Þitt er valið

Glerungseyðing er sívaxandi vandamál sem herjar sérstaklega á tennur ungs fólks en 37,3% 15 ára drengja á Íslandi hafa mælanlega glerungseyðingu samkvæmt niðurstöðum Munnís rannsóknar 2005.

Glerungseyðing er óafturkræfanlegt tap tannvefs af völdum efnafræðilegra þátta, þ.e. þegar sýrustig (pH) í munnholi fer niður fyrir pH 5,5, en undir eðlilegum kringumstæðum er það um pH 7. Við það minnkar mettun ákveðinna kristalla (hydroxyapatít) í munnvatninu, en kristallarnir eru ein aðal byggingareining tannglerungs. Líkaminn leitast við að leiðrétta þetta ójafnvægi og byggingareiningarnar falla því út í munnvatnið, glerungur tannanna tærist og er eyðingin varanleg. Erfitt getur reynst að greina glerungseyðingu þar sem hún er sársaukalaus á byrjunarstigi en fyrstu einkennin geta komið fram þannig að við finnum meira en áður fyrir hita eða kulda og tannburstun. Á seinni stigum getur glerungseyðing valdið óbærilegum sársauka þar sem glerungurinn verndar ekki lengur skyntaugar tannanna.

Ein af aðalástæðum fyrir eyðingu glerungs er neysla súrra drykkja, þ.e. drykkja með sýrustigi undir pH 5,5. Velja ætti drykki sem hafa sýrustig um eða yfir pH 5,5 og kynna sér jafnt sýrustig bragðbættra vatnsdrykkja (með sítrónusýru) sem og kóladrykkja (með fosfórsýru) auk annarra drykkja. Neyslumynstrið hefur einnig áhrif; sá sem er að fá sér einn og einn sopa af drykknum yfir tiltölulega langan tíma er frekar útsettur fyrir glerungseyðingu en sá sem klárar drykkinn fljótt. Stuðpúðavirkni munnvatns, þ.e. hversu vel munnvatnskerfið getur dregið úr áhrifum sýrunnar, ásamt munnvatnsflæði, hefur einnig áhrif á glerungseyðingu.

Þitt er valið

Nauðsynlegt er að upplýsingar um áhrif drykkja á tannheilsu séu aðgengilegar fyrir alla og því hefur Lýðheilsustöð gefið út veggspjaldið „Þitt er valið" með upplýsingum um sýrustig í helstu tegundum drykkja á markaðnum hér á landi ásamt sykurmagni í drykkjunum. Upplýsingarnar eru settar upp á myndrænan hátt svo jafnt börn sem fullorðnir eiga að geta skilið þær, sem og þeir sem ekki eru vel læsir á íslensku. Veggspjöldin munu væntanlega hanga uppi á flestum opinberum stofnunum um allt land og á fleiri stöðum.

Neyslumynstrið hefur einnig áhrif; sá sem er að fá sér einn og einn sopa af drykknum yfir tiltölulega langan tíma er frekar útsettur fyrir glerungseyðingu en sá sem klárar drykkinn fljótt.

Mikil undirbúningsvinna lá að baki veggspjaldinu, m.a. rannsakaði Rannsóknarstofa tannlæknadeildar HÍ, í samstarfi við Lýðheilsustöð, áhrif helstu tegunda drykkja á glerung tanna. Drykkirnir voru sýrustigsmældir og flokkaðir í fjóra hópa eftir því hversu mikil hætta á glerungseyðingu stafar af þeim. Rannsóknin sýndi að þar er ókolsýrt vatn besti kosturinn en sýrustig þess er yfir áhættusýrustiginu pH 5,5. Einnig að óbragðbætt sódavatn og sódavatn með bragðefnum (án sítrónusýru) eyða lítið sem ekkert glerungi tanna. Allir aðrir drykkir sem rannsakaðir voru eyða glerungi tanna þar sem sýrustig þeirra er undir pH 4,0.

Mest kom á óvart að í þessum áhættuhópi eru íþróttadrykkir og aðrir vatnsdrykkir en ofangreindir sem hafa verið markaðsettir á undanförnum árum sem heilsusamlegur kostur. Drykkirnir eru margir hverjir úr íslensku bergvatni, hitaeiningasnauðir, innihalda hreinan ávaxtasafa og jafnvel bætiefni og vítamín. Innihaldslýsing er á umbúðunum en upplýsingar um áhrif drykkjanna á tannheilsu eru ekki aðgengilegar.

Tennur eru hluti af líkamanum og ef drykkirnir stuðla að eyðingu glerungs eru þeir ekki heilsubætandi. Á umbúðum má þó lesa um sykurinnihald en bakteríur í munni, sem orsaka tannskemmdir, nota bæði hvítan sykur og ávaxtasykur til vaxtar og viðhalds. Hvíti sykurinn myndar að auki límkenndan hjúp utan um bakteríurnar svo þær loða betur við yfirborð tannanna og mynda þar skán og mögulega tannskemmdir ef skánin er ekki hreinsuð af með reglulegu millibili. Því er ljóst að því lægra sem sýrstigið er í drykknum og því meiri viðbættur hvítur sykur - því verra fyrir tennurnar.

Stöldrum við og kynnum okkur innhaldið áður en við svölum þorstanum!

Alís G. Heiðar
 nemi við Tannlæknadeild Háskóla Íslands

Hólmfríður Guðmundsdóttir
 tannlæknir Lýðheilsustöð

 


Fyrst birt 03.01.2011
Síðast uppfært 22.05.2012

<< Til baka