkerfa til að þeim berist tilkynningar um uppfærslur flokkunarkerfa. 


Fyrst birt 25.05.2012

<< Til baka