Smokkanotkun

Sjá stærri mynd

Sumir nota bara smokk þegar þeir eru einhleypir eða í útlöndum. En það geta allir fengið kynsjúkdóma og oftast vitum við ekki hvort aðrir eru smitaðir. Þeir vita það oft ekki sjálfir og eru því ekki meðvitaðir um hættuna sem þeir og bólfélagar þeirra eru í. Allir sem taka áhættu geta smitast af kynsjúkdómum.

Ef þú velur að nota smokk hefurðu valið öruggustu leiðina til að vernda sjálfa/sjálfan þig og aðra gegn smiti. Það er ekki augnablikið sem á að ákvarða hvort maður ver sig eða ekki í kynlífi. Það er ákvörðun sem þú sjálf/sjálfur tekur. Við sýnum ekki traust með því að vera kærulaus, við sýnum ábyrgð og traust með því stunda öruggt kynlíf. Öruggt kynlíf er fólgið í því að nota smokk alltaf í kynlífi, ekki bara stundum, og fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum um notkun hans.

Það þarf alltaf að setja smokkinn á áður en slímhúðir snertast, sama hvort um kynmök, munnmök eða endaþarmsmök er að ræða. Það er einnig mikilvægt að nota smokk allan tímann meðan á samförum stendur, ekki bara rétt fyrir sáðlát. Kynsjúkdómar geta smitast þó ekki sé um sáðlát að ræða og auk þess eru töluverðar líkur á þungun. Við skyndikynni ætti alltaf að nota smokk. Þegar stofnað er til lengri kynna ættu báðir aðilar að fara í skoðun áður en smokkanotkun er hætt.

 • Smokkar eru eina getnaðarvörnin sem er bæði vörn gegn kynsjúkdómum og getnaði. 
 • Smokkar eru til í ýmsum gerðum, litum og bragðtegundum. 
 • Til eru sérstakir smokkar fyrir þá sem eru með ofnæmi fyrir latexi. 
 • Kvensmokkar geta komið sér vel. 
 • Sé notað sleipiefni eru vatnsleysanleg efni best því að fituleysanleg efni, t.d. vaselín og olíur, geta skemmt smokkinn. 
 • Smokkar fást víða, t.d. í matvöruverslunum, bensínstöðvum og apótekum. 
 • Smokkar geymast best á svölum og þurrum stað, alls ekki í sól og hita. 
 • Ekki nota smokk í skemmdum umbúðum, hann gæti hafa laskast. 
 • Fylgstu með hvenær smokkurinn rennur út. 
 • Ekki er hægt að þvo eða nota sama smokkinn aftur. 
 • Það eykur ekki öryggi að nota tvo eða fleiri smokka saman, það dugar að nota einn. 
 • Keyptu smokka áður en þú ferð í frí, ekki gleyma að setja þá í töskuna. 
 • Vertu ávallt viss um að eiga smokk og hafa hann til taks.

 

 


Fyrst birt 03.05.2012
Síðast uppfært 21.11.2016

<< Til baka