Gæðamenning, gæðastjórnun og gæðahandbækur

Öflugt gæðastarf ræðst m.a. af menningu stofnana eða stofnanabrag. Unnt er að hafa áhrif á þróun gæðamenningar með mismunandi hætti og þar vegur þyngst mikilvægi hins mannlega þáttar. Til að stuðla að þróun gæðamenningar er nauðsynlegt að gæði séu skoðuð út frá sjónarhóli notenda, starfsmanna og stjórnenda.

Þar sem þróuð gæðamenning ríkir hafa starfsmenn viðurkennt og tileinkað sér gæðahugsun og hegðun sem felst m.a. í því að vilja sífellt gera betur. Mikilvægt er jafnframt að hafa í huga að þróun gæðamenningar er sameiginleg ábyrgð stjórnenda, starfsmanna, og rekstraraðila. Sjá nánar Stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda í gæðamálum til ársins 2010 (PDF).

Gæðastjórnun er að marka gæðastefnu og framfylgja henni í daglegu starfi en gæðastefna felst í þeim viðmiðunarreglum sem stuðst er við varðandi allar ákvarðanir sem snerta gæði starfseminnar. Gæðastjórnun er stjórnun sem miðar að því að gera stöðugar umbætur í rekstri svo allir njóti góðs af. Hún felur í sér skipulögð og öguð vinnubrögð þar sem unnið er eftir nákvæmum verkferlum og aðgerðir eru skráðar.

Gæðastjórnun snýst um að gera rétt frá upphafi og er ákveðin trygging fyrir sjúklinga/notendur þjónustu.

Gæðahandbók felur í sér lýsingu á gæðastefnu og verkferlum viðkomandi stofnunar svo sem verklagsreglum, vinnulýsingum og gátlistum. Skjölum í gæðahandbók má skipta í þrjá flokka:

  • Stefnuskjöl (gæðastefna og markmið)
  • Skipulagsskjöl (verklagsreglur)
  • Framkvæmdaskjöl (vinnulýsingar).

Rafrænar gæðahandbækur eru óðum að ryðja sér til rúms í íslensku heilbrigðiskerfi.

 

 


Fyrst birt 19.05.2012
Síðast uppfært 01.12.2016

<< Til baka