Verða börn þunglynd?

 

 

Fagfólk hélt lengi vel að börn yrðu ekki þunglynd. Kæmu slík einkenni fram voru þau afgreidd sem depurð. Hins vegar er mönnum orðið ljóst að slík einkenni ber að taka alvarlega, þunglyndi barna er staðreynd og er mikilvægt að grípa fljótt inn í.

Hver er tíðni þunglyndis í þessum aldurshópum?

Ætla má að greining þunglyndis hjá börnum sé skemmra á veg komin en hjá fullorðnum. Bandarískar rannsóknir hafa sýnt að 0,9% barna á forskólaaldri þjást af þunglyndi; sú tala hækkar upp í 1,9% fram að unglingsaldri, en þá verður stökk upp í 4,7%.

Kynjahlutfallið er nokkuð jafnt fram að kynþroska, en upp frá því er þunglyndi algengara hjá stúlkum en piltum. Þessu ber þó að taka með fyrirvara því að ýmiss konar hegðunarfrávik unglingspilta gætu verið birtingarmyndir þunglyndis.

Niðurstöður fjölmargra rannsókna hafa sýnt að frumgreining þunglyndis er að færast neðar í aldurstigann. Talið er að fleiri börn verði þunglynd nú en hjá gengnum kynslóðum. Ástæðan er ekki einhlít en margt er nefnt til sögunnar: Breytt fjölskyldumynstur, aukin þátttaka kvenna í atvinnulífi, vaxandi hraði og streita í samfélaginu, borgarvæðing, meiri firring og jafnvel breytt næringarmynstur, svo eitthvað sé nefnt.

Einkenni

 • Depurð og leiði mestallan daginn, nánast á hverjum degi, að eigin mati eða annarra. Hjá börnum og unglingum kemur þetta frekar fram sem skapstyggð eða pirringur.
 • Áhuga- og ánægjuleysi í flestum daglegum athöfnum. Fólk hættir að sinna áhugamálum sem áður þóttu skemmtileg, dregur sig út úr félagslega.
 • Breytingar á holdafari eða matarlyst.
 • Þreyta eða orkuleysi nánast daglega.
 • Breyting á svefni, of lítill eða of mikill svefn.
 • Tregða til að hreyfa sig eða óróleiki.
 • Að finnast maður vera einskis virði.
 • Óraunhæf sektarkennd og/eða svartsýni, vonleysi.
 • Minni einbeiting eða erfiðleikar við að taka ákvarðanir, nánast daglega.
 • Endurteknar sjálfsvígs- eða dauðahugsanir.

Fjögur eða fleiri einkenni þurfa að hafa verið til staðar a.m.k. í 2 vikur, þar af a.m.k. tvö af fyrstu þremur einkennunum, til að uppfylla greiningu.

 

Kynjahlutfall

Fram að kynþroska er hlutfall kynja nokkuð jafnt eða heldur hærra hjá drengjum. Við kynþroska breytist hlutfallið og verður sambærilegt og hjá fullorðnum, með hærri tíðni hjá stúlkum. Svo virðist sem þunglyndi sé að aukast og að aldur við fyrstu greiningu sé að færast neðar.

Algengi aukagreininga

 • Um 50% af þunglyndum börnum og unglingum hafa einnig aðra greiningu samkvæmt faraldsfræðilegum rannsóknum.
 • Algengast er að um hegðunarröskun eða kvíðasjúkdóma sé að ræða.
 • Algengt er að þunglynd börn eigi erfitt með að halda tengslum við önnur börn meðan á þunglyndi stendur og jafnvel áður en það kemur fram.

Afleiðingar fyrir börn

Sum þunglynd börn geta verið þokkalega virk við skipulagðar kringumstæður, en þau sem eru alvarlega þunglynd finna flest fyrir truflunum í félagslegum samskiptum, áhugaleysi og lélegum árangri í námi. Einnig kemur ástandið oft niður á almenn umhirðu, útliti og klæðnaði. Minni virkni í leikjum og öðrum áhugamálum verður áberandi.

Þunglyndum börnum er hættara við að leiðast út í neyslu áfengis og ólöglegra fíkniefna, sérstaklega þeim sem eru eldri en 12 ára. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að vera vakandi fyrir þessu og grípa inn í sem fyrst.

 


Fyrst birt 01.10.2008
Síðast uppfært 15.05.2012

<< Til baka