Fjölþjóðlegur samanburður á heilbrigðistölfræði

Tölulegar upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu veita vitneskju sem nauðsynleg er við skipulag og stefnumótun í heilbrigðismálum. Nýtast þær við mat á heilbrigðisástandi þjóðarinnar og þeirri þjónustu sem veitt er innan heilbrigðiskerfisins, auk þess sem þær auðvelda gerð áætlana til lengri tíma. Algengt er að setja slíkar upplýsingar fram með samanburði við önnur lönd og getur það aukið notagildi þeirra. Samanburður milli landa á tölulegum upplýsingum um heilbrigðismál er þó ekki alltaf einfaldur. Koma þar m.a. til mismunandi skráningarkerfi og mismunandi skipulag heilbrigðiskerfa.

Ýmsar fjölþjóðastofnanir annast söfnun og framsetningu heilbrigðistölfræði frá aðildarlöndum sínum. Leggja Íslendingar m.a. fram gögn í þeim tilgangi. Hluti þessara gagna er unninn hjá Embætti landlæknis og á rætur að rekja til skráningar í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Helstu gagnabankar sem Íslendingar senda gögn til eru á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Hagstofu Evrópusambandsins (EUROSTAT) og Norræna heilbrigðistölfræðiráðsins (NOMESCO). Alþjóðastofnanir hafa í vaxandi mæli reynt að samþætta vinnu sína við innköllun gagna og auka samanburðarhæfni talna. Árangur hefur náðst á ýmsum sviðum þó enn sé langt í land í mörgum málaflokkum. Þetta þarf að hafa í huga við allan samanburð og gæta þess að gögn séu nýtt og túlkuð með ábyrgum hætti. Jafnframt þarf að gæta vel að athugasemdum og öðrum skýringartexta sem fylgir tölunum.

Gögnum er oftast safnað einu sinni á ári samkvæmt fyrirfram skilgreindum mælikvörðum. Val á mælikvörðum byggir alla jafna á mikilvægi þeirra í einhverjum skilningi og því hvort gögn séu almennt skráð og aðgengileg. Á síðunni alþjóðleg gagnasöfn má finna yfirlit yfir helstu gagnasöfn ofangreindra stofnana.

 

Sjá einnig Tölfræði


Fyrst birt 23.05.2012
Síðast uppfært 09.06.2017

<< Til baka