Vanræksla og ofbeldi í uppeldisumhverfi

„Af misjöfnu þrífast börnin best" segir gamalt máltæki. Margt er ugglaust til í því, að minnsta kosti má halda því fram að átaka- og áfallalaust líf búi börn ekki endilega undir það að takast á við kröfur fullorðinsáranna.

Á hinn bóginn bendir ýmislegt til þess að hið forna máltæki sé hreint öfugmæli þegar hafðar eru í huga sífellt fleiri vísbendingar sem sýna tengsl milli erfiðra uppeldisaðstæðna og félagslegra erfiðleika annars vegar og geðraskana síðar í lífinu hins vegar. Ofbeldi gagnvart börnum er efst á blaði í þessu samhengi.

Ef þú hefur grun um að barn sem þú þekkir til sæti ofbeldi er þér bent á að hringja í neyðarsímann 112 sem kemur tilkynningunni áleiðis til barnaverndarnefndar.

Ofbeldi gagnvart börnum
Í þeim fjölmörgu rannsóknum sem birst hafa undanfarna tvo áratugi hefur skilgreining á ofbeldi gagnvart börnum breyst verulega. Fremur en að gera greinarmun á ofbeldi gegn börnum eftir því hvort það felst í kynferðislegu ofbeldi eða annars konar líkamlegu ofbeldi er nú rætt um ýmist beint eða óbeint ofbeldi. Undir hið síðarnefnda flokkast til dæmis harðræði, kuldi og vanræksla gagnvart börnum af hálfu náinna ættingja.

Ofbeldi gagnvart barni er aldrei réttlætanlegt, sama í hvaða mynd það er.

  1. Vanræksla foreldra gagnvart börnum getur komið fram í ónógri efnislegri aðhlynningu, eins og í mataræði, þrifum og klæðnaði. Hér er einungis átt við umhirðu sem hægt er að ætlast til miðað við aðstæður fjölskyldu, en ekki samanburð við það besta eða dýrasta.
  2. Tilfinningaleg vanræksla birtist í skorti á sýndri umhyggju og áhuga á barninu, skorti á hvatningu, hrósi og hlýjum orðum.
  3. Tilfinningalegt ofbeldi getur komið fram í því að æpa á barnið, í skömmum, óhóflegri gagnrýni, hótunum, blótsyrðum, ásökunum og móðgandi og lítillækkandi ummælum. Í þennan flokk fellur einnig rifrildi og líkamlegt ofbeldi á heimili sem barnið verður vitni að en er ekki beinn þátttakandi í.
  4. Líkamlegt ofbeldi gagnvart barni er skilgreint sem ofbeldi sem er svo alvarlegt að það útheimtir aðhlynningu heilbrigðisstarfsmanns, hvort sem barnið hefur fengið þá aðhlynningu eða ekki. Skilgreiningin nær einnig til eftirstöðva ofbeldis, sem hafa einhvern varanlegan skaða í för með sér, svo og til ofbeldis sem ekki er eins alvarlegt en barnið hefur orðið fyrir a.m.k. fjórum sinnum.
  5. Kynferðislegt ofbeldi gagnvart barni nær yfir vítt svið, allt frá grófu tali og snertingu kynfæra yfir í innsetningu eins og samfarir. Grundvallaratriði er að það er hinn fullorðni sem ber ávallt ábyrgð í samskiptum við barn. Sá fullorðni brýtur trúnað og traust barnsins og það getur haft varanleg áhrif á barnið til lengri tíma. Barn er ávallt saklaus þolandi, hvort sem það hefur gefið þegjandi samþykki sitt eða hefur á einhvern hátt fundist það vera þvingað til að taka þátt í kynferðislegum athöfnum.

Kynferðislegt ofbeldi hefur ávallt skaðleg áhrif á sálræna líðan barns, hvort sem gerandinn er innan eða utan við fjölskyldu barnsins. Það skiptir máli hversu oft ofbeldið átti sér stað, yfir hversu langt tímabil og hve mikil togstreita, ógn og vanlíðan tengist ofbeldinu.

Nauðsynlegt er í öllum tilfellum að barnið og fjölskylda þess fái sem fyrst hjálp frá sérfræðingum og geti tjáð sig um ofbeldið. Hægt er að hringja strax í 112 ef grunur vaknar og þá fer ákveðið ferli í gang í samvinnu við barnaverndarstarfsfólk. 

Í öllum þeim flokkum sem hér hafa verið taldir upp skiptir máli hver eða hverjir gerendur voru, tíðni og alvarleiki ofbeldisins, lengd tímabils sem ofbeldið stóð yfir, aldur barnsins og eins hvaða verndandi þættir kunna að hafa verið til staðar. Oft er ofbeldið víðtækara en svo að það falli undir einn flokk þannig að margfeldisáhrif verða.

Afleiðingar
Athygli heilbrigðisstarfsmanna og starfsmanna í félagsmálakerfinu og dómskerfi hefur mikið til beinst að afleiðingum kynferðislegs og alvarlegs líkamlegs ofbeldis. Rannsóknir hafa nú sýnt að ill meðferð sem fellur í fyrstu þrjá flokkana hér fyrir ofan getur líka haft skaðleg áhrif á börn til frambúðar.

Afleiðingar illrar meðferðar og ofbeldis á börn geta verið neikvæð áhrif á sjálfsmynd og sjálfsvirðingu, erfiðleikar í tengslamyndun og félagslegri færni. Skapgerðareinkenni eins og neikvæðni og pirringur þróast. Þessi einkenni geta átt sér rætur í neikvæðum fyrirmyndum í foreldrum og öðrum, erfðum og áhrifum áfalla á þroska heilastöðva sem stjórna tilfinningum, minni og tengslamyndun.

Sértækar afleiðingar geta komið fram í eiginlegum geðröskunum. Persónuleikaþróun getur raskast þannig að þolandinn á þegar fram í sækir erfitt með að stjórna skapsveiflum. Hvatvísi getur einkennt viðkomandi, erfiðleikar í tengslamyndun og mjög brotakennd sjálfsmynd.

Kvíði og þunglyndi, jafnvel sjálfsskaðandi hegðun, er líklegri til að koma fram snemma í þessum hópi. Sama gildir um misnotkun áfengis og annarra fíkniefna. Alvarleiki ofbeldisins, vanrækslunnar eða misnotkunarinnar, hversu lengi slíkt hefur staðið yfir og loks hversu andsnúnar eða styðjandi kringumstæður eru á heimili barns eða unglings ráða miklu um hversu mikill skaði hlýst af ofbeldinu.

Mikilvægt er að grípa hratt inn í til að beina fjölskyldum í þessum aðstæðum inn á heilbrigðari brautir með ráðgjöf og meðferð við mögulegum vandamálum foreldra. Ekki síst þarf að aðstoða barnið eða unglinginn til að draga sem mest úr hugsanlegum skaða.

 


Fyrst birt 01.10.2008
Síðast uppfært 22.05.2012

<< Til baka