Hvert fer ég í kynsjúkdómapróf?

Hvert fer ég í kynsjúkdómapróf?

 • A1, göngudeild húð- og kynsjúkdóma, Landspítala Fossvogi, vegna kynsjúkdóma.
  Panta þarf tíma á virkum dögum milli kl. 8:15–11:00 og 12:00–15:00. Sími 543 6050
 • Göngudeild smitsjúkdóma A3, Landspítala Fossvogi, vegna HIV, lifrarbólgu B og C.
  Panta þarf tíma á virkum dögum milli kl. 8:00-16:00. Sími 543 6040
 • Heilsugæslustöðvar landsins

 • Húð- og kynsjúkdómalæknar

 • Kvensjúkdómalæknar (fyrir konur) eða þvagfærasérfræðingar (fyrir karla)

 • Læknavaktin, Smáratorgi 1, Kópavogi. Sími: 1770. Opnunartímar: Virkir dagar kl. 17:00-23:30, um helgar/helgidaga kl. 9-23:30.

 Sjá einnig Heilsuvera.is

 

Ítarlegri upplýsingar um greiningarstaði:

A1, Göngudeild húð- og kynsjúkdóma, Landspítala Fossvogi
Allir landsmenn geta hringt til göngudeildarinnar milli kl. 8:15-11:00 og 12:00-15:00 alla virka daga og pantað tíma á kynsjúkdómadeild. Tímapöntun er á þjónustutíma í síma 543 6050. Sérfræðingar í kynsjúkdómum, deildarlæknar og hjúkrunarfræðingar eru á vakt alla virka daga. Ekki er boðið upp á bráðamóttöku.

Oftast er 1-7 daga bið eftir skoðun hjá lækni og viðtali við hjúkrunarfræðing. Hjúkrunarfræðingar eru með viðtöl við einstaklinga sem hafa grun um kynsjúkdómasmit en eru án einkenna. Hægt er að panta símaviðtal við hjúkrunarfræðing sem oftast er svarað samdægurs. 

Ef eitthvað er athugarvert við niðurstöður rannsókna er þeim svarað með tölvupósti gegn fullu nafni, kennitölu og rannsóknanúmeri. Svör úr þvagrannsókn berast oftast innan 7 daga og blóðrannsókn innan 10 daga (svari úr blóðrannsókn getur þó seinkað um 3-4 vikur). Niðurstöðum sem eru í lagi er ekki svarað.

Ekki er venja að taka strok úr munni en það er gert ef ástæða þykir til. Af þessu má sjá að hægt er að panta tíma allan daginn en ekki hefur verið hægt að bóka tíma með tölvupósti eða með símsvara utan vinnutíma.

Heilsugæslan
Hægt er að panta tíma til þess að fá upplýsingar, ráðgjöf, skoðun og meðferð vegna kynsjúkdóma hjá læknum heilsugæslustöðva. Komist fólk ekki samdægurs til læknis bjóða allar heilsugæslustöðvar upp á síðdegisvaktir. Í langflestum tilvikum eru þær á milli kl. 16-18. Jafnframt er hægt að hringja eða hitta hjúkrunarfræðinga sem þar starfa á milli kl. 8-16. Þeir gefa m.a. upplýsingar og ráðgjöf um kynsjúkdóma og geta gefið forgangstíma hjá læknum meti þeir aðstæður þannig. Þessi þjónusta á að vera öllum þeim sem leita til heilsugæslustöðvanna sér að kostnaðarlausu.

Heilsugæslustöðin á Akureyri býður ungu fólki 13-20 ára m.a. upp á upplýsingar, ráðgjöf og meðferð við kynsjúkdómum á sérstökum unglingamóttökum. Hún er opin á þriðjudögum kl. 15-16, lokað yfir sumartímann (júní-ágúst). Þessi þjónusta er unga fólkinu að kostnaðarlausu.

Læknavaktin
Öllum landsmönnum býðst að koma samdægurs á Læknavaktina á milli kl. 17:00-23:30 alla virka daga og á milli kl. 9:00-23:30 um helgar/helgidaga. Þar eru alltaf fjórir heimilislæknar á vakt hverju sinni. Þar sem álag getur verið misjafnt á milli daga er hægt að aðlaga fjölda lækna eftir þörfinni hverju sinni. Þeir skrifa beiðnir fyrir blóðprufur eða þvagprufur á rannsóknarstofum og taka sýni til ræktunar. Stundum taka þeir ræktanir á staðnum. Niðurstöður eru sendar heimilislækni viðkomandi sjúklings sé hann til staðar eða þá að vakthafandi læknir fylgir málinu eftir en þetta er samkomulag hvers og eins læknis og sjúklings hverju sinni. Hjúkrunarfræðingar veita símaráðgjöf og hvetja fólk til að koma á vaktina meti þeir aðstæður þannig.


A3, göngudeild smitsjúkdóma, Landspítala Fossvogi
Á A3 er hægt að fá HIV-, lifrarbólgu B og C próf með því að panta tíma alla virka daga milli kl. 8:00-16:00 í síma 543-6040. Sýni eru tekin allan daginn og læknar veita svör úr þeim eftir mesta lagi eina viku.

Hraðprófun á HIV hefur ekki verið til staðar hér á landi. Ástæðan er sú að mikilvægt er talið að próf tengist ráðgjöf, að það sé öruggt og sé staðfest með öðru prófi.


Sérfræðingar á stofu
Hægt er að panta tíma hjá kvensjúkdómalæknum, húð -og kynsjúkdómalæknum og öðrum sér­fræðingum á einkastofum. Því fylgir læknis- og lyfjakostnaður.

 

Samantekt

 • Hægt er alla virka daga að panta tíma hjá lækni á heilsugæslustöðvum og hjá lækni/hjúkrunarfræðingi á A1 og A3 á Landspítala Fossvogi. Sé óskað eftir þjónustu samdægurs er hægt að fara á síðdegisvaktir heilsugæslustöðvanna og á Læknavaktina sem opin er til 23:30 alla virka daga og um helgar. 
 • Hægt er að fá HIV-próf alla virka daga. 
 • Það er ekki hjá því komist að bíða í fáeina daga eftir niðurstöðum prófa, það er nauðsynlegt til þess að tryggja gæði niðurstaðanna. Slíkt ferli tekur mislangan tíma eftir því hvaða sjúkdóm verið er að greina. Unglingar jafnt sem aðrir hafa aðgengi að ofangreindum stöðum. 

Fyrst birt 24.05.2012
Síðast uppfært 09.08.2021

<< Til baka