Slysaskrá Íslands

Slysaskrá Íslands er miðlægur gagnabanki sem inniheldur upplýsingar um slys með meiðslum og upplýsingar um eignatjón í umferðaróhöppum. Einungis eru skráðar lágmarksupplýsingar um slysið sjálft, slasaða einstaklinga og ökutæki. Slysaskrá Íslands er varðveitt hjá Embætti landlæknis sem fer með daglega umsjón með skránni.

Tilraunaskráning hófst í Slysaskrá Íslands 1. október 2001. Formleg skráning hófst hins vegar 1. apríl 2002 og frá og með þeim tíma hafa tölur verið gefnar út. Árið 2003 var því fyrsta heila skráningarárið sem birt var á vefsetri embættisins.

 

Aðdragandi

Fyrir tilkomu Slysaskrár Íslands hafði það lengi staðið þeim sem starfa við slysavarnir fyrir þrifum hversu víða í samfélaginu upplýsingar um slys var að finna og einnig hversu lítt sambærileg skráð gögn voru. Erfitt var að leggja nákvæmt mat á tíðni slysa og eðli þeirra. Fjöldi slysa var því jafnan gróflega áætlaður sem gerði samanburð milli ára og landa afar flókinn og erfiðan.

Með lögum nr. 33/1994 um slysavarnaráð var ráðinu gert að samræma skráningu slysa hér á landi. Embætti landlæknis og slysavarnaráð höfðu síðan frumkvæði að þeirri samræmingu með gerð og þróun hins miðlæga gagnabanka Slysaskrár Íslands. Í upphafi var gerður samningur um Slysaskrá milli aðila utan heilbrigðiskerfisins sem innan. Aðilar þess samnings voru slysavarnaráð, Landlæknisembættið, Landspítali, Ríkislögreglustjóraembættið, Samband íslenskra tryggingafélaga, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Tryggingastofnun ríkisins, Umferðarráð og Vinnueftirlit ríkisins.

Þann 1. september 2007 tóku gildi ný lög um landlækni þar sem m.a. segir að landlækni sé skylt að halda Slysaskrá Íslands og heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum gert að veita landlækni þær upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til að halda skrána. Fyrir tilkomu laganna gilti áðurnefndur samningur og var heilbrigðisstofnunum því frjálst að ákveða hvort þær tækju þátt í skráningunni. Í kjölfar laganna fjölgaði skráningaraðilum innan heilbrigðiskerfisins til muna.

Slysaskrá Íslands hlaut styrki úr markáætlun Rannís um upplýsingatækni og umhverfismál á árunum 2001-2003. Styrkir þessir komu að góðum notum við að gera Slysaskrá Íslands að því rannsóknartæki sem vonir stóðu til.

 

Hlutverk

Markmið Slysaskrár er að samræma skráningu slysa og veita yfirlit yfir fjölda slysa, orsakir þeirra og afleiðingar, þannig að unnt sé að hafa áhrif á þessa sömu þætti. Hlutverk Slysaskrár er ennfremur að skapa möguleika á ítarlegri rannsóknum á slysum.

 

Skráningaraðilar

Fjöldi skráningaraðila var í upphafi takmarkaður við fjóra: Vinnueftirlitið, slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH), Tryggingamiðstöðina og Ríkislögreglustjóraembættið. Þessir aðilar voru valdir með tilliti til þess að fá sem mesta breidd í samstarfið strax í upphafi. Það hefur hins vegar verið framtíðarmarkmið allt frá fyrstu tíð að koma á samræmdri slysaskráningu sem nær til allra þeirra sem meðhöndla upplýsingar um slys.

 

 • Árið 2002 skráðu: 
  Slysadeild LSH, Vinnueftirlit ríkisins, Tryggingamiðstöðin, Ríkislögreglustjóraembættið (að hluta)
 • Árið 2003 skráðu: 
  Slysadeild LSH, Vinnueftirlit ríkisins, Tryggingamiðstöðin, Ríkislögreglustjóraembættið (að hluta), Heilbrigðisstofnun Austurlands (Kárahnjúkasvæðið eingöngu)
 • Árið 2004 skráðu: 
  Slysadeild LSH, Vinnueftirlit ríkisins, Tryggingamiðstöðin, Ríkislögreglustjóraembættið (að hluta), Heilbrigðisstofnun Austurlands (Kárahnjúkasvæðið eingöngu)
 • Árið 2005 skráðu: 
  Slysadeild LSH, Vinnueftirlit ríkisins, Tryggingamiðstöðin, Ríkislögreglustjóraembættið (að hluta), Heilbrigðisstofnun Austurlands (Kárahnjúkasvæðið eingöngu), Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunin Siglufirði.
 • Árið 2006 skráðu:
  Slysadeild LSH, Vinnueftirlit ríkisins, Tryggingamiðstöðin, Ríkislögreglustjóraembættið (að hluta), Heilbrigðisstofnun Austurlands (Kárahnjúkasvæðið eingöngu), Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunin Siglufirði, Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði, Heilsugæslan Grundarfirði, Heilbrigðisstofnunin Bolungarvík.
 • Árið 2007 skráðu:
  Slysadeild LSH, Vinnueftirlit ríkisins, Tryggingamiðstöðin, Ríkislögreglustjóraembættið (að fullu), Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunin Siglufirði, Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði, Heilsugæslan Grundarfirði, Heilbrigðisstofnunin Bolungarvík, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunin Akranesi.
 • Árið 2008 skráðu:
  Slysadeild LSH, Vinnueftirlit ríkisins, Tryggingamiðstöðin, Ríkislögreglustjóraembættið, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunin Siglufirði, Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði, Heilsugæslan Grundarfirði, Heilbrigðisstofnunin Bolungarvík, Heilbrigðisstofnunin Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnunin Akranesi, Heilbrigðisstofnunin Blönduósi, Heilsugæslan Búðardal, Heilsugæslan Dalvík, Heilbrigðisstofnunin Hólmavík, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum.
 • Árið 2009 skráðu:
  Slysadeild LSH, Vinnueftirlit ríkisins, Tryggingamiðstöðin, Ríkislögreglustjóraembættið, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunin Siglufirði, Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði, Heilsugæslan Grundarfirði, Heilbrigðisstofnunin Bolungarvík, Heilbrigðisstofnunin Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnunin Akranesi, Heilbrigðisstofnunin Blönduósi, Heilsugæslan Búðardal, Heilsugæslan Dalvík, Heilbrigðisstofnunin Hólmavík, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum, Sjúkrahúsið Akureyri og Heilsugæslan Lágmúla.
 • Árið 2010 skráðu:
  Slysadeild LSH, Vinnueftirlit ríkisins, Tryggingamiðstöðin, Ríkislögreglustjóraembættið, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunin Siglufirði, Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði, Heilbrigðisstofnunin Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnun Vesturlands (Akranesi, Búðardal, Hólmavík), Heilbrigðisstofnunin Blönduósi, Heilsugæslan Dalvík, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum, Sjúkrahúsið Akureyri og Heilsugæslan Lágmúla.
 • Árið 2011 skráðu:
  Slysadeild LSH, Vinnueftirlit ríkisins, Tryggingamiðstöðin, Ríkislögreglustjóraembættið, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunin Siglufirði, Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði, Heilbrigðisstofnunin Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnun Vesturlands (Akranesi, Búðardal, Hólmavík, Ólafsvík), Heilbrigðisstofnunin Blönduósi, Heilsugæslan Dalvík, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum, Sjúkrahúsið Akureyri og Heilsugæslan Lágmúla. 
 • Árið 2012 skráðu:

Slysadeild LSH, Vinnueftirlit ríkisins, Tryggingamiðstöðin, Ríkislögreglustjóraembættið, Heilbrigðisstofnun Austurlands (Egilsstaðir, Neskaupstaður), Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunin Siglufirði, Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði, Heilbrigðisstofnunin Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnun Vesturlands (Akranes, Búðardalur, Hólmavík, Ólafsvík, Hvammstangi), Heilbrigðisstofnunin Blönduósi, Heilsugæslan Dalvík, Heilbrigðisstofnun Suðurlands (Árborg, Hveragerði, Rangárþing, Vík í Mýrdal, Ölfus), Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum, Sjúkrahúsið Akureyri, Heilsugæslan Lágmúla og Heilsugæslan Salahverfi. 


Skráningin

Skráning fer ýmist fram með sérstakri skráningu í vefviðmót Slysaskrár, með skráningu í gegnum hið svokallaða Sögukerfi á heilsugæslustöðvunum eða með beinni vörpun úr dreifðum gagnasöfnum. Vörpunin tryggir það að ekki þarf að tvískrá upplýsingar. Skráningaraðilar skrá þá ítarlegri upplýsingar um slys í eigin gagnasöfn, rétt eins og gert var fyrir tilkomu Slysaskrár. Hluti upplýsinganna er hins vegar sendur Slysaskrá rafrænt um leið og hin venjubundna skráning fer fram.

Þegar slys eru skráð í Slysaskrá fá þau einkvæmt atburðarnúmer. Númerið verður til í Slysaskrá Íslands en verður auk þess eftir í hinum dreifðu gagnagrunnum. Þetta fyrirkomulag gefur möguleika á að sækja ítarlegri upplýsingar um þau slys sem skráð eru í Slysaskrá Íslands, sé þess þörf.

 

Skráningaratriði (sum valkvæm)

Fyrir slysið:

 • Dagsetning slyss
 • Tími slyss
 • Tegund slyss (umferðarslys, vinnuslys, heima-og frítímaslys, flugslys, sjóslys, íþróttaslys, skólaslys, önnur slys)
 • Sveitarfélag
 • Gata og húsnúmer
 • Vettvangur (26 flokkar, t.d. á sjó, gangstétt, skólasvæði)
 • GPS-hnit
 • Athugasemd

 

Fyrir tilvikið (einstaklingar og bílar):

 • Kennitala/bílnúmer
 • Kyn
 • Flokkun alvarleika áverka (Banaslys, mikil meiðsli, lítil meiðsli)
 • Flokkun eignatjóns (lítið eignatjón, mikið eignatjón)
 • Athugasemd

Fyrst birt 20.01.2014
Síðast uppfært 03.11.2016

<< Til baka