Saga flokkunarkerfa á Íslandi

Meginhluta 20. aldarinnar var alþjóðlegt flokkunarkerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um sjúkdóma- og dánarmein "International Classification of Diseases" (ICD) eina kóðaða flokkunarkerfið sem notað var hér á landi sem og í nágrannalöndunum.  Upp úr 1980 bættist við flokkunarkerfi til skráningar skurðaðgerða og upp úr 1990 bættust við kerfi til skráningar hjúkrunargreininga og -meðferðar.

 

Flokkun sjúkdóma og dánarmeina  

Skipulögð skráning dánarmeina var fram til 1911 ekki til hér á landi nema skýrslur um voveifleg dauðsföll sem prestar gerðu um leið og aðrar mannfjöldaskýrslur og birtust frá árinu 1850. Regluleg skráning farsótta og dauðsfalla vegna þeirra hófst á Íslandi 1888.  Skráning dánarmeina samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi var tekin upp á Íslandi árið 1911, sbr. lög nr. 30, 22. júlí 1911. Þá skyldi gefið út dánarvottorð fyrir alla sem létust í þéttbýli en prestaskýrslur skráðar fyrir andlát í dreifðum byggðum. Það ár gaf landlæknir í fyrsta sinn út leiðbeiningar um dánarvottorð og dánarskýrslur sama ár. Með lögum nr.42/1950 sem tóku gildi 1. janúar 1951 var gerð krafa um dánarvottorð fyrir alla sem létust hér á landi, nema ef lík fyndist ekki, þá skyldi gefa út mannskaðaskýrslu. Allt til ársins 1951 var því hluti af skráðum dánarmeinum fengin af prestaskýrslum en kóðuð engu að síður.

 

Frá 1911 til 1940 voru dánarmein birt eftir hinni Íslensku aðalskrá 155 flokka íslenskri sjúkdómaflokkaskrá. Þann 1. janúar 1941 tók gildi hér á landi Dánarmeinaskrá fyrir Ísland . Hún telst vera þýðing á hinni alþjóðlegu dánarmeinaskrá (International Classification of Diseases, ICD), 5. endurskoðun (ICD-5) frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), sem endurskoðuð var í París 1938 (með 200 greiningum). Sjötta endurskoðun hinnar alþjóðlegu dánarmeinaskrár ICD-6 var þýdd og gefin út af Landlæknisembættinu og var í gildi hér á landi frá 1. janúar 1951 til 31. desember 1970.  Gildistaka 8. endurskoðunar ICD-8 hér á landi var frá ársbyrjun 1971 og 9. endurskoðun ICD-9 frá ársbyrjun 1982 en fyrir dánarmein árinu fyrr.

 

Sjöunda endurskoðun hinnar alþjóðlegu flokkunar sjúkdóma og banameina ICD-7 var aldrei innleidd hér á landi nema hjá Krabbameinsfélagi Íslands, við flokkun í Krabbameinsskrá. Vilmundur Jónsson er skráður fyrir þýðingum á ICD-6, Benedikt Tómasson og Júlíus Sigurjónsson eru skráðir fyrir þýðingum á ICD-8. Þegar kom að gildistöku ICD-9 var þýðing takmörkuð við þriggja stafa kóða og skráin ekki gefin út á latínu eins og áður. Benedikt Tómasson bar ábyrgð á þýðingunni en Hrafn Tulinius og Guðjón Magnússon fóru yfir.

 

Nýjasta endurskoðunin, ICD-10, tók svo gildi hér á landi 1. janúar 1997 en fyrir dánarmein 1. janúar 1996. Var sjúkdómaskráin þá í fyrsta sinn þýdd á íslenska tungu, þ.e. kaflaskipti hluti hennar. Ritstjóri íslensku útgáfunnar var Magnús Snædal, málfræðingur,  en um þýðinguna sáu auk Magnúsar læknarnir Örn Bjarnason og Jóhann Heiðar Jóhannsson.

 

Flokkun skurðaðgerða

Til skráningar skurðaðgerða var í ársbyrjun 1982 tekið í notkun hér á landi flokkunarkerfi WHO fyrir skurðaðgerðir "International Classification of Procedures in Medicine",  ICPM. Það var í gildi hér á landi þar til 1. janúar 1997 að Norræn flokkun aðferða og aðgerða í skurðlækningum, NCSP (Nordic Classification of Surgical Procedures) tók við. Örn Bjarnason, læknir þýddi NCSP í samráði við sérfræðinga í ýmsum greinum. Frá árinu 2001 hefur NCSP verið aðgengilegt á vefsíðu embættisins á tölvutæku formi. Embætti landlæknis hefur nú gefið út sérstaka landsútgáfu, NCSP-IS sem byggir á enskri NCSP+ skrá sem gefin er út árlega áður af Norrænu flokkunarmiðstöðinni, "Nordic Centre for Classifications in Health Care" en nú af Nordic casemix center NCSP-IS tók gildi hér á landi 6. apríl 2004 en hefur helst verið notað á Landspítalanum.

 

Skráning í heilsugæslu

Á heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum hófst árið 1975 svokölluð Egilsstaðarannsókn, rannsókn á sjúkraskrám fyrir heilsugæslustöðvar og úrvinnslu upplýsinga úr þeim. Markmið rannsóknarinnar var að prófa nýtt sjúkraskrárform fyrir heilsugæslu, prófa notkun samskiptaseðla við skráningu upplýsinga og prófa gagnsemi og hagkvæmni þess að nota tölvu við skráningu, geymslu og úrvinnslu upplýsinga. Vakti þessi vinna athygli út fyrir landsteinana og var styrkt meðal annars af NOMESCO.

 

Forstöðumaður rannsóknarinnar var Guðmundur Sigurðsson læknir og var niðurstöðum lýst í "Egilsstaðarannsóknin. Sjúkraskrár fyrir heilsugæslustöðvar og tölvufærsla upplýsinga" (Heilbrigðisskýrslur 1980, fylgirit nr.1) og "Skráning á samskiptum í heilsugæslu" (Heilbrigðisskýrslur 1983, fylgiriti nr. 1) auk birtra gagna í erlendum heimildum. Vinna hófst við nýtt skráningarkerfi fyrir heilsugæslu árið 1993 sem var tekið í gildi fyrst árið 1997 (Saga).

 

Skráning hjúkrunar

Vinnuhópur Landlæknisembættisins um skráningu hjúkrunar hefur verið starfandi frá árinu 1986 við að bæta skráningu hjúkrunar og stuðla að markvissari upplýsingasöfnun. Auk þess hefur þýddi hópurinn flokkunarkerfin NANDA hjúkrunargreiningar og NIC hjúkrunarmeðferðir og birt m.a. í Handbók um skráningu hjúkrunar. Þessari vinnu stýrði Vilborg Ingólfsdóttir áður og Anna Björg Aradóttir nú en Ásta Thoroddsen hefur verið ritstjóri útgáfunnar. Nú er í vinnslu þýðing og innleiðing alþjóðlegs flokkunarkerfis fyrir hjúkrun, International Classification of Nursing Procedures eða ICNP.

 

Önnur kóðuð orðasöfn

Fyrirmæli landlæknis ná ekki yfir allar þarfir fyrir kóðuð flokkunarkerfi eða orðasöfn enn sem komið er. Á haustmánuðum 2011 gekk Ísland í alþjóðleg samtök er nefnast International Health Terminology Standards Development Organisation eða IHTSDO. Því fylgir heimild til að nýta SNOMED-CT innan Íslands í tilvikum sem það hentar. Stefnt er að því að kóðuð orðasöfn sem eru í notkun í heilbrigðisþjónustunni uppfylli faglegar og tæknilegar kröfur sem til slíkra kerfa eru gerðar. Í nýlegum útgáfum af rafrænum skráningarkerfum finnast þó enn sérsmíðuð kóðuð flokkunarkerfi frá eldri skráningarkerfum.

 

Í skýrslu frá NOMESCO um sögu skráningar í norrænum heilbrigðiskerfum "Health Classifications in the Nordic Countries. Historic development in a national and international perspective 2006" má sjá þar nánari útlistun á þróun skráningar og notkunar flokkunarkerfa á öllum Norðurlöndum.


Fyrst birt 15.05.2012

<< Til baka