Hvað eru klínískar leiðbeiningar?

Skilgreining
Klínískar leiðbeiningar (clinical guidelines) eru leiðbeiningar (ekki fyrirmæli) um verklag, unnar á kerfisbundinn hátt, til stuðnings starfsfólki í heilbrigðisþjónustu og almenningi við ákvarðanatöku við tilteknar aðstæður. Þær taka mið af bestu þekkingu á hverjum tíma og eru lagðar fram í því skyni að veita sem besta meðferð með sem minnstri áhættu án óhóflegs kostnaðar.


Klínískar leiðbeiningar hafa alltaf verið til og má segja að í hvert skipti sem heilbrigðisstarfsmaður leitar sér fanga í rituðum heimildum eða sækir sér álit annars starfsmanns sé hann að leita eftir klínískum leiðbeiningum. Formlegar leiðbeiningar af þessu tagi færast þó mjög í vöxt á Vesturlöndum með ofangreind markmið að leiðarljósi. Nýjar klínískar leiðbeiningar eru gefnar út nánast vikulegu og víða allnokkur tilkostnaður í þær lagðar. Sem dæmi má nefna að á vegum félags heimilislækna í Hollandi munu starfa um 40 manns að þessu verkefni einu.

Klínískar leiðbeiningar eru oftast nær unnar af faghópum, fagfélögum, sjúkrastofnunum einkum sjúkrahúsum, rannsóknastofnunum o.fl. Þær eru stundum samræmdar og ritstýrðar af hálfopinberum eða opinberum aðilum. Klínískar leiðbeiningar eiga alltaf að byggjast sem mest á klínískum rannsóknum. Þær eru einnig síbreytilegar og skiptir miklu að þær séu endurskoðaðar reglulega. Um þær þarf einnig að ríkja sátt og ýmislegt bendir til að þær leiðbeiningar sem mest eru virtar eigi uppsprettu sína „úr grasrótinni" en séu ekki álitnar fyrirmæli frá stjórnvöldum.

Gera klínískar leiðbeiningar gagn?
Allnokkrar rannsóknir eru til hér um. Sem dæmi má nefna að leiðbeiningar um blóðþynningu á 700 rúma kennslusjúkrahúsi bættu mjög árangur hennar (Thrombosis & Haemostasis 1997;77:283), leiðbeiningar um meðferð lungnabólgu hjá hjúkrunarsjúklingum stytti sjúkrahúsvist og dró úr kostnaði (Pharmacotherapy 1995;15:33S).

Nýleg rannsókn meðal hollenskra heimilislækna (BMJ 1998;317:858) bentu til að klínískar leiðbeiningar, sem voru lítt umdeildar, settar fram á skýran hátt, breyttu venjulegum vinnuvenjum sem minnst og voru byggðar á skýrum rannsóknum, nutu mun meiri hylli en þær sem ekki uppfylltu ofangreind skilyrði.

Hver er lagaleg staða klínískra leiðbeininga?
Engin bein ákvæði sem lúta að klínískum leiðbeiningum er að finna í íslenskum lögum og reglugerðum. Allir landsmenn eiga samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Klínískar leiðbeiningar leitast við að uppfylla þetta skilyrði.

Nokkur dómsmál munu hafa gengið fyrir bandarískum dómstólum um lagalega stöðu lækna og klínískra leiðbeininga (J Eval Clin. Pract. 1995;1:49). Þar hefur komið fram að höfundar klínískra leiðbeininga hafa verið látnir bera skaðabótaábyrgð á vondum leiðbeiningum, læknar komust ekki undan ábyrgð með því að bera fyrir sig klínískar leiðbeiningar sem þeir sögðu hafa tekið af sér völdin og klínískar leiðbeiningar hafa ekki verið lagðar að jöfnu við það sem „góður og gegn læknir" gerir við venjulegar aðstæður.

Staða klínískra leiðbeininga á Íslandi
Allmikið hefur verið unnið að þessum málum hérlendis á undanförnum áratug. Á sjúkrahúsum hafa verið gefnar út leiðbeiningar um meðferð sýkinga og landlæknir gaf út leiðbeiningar um háa blóðfitu og meðferð eyrnabólgu, svo dæmi séu nefnd. Ennfremur voru fyrir nokkrum árum unnar metnaðarfullar leiðbeiningar um ýmis klínísk vandamál í samvinnu Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, Tryggingastofnunar og landlæknis. Það starf sýndi að leiðbeiningar af þessum toga geta ekki orðið að veruleika nema að þeim sé unnið skipulega.

Að ráði fagráðs Læknafélags Íslands var Landlæknisembættið gert að miðstöð um gerð klínískra leiðbeininga og réð embættið til sín ritstjóra í ársbyrjun 2000 til að stjórna gerð þeirra í samvinnu við faghópa lækna.

 


Fyrst birt 07.03.2007
Síðast uppfært 20.02.2014

<< Til baka