Til foreldra um börn og óbeinar reykingar

Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum tóbaksreyks á fyrstu tveimur árum ævinnar. Enginn vafi leikur á því að best er fyrir barnið og ykkur að þið hættið alveg að reykja. Ef þið eruð ekki tilbúin að hætta að reykja núna getið þið samt sem áður verndað barnið ykkar fyrir skaðlegum áhrifum af völdum reykinga með því að reykja ekki nálægt barninu. Það er mikilvægt þegar barn er á heimilinu að taka ákvörðun um að ekki sé reykt á heimilinu.

Hafa ber í huga að eina leiðin til að vernda börn fyrir skaðlegum áhrifum tóbaksreyks er að leyfa aldrei reykingar í návist barnsins, á heimilinu eða í bílnum því að börn reykja óbeint þegar reykt er í kringum þau.

Reykingar trufla brjóstagjöf og geta valdið því að það verður erfiðara að hefja
brjóstagjöf og hún varir skemmur þar sem mjólkurmyndunin er minni en ella. Nikótínið og önnur efni úr sígarettunni berast með móðurmjólkinni í barnið.
Verði börn fyrir óbeinum reykingum aukast líkurnar á að þau veikist og þau eru í meiri hættu á að fá öndunarfærasýkingar, eyrnabólgu og að þróa með sér astma og ofnæmi. Börn sem að staðaldri anda að sér tóbaksreyk, eru þannig í tveimur til fjórum sinnum meiri hættu á að fá öndunarfærasýkingar.

Allir eiga möguleika á að hætta að reykja. Talaðu við ljósmóður, hjúkrunarfræðing eða lækni á heilsugæslustöðinni þinni og fáðu ráðgjöf, stuðning og upplýsingar um aðstoð til reykleysis. Reynslan sýnir að fólki sem reykir gengur betur að hætta fái það til þess stuðning. Stuðningur maka og fjölskyldu skiptir einnig mjög miklu máli.

Bæklingurinn Til foreldra um börn og óbeinar reykingar (PDF)

Texti bæklingsins og útdráttur, hefur verið þýddur á 7 tungumál sem hægt er að prenta út af vefnum. 

Til foreldra um börn og óbeinar reykingar albanska, arabíska, enska, pólska, rússneska, spænska og taílenska.

Til foreldra um börn og óbeinar reykingar. Útdráttur albanska, arabíska, enska, pólska, rússneska, spænska og taílenska.

 


Fyrst birt 21.05.2012
Síðast uppfært 21.05.2012

<< Til baka