Áhættuþættir í bernsku fyrir geðrænan vanda

Lengi býr að fyrstu gerð

Börn fæðast ekki eins og óskrifað blað. Einstaklingurinn mótast ekki bara eftir forskrift erfðaefna frá foreldrum, mótunin ræðst líka mikið af öllu umhverfi barnsáranna, frá fyrstu tengslum við móður og aðra nánkomna yfir í hið stærra félagslega samhengi, eins og farið verður yfir hér á eftir.

Það er mikilvægt að hafa í huga að meginmarkmiðin í uppeldi hvers einstaklings felast í því að þroska og efla getu hans til að leysa þau viðfangsefni sem lífið krefst á hverju þroskastigi, byggja upp sjálfstraust og hæfni til að takast á við erfiðleika og hindranir. Þetta kallar ekki á flókna uppeldistækni; Almenn umhyggja, jákvæðni og skýr mörk ná langt. Það er þó mikilvægt að vera vakandi fyrir vægum einkennum um geðrænan vanda, eins og kvíða og tengslavanda á fyrstu árum, því þau geta spáð fyrir um alvarlegri vanda þegar fram í sækir, ef ekkert er að gert.

Þekking okkar á eftirköstum áfalla og áhrifa þeirra á heilaþroska hefur aukist mikið undanfarna áratugi. Alvarleg áföll og viðvarandi streita skapa ekki bara tilfinningarót til lengri eða skemmri tíma. Áföll geta haft áhrif á vöxt og þroska heilastöðva, sem stjórna tilfinningum og viðbrögðum við streitu. Ef ekki er unnið úr alvarlegum áföllum geta þessar afleiðingar aukið á áhættu geðraskana seinna meir í lífinu.

Erfðir

Orsakir geðraskana eru margþættar þar sem saman koma erfðir og margskonar umhverfisþættir. Eftir því sem tækni erfðafræðirannsókna hefur fleygt fram verður æ ljósara að erfðamengisþættirnir byggja á flóknu samspili margra erfðavísa, sem flestir hverjir hafa enn ekki verið greindir. Rannsóknir sýna mismunandi niðurstöður hvað varðar vægi líffræðilegra þátta í erfðamengi einstaklinga, allt frá því að vega 20% upp í 60% á móti umhverfisþáttunum.

Ef þunglyndi, kvíði, átröskun eða aðrar geðraskanir hafa greinst meðal ættingja aukast líkur á því að skyldmenni þrói með sér svipaðan vanda. Hafa skal í huga að hér er aðeins átt við líkur og þurfa þær alls ekki að vera miklar, það fer eftir því hversu náinn skyldleikinn er og eins eftir vægi verndandi þátta í umhverfi.

Aðstæður í upphafi

Heilsufar, tilfinningaleg líðan og félagslegur stuðningur kvenna á meðgöngu og á fyrstu mánuðum eftir fæðingu getur haft áhrif á þroska barns. Góð alhliða næring er mikilvæg. Sem dæmi má nefna að Omega 3 og 6 fitusýrur hafa áhrif á heilaþroska fósturs, en þessi efni er t.d. að finna í fiski og lýsi. Áfengi getur verið skaðlegt fóstrinu og er því þunguðum konum ráðlagt að neyta ekki áfengis á meðgöngu.

Ómeðhöndlað þunglyndi kvenna á meðgöngu og eftir fæðingu hefur áhrif á þroska ákveðinna heilastöðva barns og getur þetta hægt á vitsmunalegum þroska og aukið líkur á þunglyndi hjá viðkomandi einstaklingi seinna á lífsleiðinni. Þetta er óháð því hvort fyrir er fjölskyldusaga um þunglyndi, sem er annar áhættuþáttur eins og áður er nefnt. Áhrif meðgöngu- og fæðingarþunglyndis á fóstur gera það mjög brýnt að vera vakandi fyrir andlegri líðan verðandi og nýorðinna mæðra.

Geðheilsa foreldra

Alvarlegar geðraskanir foreldra eða annarra umönnunaraðila geta haft neikvæð áhrif á þróun sjálfsmyndar og geðheilsu barnsins, óháð líffræðilegum erfðaþáttum. Þunglyndi eða geðrofssjúkdómar foreldra geta leitt til sinnuleysis gagnvart þörfum barnsins og röskun á því tilfinningalega samspili sem börnum er mikilvægt.

Það getur líka orðið stór þáttur í vanda barnsins að skilja ekki hegðun og viðmót foreldris í veikindunum og upplifa höfnun og niðurlægingu enda þótt það sé ekki ætlun foreldrisins.Við þannig fjölskylduaðstæður er mikilvægt að bjóða stuðning fagfólks til að styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu þrátt fyrir veikindi.

Áföll í æsku

Í sérstökum kafla hér á vefnum (Vanræksla og ofbeldi í uppeldisumhverfi) er fjallað um ofbeldi gagnvart börnum og unglingum, erfiðar fjölskylduaðstæður, lítinn stuðning og niðurrif innan fjölskyldna, sem allt hefur truflandi áhrif á líðan og getur leitt til geðraskana seinna meir. Sjá einnig: Sjálfsmynd barna.

Önnur áföll skipta einnig máli. Ótímabær missir náinna skyldmenna eða vina getur kallað fram neikvæðar hegðunarbreytingar hjá börnum og unglingum, sem stundum þróast yfir í þunglyndi ef ekkert er að gert, jafnvel löngu seinna. Mikill óstöðugleiki í uppvaxtarumhverfi, tíðir flutningar, ótrygg afkoma fjölskyldu eða skilnaður foreldra geta sömuleiðis valdið óöryggi og streitu sem getur leitt til þróunar geðrænna veikinda seinna meir.

Samheldni og virkur stuðningur uppalenda við börn og unglinga geta mildað áhrif streitu og áfalla mikið og komið í veg fyrir að vandamál skjóti upp kollinum síðar á ævinni.

Einelti

Einelti hefur mjög neikvæð áhrif á líf og líðan barna sem fyrir því verða. Stöðugt álag, ótti og öryggisleysi hefur neikvæð áhrif á geðheilsu og líkur á þunglyndi, kvíðaröskunum og notkun vímuefna snemma á ævinni stóraukast.

Sértækir erfiðleikar

Börn og unglingar með athyglibrest og ofvirkni (ADHD) eru líklegri en jafnaldrar þeirra til að greinast með aðrar geðraskanir. Þunglyndi er algengur fylgikvilli og virðist það þróast óháð þeim sálrænu og félagslegu erfiðleikum sem ADHD hefur í för með sér. Mótþróaröskun og alvarleg hegðunarvandamál greinast líka oft hjá börnum með ADHD og rannsóknir benda til þess að þegar börn með ADHD komast á unglingsár séu þau allt að fjórum sinnum líklegri en önnur til að misnota áfengi og önnur vímuefni. Sjálfsvígshætta er einnig meiri í þeirra hópi.

Þetta undirstrikar mikilvægi þess að grípa snemma inn í og aðstoða börn og unglinga við að ná betri stjórn á einkennum sínum. Mikilvægt er að meðhöndla ofangreindar geðraskanir á markvissan hátt um leið og þær greinast og sýna barninu mikla hlýju og stuðning.

 


Fyrst birt 01.10.2008
Síðast uppfært 22.05.2012

<< Til baka