Láttu í þér heyra

Sjá stærri mynd

Brýnt er að heilbrigðisstéttir hvetji notendur heilbrigðisþjónustu til að vera virkir þátttakendur og eftirlitsaðilar varðandi eigin meðferð. Vitundarvakningu þarf meðal almennings til þess að fólk geri sér ljóst hversu margt er hægt að gera til að efla eigið öryggi í heilbrigðisþjónustu. 

Það er sameiginleg ábyrgð allra að efla öryggi í heilbrigðisþjónustunni, þ.e. heilbrigðisstofnana, heilbrigðisstarfsfólks og notenda þjónustunnar. Ýmsar stofnanir erlendis hafa hvatt til þess að notendur taki virkan þátt í meðferð sinni þar sem rannsóknir sýna að þeim farnast betur en öðrum.

Að auka eigið öryggi í heilbrigðisþjónustu

 • Spurðu frekar of mikið en of lítið. Það er mikilvægt að þú skiljir t.d. ástæður rannsókna sem þú ferð í, niðurstöður þeirra og meðferð þína. Ekki sætta þig við svör sem þú skilur ekki. Málið snýst um heilsu þína og þú átt rétt á upplýsingum samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga.
 • Kynntu þér það sem að þér er, svo sem sjúkdómsgreiningu, svör úr rannsóknarniðurstöðum og meðferðaráætlun. Aflaðu upplýsinga um heilsufarsvanda þinn, t.d. í bæklingum og á viðurkenndum vefsetrum.
 • Skrifaðu niður mikilvægar upplýsingar og minnisatriði og einnig spurningar sem þú kannt að hafa, svo þú gleymir ekki að spyrja þeirra.
 • Fylgstu með þeirri heilbrigðisþjónustu sem þú færð. Fullvissaðu þig um að þú fáir rétt lyf og rétta meðferð. Ekki gera ráð fyrir að allt gangi snurðulaust fyrir sig.
 • Greindu frá nafni þínu og fáðu staðfestingu á að þú eigir að fá tiltekna meðferð, lyf eða fara í ákveðna rannsókn eða aðgerð.
 • Þekktu lyfin þín; hvað þau heita, hvernig þau virka og hve lengi þú þarft að taka þau. Vertu með lista yfir öll lyf sem þú tekur. Einnig er nauðsynlegt að vita um aukaverkanir lyfjanna og hvort eitthvað getur haft áhrif á verkun þeirra, t.d. ákveðnar fæðutegundir eða drykkir.
 • Fylgstu með handþvotti heilbrigðisstarfsfólks, þar sem handþvottur er mikilvægasta leiðin til að draga úr sýkingum. Það sama á við um þá sem koma í heimsókn til þín á stofnun. Bentu fólki vinsamlega á að þvo sér um hendurnar.
 • Segðu frá daglegum venjum þínum og lifnaðarháttum. Mikilvægt er að láta vita hvaða lyf þú tekur, um hugsanlegt ofnæmi, mataræði þitt og hvort þú ert í annars konar meðferð, s.s. óhefðbundinni meðferð.
 • Gott getur verið að hafa einhvern með þér þegar þú ferð í viðtal hjá heilbrigðistarfsmanni eða vegna dvalar á heilbrigðisstofnun. Sá hinn sami getur fylgst með og spurt frekari spurninga og gætt réttar þíns.
  Ef þú vilt ekki eða treystir þér ekki til að tala við heilbrigðisstarfsfólk vegna rannsókna eða niðurstaðna þeirra getur þú tilnefnt annan í þinn stað.
 • Aflaðu þér upplýsinga um framhaldsmeðferð þegar heim er komið og hvað þú átt sjálf/sjálfur að gera varðandi meðferð þína.

Embætti landlæknis hvetur alla til að taka þátt í ákvörðunum um eigin meðferð.

Þú ert miðdepillinn í þinni eigin heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga átt þú rétt á að leita álits annars heilbrigðisstarfsmanns um meðferð ástand og batahorfur. Einnig getur verið gott að ræða við aðra með sama heilbrigðisvanda.

Að lokum er rétt að benda á að sjúklingur ber einnig ábyrgð á eigin heilsu eftir því sem það er á hans færi og ástand hans leyfir.

Anna Björg Aradóttir
sviðsstjóri
Laura Sch. Thorsteinsson
verkefnisstjóri

Birtist í Mbl. 29. nóvember 2006

Ítarefni

Lyfjagjöf á sjúkrahúsi
 
Láttu í þér heyra. (PDF).
Fræðsluerindi eftir Lauru Scheving Thorsteinsson, verkefnisstjóra gæðamála hjá Landlæknisembættinu.

Sjá einnig vefinn Speak Up á vegum bandarísku stofnunarinnar The Joint Commission.

 


Fyrst birt 29.11.2006
Síðast uppfært 01.12.2016

<< Til baka