Ferðamenn - almennar ráðleggingar


Áður en lagt er af stað

 • Vegna ferða til landa eins og Suður Evrópu, Madeira, Kanaríeyja, Bandaríkjanna og Japan þarf ekki sérstakra læknisráða við. Hins vegar er rétt að leita læknisráða ef þú ert með langvarandi sjúkdóm eins og hjartasjúkdóm, astma, nýrnasjúkdóm eða sykursýki.
 • Vegna ferða til hitabeltislanda er ávallt ráðlagt að leita læknis, helst 2 mánuðum áður en lagt er í ferðina, til þess að hægt sé að framkvæma nauðsynlegar bólusetningar.
 • Nánari upplýsingar og bólusetningar fást á öllum heilsugæslustöðvum, Göngudeild sóttvarna og á Landspítala.

 

Kostnaður vegna læknisþjónustu

Kostnaður vegna læknisþjónustu erlendis getur verið mjög mikill. Gakktu úr skugga um að þú sért vel tryggð/ur í ferðum þínum.


Hollráð

 • Ráðlagt að hafa með sér plástur, sárabindi, skordýrafælandi smyrsl, sótthreinsandi lög og sólarvarnarkrem. Þeir sem taka lyf að staðaldri ættu að hafa með sér nægilegt magn lyfjanna til að verða ekki uppiskroppa í ferðalaginu, eins þótt heimkomu seinki um nokkra sólarhringa.
 • Sólin. Eftir því sem húðin er ljósari er meiri hætta á því að hún brenni. Láttu sólina einungis skína á húðina stuttan tíma í senn fyrstu dagana. Síðan má smá auka þennan tíma. Sólarvarnarkrem dregur úr líkum á bruna.
 • Vökvatap. Ef þú svitnar mikið getur líkaminn tapað miklu af vökva og salti. Þetta getur valdið höfuðverk, svima, máttleysi og ógleði. Hægt er að koma í veg fyrir þetta með því að drekka ríkulega og neyta aukamagns af salti.
 • Þvoðu ávallt hendurnar áður en matar er neytt eða hann matreiddur.
 • Drykkjarvatn. Athugaðu hvort óhætt sé að neyta drykkjarvatns. Ef óvissa ríkir um það ber að sjóða vatn fyrir neyslu (3–5 mínútur) eða sótthreinsa það með joðlausn eða klórtöflum (látnar verka í 30–60 mínútur).
 • Matur. Neyttu ekki hrás grænmetis og ávaxta með hýði, hrás skelfisks, íss eða ísmola. Forðastu ósoðinn eða illa soðinn mat. Kaldur eða endurhitaður matur getur verið varasamur. Nýsoðinn matur er öruggastur.
 • Flugna- og skordýrabit. Notaðu skordýrafælandi smyrsl eða úða á líkamshluta sem ekki eru huldir klæðum. Efnið diethyltoluamide (DEET) er útbreiddasta, ódýrasta og virkasta skordýrafælan sem óhætt er að nota á húð. Gæta þarf að styrkleika efnisins, 30% er lágmark til að verjast skordýrum sem geta borið sjúkdóma en óþarfi er að fara yfir 50% styrkleika. Á svæðum þar sem malaría er landlæg er mikilvægt að verjast bitum eftir að skyggja tekur. Moskítónet meðhöndlað með skordýraeitri ber að nota á nóttunni.
 • Dýrabit. Bit frá dýrum og jafnvel mönnum geta haft sýkingahættu í för með sér. Sárasýking er nokkuð algeng eftir dýrabit og oft eru gefin sýklalyf til að koma í veg fyrir slíka sýkingu. Sumir sjúkdómar geta smitast við bit án þess að valda sýkingu í sárinu sjálfu. Hundaæði (rabies) er til staðar víða um heim, m.a. sums staðar í Evrópu. Sjúkdómurinn er banvænn. Þú getur smitast af hundaæði ef þú verður bitinn eða sleiktur af sýktum hundi, leðurblöku, ketti, refi eða öðrum dýrum. Verðir þú fyrir biti eða skrámum af völdum dýrs erlendis skaltu:
  • Þvo sárið vandlega með sápuvatni eða skola sárið.
  • Hafa samband við lækni. Vera kann að þú þurfir meðhöndlun við hundaæði og oft þarf að gefa sýklalyf eftir dýrabit.
  • Hafa upp á eiganda dýrsins, ef þess er nokkur kostur. Gakktu úr skugga um það hvort dýrið er bólusett gegn hundaæði. Eigandanum ber að láta vita af því ef dýrið veikist eða deyr innan 2 vikna.
 • Forðastu ókunn gæludýr jafnt sem villt dýr hvar sem þú ert staddur.
 • Kynsjúkdómar, þar með talið HIV/alnæmi, eru ógnun við heilsu manna. Öruggasta ráðið er að forðast kynmök við ókunnuga. Ef kynmök eru höfð á annað borð er smokkurinn vörn gegn kynsjúkdómum. Mjög mikilvægt er að forðast kynmök við aðila sem stunda vændi. HIV/alnæmi er nú orðið verulega útbreitt meðal þeirra vegna fíkniefnaneyslu og fjölda kynmaka.

 

Malaría

Sjúkdómurinn er landlægur í flestum löndum hitabeltisins. Hann er ein skæðasta og útbreiddasta sótt mannkynsins. Til eru lyf til fyrirbyggjandi meðferðar gegn malaríu sem bæði hafa kosti og galla. Lyfin ætti einungis að nota ef hættan á malaríu er umtalsverð og því er þörf á notkun slíkra lyfja mismunandi eftir því hvert ferðinni er heitið. Hættan á því að fá sjúkdóminn er veruleg einkum í Mið-Afríku og þar er nauðsynlegt að taka malaríulyf í forvarnarskyni. Mikilvægt er að ráðfæra sig við lækni um val malaríulyfja. Þau lyf sem koma til álita eru:

 • Malarone sem tekið er einu sinni á dag á meðan á ferðalagi stendur og í viku eftir heimkomu. Hentar afar vel fyrir stutta dvöl á malaríusvæði.
 • Doxýcýklin sem er tekið einu sinni á dag á meðan á ferðalagi stendur og í fjórar vikur eftir heimkomu. Aukaverkanir geta verið niðurgangur og sólarexem. Getur komið í stað Malarones.

Mundu að taka þarf lyfin á meðan dvalist er á svæðinu. Forðast skal moskítóbit. Fylgdu leiðbeiningunum um flugnabit sem eru hér ofar í textanum í almennum ráðleggingunum.

 

Niðurgangur:

Talið er að næstum helmingur þeirra sem ferðast til suðrænna landa fái niðurgang á ferðum sínum. Vitað er að sýklalyf, gefin í forvarnarskyni, geta komið í veg fyrir niðurgang. Hins vegar er yfirleitt óráðlegt að nota þau til forvarna vegna aukaverkana þeirra og hættu á að þarmabakteríur myndi ónæmi gegn sýklalyfjunum.

Hægt er að draga úr líkum á niðurgangi ferðamanna með lyfi (bismútsúbsalicýlati) sem bindur eiturefni vissra þarmabaktería. Hafa ber í huga að í efninu er salicylat, sem er einnig í magnyl töflum, og getur valdið eitrun ef það er tekið í of stórum skömmtum. Þetta lyf fæst ekki á Íslandi en er selt í lausasölu víða um heim. Verði niðurgangur er rétt að neyta ríkulegs vökva (lítið í senn) sem inniheldur glúkósa og sölt. Loperamide hydroklóríð (Imodium) og fleiri lyf geta dregið úr niðurgangi en skal ekki nota ef hiti eða blóð fylgja niðurgangi.

Rétt er að hafa samráð við lækni um hvort hafa skuli sýklalyf með í ferð til meðferðar á svæsnum niðurgangi. Ef niðurgangur er svæsinn með hita eða blóðugum hægðum er rétt að nota sýklalyf í 3 - 5 daga. Um varnaraðgerðir vegna neysluvatns vísast til almennu ráðlegginganna hér að ofan.

HIV/Alnæmi (AIDS):

Alnæmi er ólæknandi smitsjúkdómur sem orsakast af veiru. Smitun á sér stað við kynmök og blóðblöndun t.d. við blóðgjöf eða notkun mengaðra nála og sprauta. Sjúkdómurinn er langútbreiddastur í Afríku sunnan Sahara og suðaustur Asíu en einnig hefur hann náð verulegri útbreiðslu í Bandaríkjunum og Evrópu.

Sjúkdómurinn hefur nú fundist í nánast öllum ríkjum veraldar. Þú getur sjálfur varist smiti af völdum alnæmisveirunnar með því að:

 • forðast kynmök við ókunnuga á ferðum þínum
 • nota aldrei óhreinar nálar og sprautur. Smokkurinn dregur úr líkum á smitun. Forðastu, ef hægt er, að fá blóðgjöf eða lyf gefin með sprautum.

Sjá erlendar síður um bólusetningar ferðamanna:

 

 Sjá Bólusetningar ferðamanna

 


Fyrst birt 02.05.2017
Síðast uppfært 21.11.2016

<< Til baka