Leiðbeiningar um notkun bóluefna við hlaupabólu

Lifandi, veiklað bóluefni gegn hlaupabólu kom fyrst á markað í Japan upp úr 1970. Þar og í nokkrum öðrum löndum í Asíu hefur bóluefnið verið notað í ungbarnabólusetningu til margra ára en í Bandaríkjunum hefur verið mælt með bólusetningu allra barna eldri en 12 mánaða frá og með árinu 1995.

Hlaupabólubóluefni (VarilrixÒ, GlaxoSmithKline) hefur verið á markaði hér á Íslandi í nokkur ár en ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um almenna notkun bóluefnisins í ungbarnabólusetningum á Íslandi. 

Þar sem að bóluefni gegn hlaupabólu er mjög virkt gegn alvarlegri hlaupabólu (>95%) og vel virkt gegn allri hlaupabólu (70-90%) vill sóttvarnalæknir vekja athygli heilbrigðisstarfsfólks á nokkrum ábendingum og frábendingum fyrir notkun þessa bóluefnis.

 

Ábendingar:

 

 1. Hraustir einstaklingar sem ekki hafa fengið hlaupabólu geta fengið bólusetningu að eigin ósk og á eigin kostnað. Skráð ábending bóluefnis mælir með tveimur sprautum hjá öllum einstaklingum frá 9 mánaða aldri. Sex vikur skulu líða á milli skammtanna og ekki undir neinum kringumstæðum skulu líða minna en 4 vikur.
 2. Hraustir einstaklingar sem annast ónæmisbælda sjúklinga og ekki hafa fengið hlaupabólu; t.d. einstaklingar í fjölskyldum þar sem ónæmisbældur einstaklingur dvelur eða starfsfólk á sjúkrahúsum. Mjög litlar líkur eru á að bólusettur einstaklingur smiti hinn ónæmisbælda af veirunni sem er í bóluefninu og því er ekki þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum í samskiptum ónæmisbældra við nýbólusettan einstakling. 
 3. Hraustir einstaklingar útsettir fyrir hlaupabólu. Hafi hraustur einstaklingur verið útsettur fyrir hlaupabólu þá getur bólusetning innan þriggja sólarhringa frá smiti komið í veg fyrir sjúkdóm. 
 4. Hlaupabólubóluefni má gefa samtímis öllum bóluefnum en ekki í sömu sprautu eða á sama stað. Ef MMR bóluefnið er ekki gefið á sama tíma þá verður að líða minnst 1 mánuður á milli bólusetninga. Þetta gildir ekki um önnur bóluefni.

 

 

Frábendingar:


 1. Börn Þar sem mótefni gegn hlaupabólu frá móður geta verið til staðar í barninu allt fyrsta árið þá er almennt ekki ráðlegt að bólusetja börn yngri en 12 mánaða því mótefnin geta minnkað ónæmissvörunina. 
 2. Ónæmisbældir einstaklingar. Að öllu jöfnu skal forðast að bólusetja ónæmisbælda einstaklinga, sérstaklega þá með bælingu á frumubundnu ónæmi. Ekki skal bólusetja sjúklinga með ALL ("acute lymphocytic leukemia") fyrr en sjúkdómurinn hafi verið í rénun (remission) í eitt ár. 
 3. Einstaklingar á sterameðferð. Einstaklingar á háskammta sterameðferð (>2 mg/kg/dag af prednisón eða >20 mg/dag ef >10 kg) í meira en 1 mánuð skal ekki bólusetja. Eftir að sterameðferð hefur verið hætt í 1 mánuð má hins vegar bólusetja. Sjúklingar á lægri skömmtum af sterum og a.ö.l. með óskert ónæmiskerfi má bólusetja þó margir kjósi að hætta meðferð í 1-2 vikur áður. Sterameðferð með innöndunarúða er ekki frábending fyrir bólusetningu. 
 4. Þungun og brjóstagjöf. Engin dæmi eru um alvarlega sýkingu hjá fóstri eftir bólusetningu móður. Brjóstagjöf er ekki frábending fyrir bólusetningu móður eða barns. 
 5. Ofnæmi fyrir neómycíni. Saga um alvarleg ofnæmisviðbrögð við neómycíni er frábending fyrir bólusetningu. Hafi einstaklingur hins vegar einungis sögu um ofnæmisviðbrögð í húð ("contact dermatitis") er óhætt að bólusetja. 
 6. Gjöf mótefna og annarra blóðefna. Hafi einstaklingur fengið mótefni eða blóðgjöf er ráðlagt að bíða með bólusetningu í a.m.k. 5 mánuði þar sem mótefnasvarið getur orðið lélegt. 
 7. Gjöf salisýlata. Hætta á Reye heilkenni er óþekkt eftir bólusetningu einstaklinga sem eru á salicýlat meðferð. Bóluefnaframleiðandinn mælir hins vegar með að bíða með salicýlatgjöf í sex vikur eftir bólusetningu.

 

 

Aukaverkanir bólusetninga:


Aukaverkanir hlaupabólubólusetninga eru fátíðar og mun sjaldgæfari en eftir venjulega hlaupabólu.

 

 1. Hlaupabóluútbrot hafa sést í 37 skipti eftir hverjar 100.000 bólusetningar. Í flestum tilfellum var um náttúrulega hlaupabólu að ræða. 
 2. Herpes zoster sést eftir 2,6 bólusetningar af hverjum 100.000 en sést hjá um 68 af hverjum 100.000 börnum sem sýkst hafa af hlaupabólu. 
 3. Engum alvarlegum tilfellum hefur verið lýst hjá einstaklingum sem sýkst hafa af veiklaðri veiru sem í bóluefninu er.

 

 


Fyrst birt 09.05.2012
Síðast uppfært 21.11.2016

<< Til baka