Alþjóðleg gagnasöfn

Ýmsar fjölþjóðastofnanir annast söfnun og framsetningu heilbrigðistölfræði frá aðildarlöndum sínum. Leggja Íslendingar m.a. fram gögn í þeim tilgangi. Hluti þessara gagna er unninn hjá Embætti landlæknis og á rætur að rekja til skráningar í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Helstu gagnabankar sem Íslendingar senda gögn til eru á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Hagstofu Evrópusambandsins (EUROSTAT) og Norræna heilbrigðistölfræðiráðsins (NOMESCO).

Hér á eftir fer yfirlit yfir helstu gagnasöfn ofangreindra stofnana.

 

WHO (Alþjóða heilbrigðismálastofnunin)

Söfnun og miðlun heilbrigðisupplýsinga er eitt af meginhlutverkum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. Stofnunin heldur utan um svokallað Global Health Observatory en markmið þess er að safna og birta áreiðanlegar upplýsingar um heilbrigðismál frá öllum aðlidarlöndunum á aðgengilegan hátt. Upplýsingar eru birtar sem tölulegt efni á vefnum en einnig í skýrslum. Má þar nefna árlega skýrslu, World Health Statistics, en einnig eru gefnar út sérstakar skýrslur um valið efni. 

  • Heilsufar og heilbrigðisþjónusta

Á miðjum níunda áratugnum kom Evrópudeild WHO á fót gagnabankanum European Health for All Database (HFA-DB) og hefur hann síðan verið ein af meginuppsprettum upplýsinga um heilsufar og heilbrigðisþjónustu í Evrópu. Gögn í HFA-gagnabankanum, sem aðgengilegur er á vef WHO, ná alla jafna aftur til ársins 1970, og þar getur notandi valið hvaða mælikvarða hann vill skoða, hvaða lönd og hvaða ár. Niðurstöður birtast ýmist í töflum eða myndritum.

  • Dánarorsakir

Evrópuskrifstofa WHO rekur einnig aðra gagnabanka sem aðgengilegir eru á vefnum. Má þar nefna European Mortality Database (MDB), sem innheldur upplýsingar um dánarorsakir samkvæmt fyrirfram skilgreindum flokkum. Tölurnar ná aftur til ársins 1980. Til viðbótar er gagnagrunnurinn European Detailed Mortality Database (DMDB) sem inniheldur ítarlegri upplýsingar um dánarmein, niður á 3-stafa ICD-kóða.

  • Sjúkdómsgreiningar

Í gagnagrunninum European Hospital Morbidity Database (HMDB) eru birtar upplýsingar um þá þætti sjúkrahúsaþjónustunnar er snúa að sjúkdómsgreiningum.

 

OECD

OECD heldur margskonar gagnasöfn, þar með talið um heilbrigðismál. Auk þess gefur stofnunin út ýmis rit um heilbrigðismál, s.s. Health at a Glance. Ritið er gefið út annað hvert ár og er aðgengilegt á vef stofnunarinnar. Í því er unnt er að sjá stöðu einstakra aðildarlanda miðað við önnur lönd í OECD sem og meðaltal ríkjanna. Þá er gerð grein fyrir gögnunum, þ.m.t. annmörkum þeirra, eftir því sem við á. Health at a Glance ritin má nálgast á vef OECD.

Árið 2010 gaf OECD, í samvinnu við Evrópusambandið, í fyrsta sinn einnig út sérstaka skýrslu, Health at a Glance: Europe, en þar er að finna sambærilegar upplýsingar um Evrópusambandslöndin, umsóknarlönd að sambandinu, auk Íslands, Noregs og Sviss. Nýjasta skýrslan er aðgengileg í rafrænu fomi á vefnum Health at a Glance: Europe 2014.

 

Evrópusambandið

Hagstofa Evrópusambandsins, EUROSTAT, safnar margvíslegum gögnum frá Evrópusambandslöndunum, EFTA-löndunum og löndum sem eru í umsóknarferli gagnvart sambandinu. Þar á meðal eru upplýsingar um heilbrigðismál. Upplýsingarnar eru bæði birtar á vef EUROSTAT og í ýmsum prentuðum skýrslum.

Margvíslegar upplýsingar er að finna á yfirlitssíðu EUROSTAT um heilbrigðistölfræði, s.s. um útgjöld til heilbrigðismála, mönnun og þjónustu í heilbrigðiskerfinu, auk upplýsinga um heilbrigðisástand sem fengnar hafa verið úr spurningakönnunum.

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (European Centre for Disease Prevention and Control - ECDC) vaktar smitsjúkdóma í Evrópu og veitir ráðgjöf um sóttvarnaráðstafanir. Mikilvæg forsenda fyrir starfi ECDC er gagnaöflun og birtir stofnunin margvíslegar skýrslur með tölfræðilegu efni varðandi smitsjúkdóma á vef sínum.   

 

NOMESCO

NOMESCO vinnur að því að skapa grundvöll fyrir samanburð tölfræðilegra upplýsinga milli Norðurlandanna, en einnig að nýsköpun í heilbrigðistölfræði og fylgist með alþjóðaþróun á því sviði. Á vegum nefndarinnar er árlega gefið út ritið Health Statistics in the Nordic Countries og má nálgast það á heimasíðu nefndarinnar. Þar má einnig finna töflur með ítarlegra talnaefni.

Nánar um fjölþjóðlegan samanburð.


Fyrst birt 23.05.2012
Síðast uppfært 26.07.2021

<< Til baka